Tímamótakvöld

Tímamótakvöld

Hér í Keflavík undirbúum við okkur fyrir að minnast þeirra tímamóta þegar hér reis helgidómur uppi á völlunum fyrir ofan bæinn. Þetta var ótrúlegt afrek og ber vott um það hversu einbeittir bæjarbúar voru til þess að byggja hér upp öflugt samfélag. Við rifjum upp þessa sögu á tímamótakvöldunum okkar og kynnumst þar ólíkum hliðum á þessari sögu á ólíkum tímum.

Framundan eru tímamót hér í Keflavíkurkirkju. Helgidómurinn verður hundrað ára á næsta ári. Það verðskuldar að okkar mati nokkurt tilstand þar sem við einkum hugleiðum merka sögu mannlegs samfélags hér suður með sjó. Þessi saga er lengri og fjölbreyttari en margan kann að gruna.

Tímamótakvöld

Hluti þess að minnast þessara tímamóta eru tímamóta-kvöldin sem við höldum í Keflavíkurkirkju á þessu ári. Á þeim fáum við fregnir af lífinu í hinni gömlu Keflavík sem er svo ólík þeirri sem við þekkjum í dag. Þessi helgidómur er þar jafnan í bakgrunninum og hluti minninganna á sér stað og stund innan þessara veggja eða tengdist því starfi sem hér fór fram.

Í Keflavíkurkirkju sátu kynslóðir á kirkjubekkjum og hver fjölskylda átti sinn sess. Hér stigu upprennandi popparar sín fyrstu skref í tónlistinni. Hingað leitaði fólkið í sorg og örvæntingu eftir Brunann í Skildi 1935 og leiðtogar sem hér störfuðu, mótuðu samfélagið, stofnuðu hópa, stóðu fyrir útgáfustarfsemi, unnu að ýmsu mannræktarstarfi sem skoða má sem rótarskot af þeim stofni sem kirkjan er. Þetta er ekkert einsdæmi hér. Kirkjan hefur verið einn brýnasti áhrifavaldurinn í því að byggja upp einstaklinga og hópa fólks í gegnum tíðina.

Starf hennar hefur verið drifið áfram í gegnum aldirnar af brennandi hugsjón fyrir því að mennta, styrkja og efla fólk á öllum aldri til þess að gera því kleift að öðlast fyllra líf og láta drauma sína rætast. Við sjáum ýmis merki þess að hve miklu þetta starf varðaði. Mér þykir merkilegt að hugleiða svarið sem þeir Fjölnismenn gáfu þegar þeir voru inntir eftir því hvert væri brýnasta framfaramál Íslendinga á fyrri hluta nítjándu aldar. Jú, þeir töldu mikilvægast að stofna hér íslenskan prestaskóla. Ekkert var í þeirra huga meiri samnefnari fyrir uppbyggingu í þessu landi okkar en það hér væru menntaðir góðir prestar.

Hjartað

Hinir gömlu Keflvíkingar hugsuðu ekki ólíkt um aldamótin 1900 þegar þeir hugleiddu hvar styrkur og framtíð þessa samfélag hér kynni að liggja. Og það voru tímamót þegar þessi helgidómur reis. Hann rúmaði annan hvern bæjarbúa, 250 sæti í 500 manna plássi. Hér blasti við fátæku fólki myndlist Ásgríms Jónssonar af Jesú þar sem hann flytur fjallræðuna yfir fólkinu og í baksýn eru hin íslensku fjöll blá í fjarskanum. Sjálf byggingin, merkur vitnisburður um byggingarlist Rögnvalds Jónssonar og var hið innra og ytra til marks um ótrúlegan metnað íslensks alþýðufólks sem gaf engan afslátt þegar kom að því að prýða Guðs húsið því besta sem í boði var.

Hvaða hvatir bjuggu þar að baki? Hvaðan kom sú samstaða sem rak vinnulúna Keflvíkinga upp úr aldamótunum í grjótnámurnar þar sem þeir óku hlassinu á hjólbörum þar sem steinninn var mulinn og hrært saman í sement. Var það af þrælslund eða ótta við vítisvist? Nei, frásagnir benda allar til hins sama, þetta var hjartað í samfélaginu. Að baki bjó sú hugsjón að helgidómurinn væri eins og miðstöð fyrir það sem er gott og byggir upp og eins og dæmin sýna þá var sú einmitt raunin.

Leiðarljós

Við fáum innsýn í það sem bjó þar að baki í textum dagsins. Þar finnum við rætur sterkra hugsjóna – leiðarljós sem hefur skinið í gegnum aldirnar og beint fólki á rétta braut.

Hinn ævaforni texti fimmtu Mósebókar sem hér var lesinn lýsir því hvað það er að eiga sér trú á Guð. Þar sjáum við mælikvarða og markmið sem eru að sönnu háleit og hafin yfir allt það sem þröngur stakkur eigingirninnar setur okkur. Þessi texti gæti allt eins átt við um okkur – þetta er áminning til barna Guðs um að láta sér þykja vænt um aðkomumanninn. Og við skynjum það einnig að hvötin að þeirri umhyggju er ekki óttinn eða hótunin við guðlegri refsingu. Nei, við heyrum að þar er höfðað til samvisku mannsins, sjálfir voruð þér aðkomumenn í Egyptalandi. Setjið ykkur í spor þeirra sem þurfa á ykkur að halda – ekkert annað er ykkur samboðið. Þetta eru lífsreglur um að við eigum að mæta þeim gestum sem setjast að í landi okkar með kærleika og væntumþykju. Slíkt er einfaldlega hluti af því að eiga sér lifandi trú í hjartanu.

Orð postulans kunna að hafa verið þeim hvatning sem prýddu bæinn sinn með hinni fallegu nýklassísku kirkjubyggingu: ,,Stundið það sem fagurt er fyrir sjónum allra manna". Já, kirkjan er farvegur fyrir fegurðina, það sem lætur okkur horfa mót ljósinu, það sem fyllir okkur gleði yfir tign og dýrð sköpunarverksins.

Boðskapur, áminningar og brýningar hinna fornu rita Biblíunnar hafa þó ekki viðlíka áhrif sem fordæmi Krists hafði og það hvernig hann sýndi með lífi sínu hvernig Guð starfar og vinnur. Í dag heyrðum við af tveimur mönnum og þeir standa hvor sínum megin á mælikvarða valda og virðingar. Sá fyrri var talinn vera óhreinn en hinn síðari réði örlögum fólks. Hann gat boðið og menn hlýddu, þeir fóru jafnvel í opinn dauðann að boði hans. Þeir eru eins og tvær hliðar á mannlegu samfélagi. Annar er fulltrúi þeirra sem standa utangarðs og vekja jafnvel ótta og fyrirlitningu hjá samferðafólkinu. Hinn vakti líka ótta, en það var óttablandin virðing. Hann réði yfir lífi fólks og dauða og slíkt gerði hann að drottnara meðal annarra. En um leið var hann útlendingur – og þar að auki fulltrúi þess yfirvalds sem réði yfir lífi fólksins í landinu.

Báðir áttu þeir samskipti við Jesú. Hvað stendur eftir þegar við hugleiðum viðbrögð hans við erindi þeirra? Finnum við það hvernig hann nálgast þá, hvernig hann eins og kallar fram mennsku þeirra beggja. Sá óhreini fær uppreisn æru. Hann er maður með mönnum. Því Kristur horfði lengra og dýpra en aðrir. Undir sáru holdinu sá hann þau verðmæti sem í honum bjuggu. Rétt eins og Guð sjálfur lítur ekki á okkur sem ófullkomnar breyskar mannverur sem eigum það til að velja ranga leið í lífi okkar. Í augum hans höfum við verið þvegin hvít af syndum okkar og misgjörðum og finnum fyrir kærleika hans streyma á móti okkur.

Valdsmaðurinn hins vegar finnur fyrir þeim takmörkum sem honum eru sett. Valdið er ekki takmarkalaust. Í augum þess sem beygir höfuð sitt fyrir hinum almáttuga Guði á það að vera skýrt hvar mörkin liggja milli þess sem má og þess sem ekki má. Jafnvel einvaldar liðinna alda þurftu að beygja sig fyrir þeim veruleika. Ef þeir gengu út fyrir þau mörk sem þeim voru sett fengu þeir óvægna gagnrýni frá kirkjunnar mönnum því yfir öllu mannlegum mætti er Guð. „Herratign enga að heimsins sið, held ég þar mega jafnast við“ yrkir Hallgrímur Pétursson um kónginn klára, Jesú Krist. Takmörk valdsins

Hershöfðinginn beygði sig í auðmýkt fyrir Kristi og þar birtist okkur mikilvægt leiðarstef sem teygir sig í gegnum sögu kristinna samfélaga i gegnum aldirnar og allt til okkar daga. Háir sem lágir áttu sér hið sama yfirvald og enginn mátti stíga út fyrir þau mörk sem það setti. Þessa afstöðu finnum við sterkt í kenningu Lúthers. Hann boðaði að hver og einn hafi sitt hlutverk til þess að tryggja að allt gangi vel fyrir sig í samfélaginu. Hvort sem fólk stundaði framleiðslu, stjórnsýslu, kennslu, tryggði frið og spekt eða kom með öðrum hætti að uppbyggingu þjóðfélags þjónaði það Guði með störfum sínum og gagnvart Guði eru allir jafnir. Þar með eru allir jafnir fyrir lögunum, sérstaklega þeir sem eiga um sárt að binda. Hinn holdsveiki í sögunni var jafn dýrmætur í augum Krists sem hver annar þótt samferðafólkið hafi lagt á hann fæð. Aðkomumaðurinn í lögbókum Móses á sama tilkall til væntumþykju okkar og virðingar eins og heimamaðurinn. Óttinn við hið framandlega á ekki að móta afstöðu okkar til náungans.

Tímamótahús

Hér í Keflavík undirbúum við okkur fyrir að minnast þeirra tímamóta þegar hér reis helgidómur uppi á völlunum fyrir ofan bæinn. Þetta var ótrúlegt afrek og ber vott um það hversu einbeittir bæjarbúar voru til þess að byggja hér upp öflugt samfélag. Við rifjum upp þessa sögu á tímamótakvöldunum okkar og kynnumst þar ólíkum hliðum á þessari sögu á ólíkum tímum. Við reynum að halda á lofti þeim eldmóð sem hefur einkennt samfélagið í kringum kirkjuna allt frá fyrstu tíð. Og við fundum svo sterkt fyrir því hversu kraftmikið hjarta kirkjan er þar sem hún miðlar blessun til byggðarinnar. Kærleiksríkar hendur koma hingað með gjafir sínar og framlög og gera okkur kleift að byggja upp fólk sem stendur höllum fæti. Fólk leggur sig fram um að prýða helgidóminn, endurnýja hann svo hann samræmist sínu upphaflega útliti. Þannig hefur kirkjan nálgast að nýju uppruna sinn á sama tíma og umhverfi hennar hefur breyst svo mikið á flestum sviðum.

Sú er raunin allt í kringum okkur á þessum tímum. Tímamót verða með nýjum miðlum, nýjum hugmyndum og stórkostlegum breytingum. Í því ölduróti er brýnt að við hlúum að því góða sem kirkja Krists miðlar til okkar, ekki síst þeirri ríku kröfu að við látum okkur þykja vænt um þá sem til okkar leita á flótta undan fátækt og ranglæti á sínum heimaslóðum.

Störf okkar eigum við að vinna Guði til dýrðar og náunganum til heilla og svo verður áfram hér og annars staðar í þessu samfélagi okkar þar sem kirkjan rækir köllun sína og hlutverk.