Vonarberi

Vonarberi

Þrauka má án ástar og gleði en ef vonin slokknar líka þá villast menn. Ferð án vonar er erfið og sporin svo þung en um leið og vonin vaknar aftur verða sporin léttari og viljinn sterkari.
Gunnar Hersveinn Sigursteinsson
30. nóvember 2017

Von er vænting, hún er tilgáta hugans um betri tíð. Hún lætur lítið yfir sér og stundum tekur enginn eftir henni, en hún hefur undramátt því hún er driffjöður verka. Von er byggð á grun um hvernig hlutirnir gætu verið eða ættu að vera. Vonin miðar á framtíðina því enginn ber nokkra von í brjósti um að fortíðin breytist til betri vegar. Vonin snýst um hið nýja og sterk von dregur jafnan kraft sinn frá einhverju sem getur hugsanlega orðið að veruleika. „Von er vakandi manns draumur,“ segir málshátturinn.

Von felur í sér ósk, þrá og bæn. Hún hverfist um bjartsýni og hughreysti og sá sem missir hana fer á andlegan vonarvöl. Von er bæn hjartans, þrá sálarinnar og ósk hugans – sem getur ræst. Sérhver einstaklingur þarf að þekkja von sína. Sá sem vill þekkja sjálfan sig þarf að þekkja von sína því vonin færir nýjan kraft og gefur viljanum vængi, jafnvel til að fljúga þangað sem allir telja fjarstæðukennt. Hún ljær lífsbaráttunni þindarleysi og göngunni þrótt.

Þrauka má án ástar og gleði en ef vonin slokknar líka þá villast menn. Ferð án vonar er erfið og sporin svo þung en um leið og vonin vaknar aftur verða sporin léttari og viljinn sterkari. Þau sem bera von fyrir aðra og eru vonarberar samfélags, eru einnig fuglarnir sem syngja í dimmunni fyrir dögun.

Von í brjósti, jafnvel leynd von, er sterkasta vopnið gegn kúgunarvaldi. Barátta á nefnilega rætur sínar að rekja til vonarinnar. „Vonin styrkir veikan þrótt,“ eins og Páll Ólafsson kvað, „vonin kvíða hrindir.“