Án listar er lífið vænglaus fugl

Án listar er lífið vænglaus fugl

Erindi Jesú Krists sem listamanns var að breyta og bæta veröldina, stundum hneykslaði hann með list sinni og gerði menn reiða, stundum var listgjörningur hans torskilinn, gjarnan róttækur, jafnvel íronískur en þó ætíð sannur.
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
10. maí 2011

Kirkjulistavika á Akureyri

Jesús Kristur var listamaður, ljóðrænn, myndrænn og músíkalskur, erindi hans sem listamanns var að hreyfa við fólki, fá það til að skynja mennsku sína og tilfinningar, fá það til að horfa á heiminn frá nýju sjónarhorni, erindi Jesú Krists sem listamanns var að breyta og bæta veröldina, stundum hneykslaði hann með list sinni og gerði menn reiða, stundum var listgjörningur hans torskilinn, gjarnan róttækur, jafnvel íronískur en þó ætíð sannur, því Jesús var sannur í list sinni og þess vegna breytti hún heiminum.

Fjallræða Jesú í Matteusarguðspjalli er dæmi um texta sem er allt í senn ljóð, mynd og tónlist, boðskapur sem snertir fyrst fegurðarskyn lesandans en orkar síðan á tilfinningalíf og siðvitund, setningar eins og „Þér eruð ljós heimsins. Borg sem á fjalli stendur, fær ekki dulist.“ Og síðar kemur þessi setning „Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna“ þetta eru ljóð og myndir og tónlist, ekki þurrar lagasetningar eða valdboð, þetta er umbreytingartexti, ný sköpun.

Lokatilmæli Jesú til lærisveinahópsins fjalla um nýja og sístæða sköpun, „ Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður.“ Við erum sköpuð til að skapa, um það vitna orð Krists og náðargjafirnar sem hverju og einu okkar eru fengnar.

Listin er máttugasta vopn mannsins, vegna þess að hún hjálpar okkur að stækka og þroskast og skilja heiminn, án listar er lífið vænglaus fugl.

Kirkjulistavika sem nú stendur yfir í Akureyrarkirkju opinberar hinn listræna guðdóm, við sjáum sköpun Guðs í náðargjöfum listamannanna og þar er af mörgu að taka, dansmessa, söngleikur barnanna,tónleikar kammerskórsins ísoldar og Hymnodíu, myndlist , djasstónlist, klassísk tónlist, Krílasálmar, Marimbatónlist, Vesper kvæðamannafélagsins, bara svo fátt eitt sé nefnt, allt eru þetta í eðli sínu trúarjátningar.

Undirrituð er óendanlega stolt af menningarlífi Norðurlands en þó ekki síst af því næma listafólki sem starfar hér í kirkjunni, organistar Akureyrarkirkju eiga heiður skilinn fyrir virðinguna gagnvart listinni eins og hún birtist í fjölbreytileikanum.