Góði hirðirinn

Góði hirðirinn

Ég vildi að væri rolla. Þá gæti ég bara bitið gras og þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur. Þetta sagði kunningi minn, eitt sinn fyrir langa löngu þegar honum fannst lífið alltof erfitt og flókið.

Hirðisraust þín, Herra blíði, hljómi skært í eyrum mér, svo ég gjarna heyri' og hlýði hennar kalli' og fylgi þér, þér, sem vegna þinna sauða þitt gafst sjálfur líf í dauða, þér, sem ert mín hjálp og hlíf, huggun, von og eilíft líf.

Náð sé með yður og friður frá Drottni Jesú Kristi. Amen.

Ég vildi að væri rolla. Þá gæti ég bara bitið gras og þyrfti ekki að hafa neinar áhyggjur. Þetta sagði kunningi minn, eitt sinn fyrir langa löngu þegar honum fannst lífið alltof erfitt og flókið. Að öllum líkindum væri ég búin að gleyma þessu samtali ef þessi kunningi minn hefði ekki verið svo gormæltur að hann átti í mestu vandræðum með að segja rolla. Mig minnir að ég hafi verið sautján ára og á þeim tímapunkti í lífi manns ganga hlutirnir annað hvort eða þeir ganga ekki. En aldrei hafði mér dottið til hugar að vilja skipta á mínu lífi og lífi rollu og því fannst mér yfirlýsingin sláandi. Flestar skepnur áttu ágætt líf þar sem við þekktum til en verkurinn var að ekki voru allar gimbrar á vetursetjandi.

Í Biblíunni er oftsinnis talað um Guð sem hirði þjóðar sinnar og þá um leið um þjóðina sem sauði. Margir lykilmenn Gamla testamentisins voru einmitt sauðahirðar sem Guð fól svo enn stærra og ábyrgðarmeira hirðishlutverk. Má nefna Davíð sem var kallaður hirðir Guðs, spámanninn Míka og síðast en ekki síst Móse sem mátti fyrst sanna sig sem sauðahirði áður en Guð fól honum hið erfiða hlutverk að vera hirði þjóðar sinnar.

Dæmisagan um góða hirðinn er auðskilin fyrir þann sem alinn er upp við sauðfjárbúskap. Góður fjáreigandi leggur allt að því líf sitt í sölurnar fyrir sauðina að minnsta kosti á ögurstundu. Þetta er veruleiki allra sem eiga skepnur og sinna þeim af alúð og natni. En á Íslandi höfum við enga fjárhirða en erlendi hirðirinn átti sér þó kollega hér sem var íslenski smalinn. Smalinn var alltaf á hlaupum á eftir skjátunum en hirðirinn vann sér verkið léttara með því að kenna fjénu að elta sig. Hann fór fyrir hópnum og veitti honum forystu. Stundum heltist einn og einn sauður úr lestinni og þá snéri góður hirðir við til að leita hann uppi. Smalinn uppi á Íslandi rak hópinn á undan sér sem gat haft í för með sér að erfitt var að stjórna hraðanum á hjörðinni. Ef að hlaupagáttir leyndust innan um, þýddi það ekki annað en að smalinn varð að hlaupa allt hvað af tók, ellegar verða stunginn af. Þetta eru tvær ólíkar aðferðir sem þó stefna að sama marki, að passa upp kindurnar sínar, vini sína og lifibrauð í senn.

Hjörtum mannanna svipar saman, í Súdan og Grímsnesinu sagði Tómas Guðmundsson og eins er farið með sauðina. Íslenskar kindur hundsa oftsinnis fyrirmæli eiganda síns og vilja hlaupa í aðra átt en hann vill að þær fari. Þær reyna að sleppa með öllum tiltækum ráðum, sumar svo kænar að þær reyna að standa eftir undir barði eða bak við steini. Aðrar einaraðar í að láta ekki ná sér og stökkva frekar á fólk og girðingar en gefa eftir frelsið. Sauðurinn í Landinu helga var gjarn á að láta sig dragast aftur úr og týnast. Smalamennirnir og hirðar allra landa ganga sig upp af hnjám og öskra sig hása í von um að koma vitinu fyrir skepnurnar.

Að trúa er að treysa. Boðskapur dæmisögunnar er þessi: Við eigum góðan hirði, einstakan hirði sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir okkur mennina. Við skulum reyna að hafa hann ávallt í sjónmáli, reyna að rækta sambandið við Jesú Krist. Hann er ekki aukapersóna í lífi okkar sem dúkkar upp á jólum og páskum. Hann hefur gengið götuna á undan okkur og er alltaf mitt á meðal okkar. Ef okkur tekst að koma auga á hann, réttir hann okkur hönd sína og vill styðja okkur. Hann er tilbúin að taka af okkur byrgðarnar, áhyggur og sorgir og bera þær með okkur. En við látum ekki föggur okkar í hendurnar á ókunnungum. Við deilum hvorki gleði eða sorg með þeim sem við þekkjum ekki. Við erum tortryggin eins og styggustu ær. Við kjósum frelsið, viljum engum vera háð og geta hagað okkur eftir eigin geðþótta. Kannski að við búum við falskt öryggi. Öryggið sem felst í því að halda að við getum alltaf treyst á okkur sjálf. Þetta á oft sérstaklega við okkur sem erum ung og sæmilega heilsuhraust. Lífið allt er framundan með svo mörgum tækifærum að við verðum að velja og hafna. Við teljum okkur trú um að við getum staðið óstudd og gert hlutina sjálf. Enginn brekka er svo brött að hún verði okkur hindrum og himinn heiður og tær. En það leynast hættur á leiðinni. Pyttir og botnlaus dý og úlfar sem vilja hremma okkur til sín og hafa okkur í hádegismat. Það má ekki mikið út af bregða. Allt í einu getur fótunum verið kippt undan okkur í einu vetfangi. Þá skiptir ekki máli hvort við erum góðar eða slæmar manneskjur, hvort við erum í mínus eða plús í bankanum eða hvort við erum í samböndum við mann eða annan. Á einhverjum tímapunkti þurfum við að standa frammi fyrir Guði. Þá þýðir ekki að fela sig undir barði eða ætla að renna af hólmi eins og óþekk rolla. Stundum til að glíma við hann, krefja hann svara og draga hann til ábyrgðar. Eða af því að við höfum ekki í önnur hús að venda, við eigum ekki annarra kosta völ. Og þá skiptir það máli hvort við þekkjum Guð. Hvort að við stöndum frammi fyrir vini eða ókunnugum. Guðsmynd fólks er ólík. Fyrir sumum er Guð fjarlægur en nálægur örðum og eflaust eru til enn aðrir sem vilja ekki trúa að Guð sé til. Ritningin dregur upp margar myndir af Guði. Jesús notaði dæmisögur jöfnum höndum til þess að útskýra hver hann væri og til hvers hann væri kominn í heiminn. Góði hirðirinn er ein frægasta dæmisaga hans. Jesús er okkar hirðir og Jesús er góður. Hann kallar okkur til sín og það er okkar að svara. Hann er alltaf til staðar, reiðubúinn að sinna hjörðinni. Hann segist þekkja sína sauði og þeir þekkja hann. Samband kemst ekki á nema við hlustum og svörum kalli hans. Öðruvísi lærum við ekki að taka eftir honum í lífi okkar. Leyfum honum að hjálpa okkur og leyfum okkur að finna fyrir nálægð hans. Ekki vegna þess að nokkurt okkar verðskuldi náð Guðs, og alla þá hjálp sem hann vill ljá okkur. Jesús elskað okkur af fyrra bragði, ekki einhverja fáa heldur okkur öll og það skilyrðislaust. Hann leggur líf sitt í sölurnar svo að við mættum lifa. Veljum því lífið og fylgjum hirðinum okkar góða.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.