Hvar var messað síðasta sunnudag?

Hvar var messað síðasta sunnudag?

Þessi spurning vaknaði með mér um miðjan júlí, um hásumarleyfistíma presta sem annarra Íslendinga. Geta Íslendingar og erlendir gestir á faraldsfæti sótt helgihald í kirkjum landsins, hvort heldur í þéttbýli eða til sveita, eða hinn stóri hópur sem dvelur í sumarbústöðum vítt og breytt um landið frá vori og fram á haust? Hvar er boðið upp á helgihald og hvernig er hægt að nálgast þær upplýsingar?
fullname - andlitsmynd Jón Helgi Þórarinsson
14. ágúst 2003

Þessi spurning vaknaði með mér um miðjan júlí, um hásumarleyfistíma presta sem annarra Íslendinga. Geta Íslendingar og erlendir gestir á faraldsfæti sótt helgihald í kirkjum landsins, hvort heldur í þéttbýli eða til sveita, eða hinn stóri hópur sem dvelur í sumarbústöðum vítt og breytt um landið frá vori og fram á haust? Hvar er boðið upp á helgihald og hvernig er hægt að nálgast þær upplýsingar?

Í messutilkynningum Morgunblaðsins má sjá að helgihald er í flestum kirkjum höfuðborgarinnar í júlímánuði, en þó ekki öllum þar sem sums staðar er lokað var vegna sumarleyfa. Margir söfnuðir höfuðborgarinnar hafa tvo presta eða fleiri og því mætti ætla að afleysingu þar á bæ væri frekar auðvelt að skipuleggja. En sjá mátti einnig að þar sem einn prestur þjónar hafa aðrir prestar eða guðfræðingar verið fengnir til að annast helgihald í sumarleyfi sóknarprests.

Erfitt er að afla upplýsinga um helgihald utan höfuðborgarsvæðisins því hvergi eru upplýsingar um helgihald íslensku þjóðkirkjunnar aðgengilegar í heild sinni. Ekki í textavarpi sjónvarps, ekki í mogganum, ekki á heimasíðu kirkjunnar!!! Aðeins einstaka prestur á landsbyggðinni auglýsir messur í blöðum sem fara um land allt. Hins vegar veita héraðsfréttablöðin heimamönnum gleggri upplýsingar en óvíst er hve slíkt gagnast ferðafólki. Í einstaka héruðum hafa prestar tekið sig saman um- kannski undir forystu prófasts - að upplýsa ferðamenn um um messur sumarsins og auglýsa þær í verslunum og bensínsölum. Það er til fyrirmyndar. En upp úr stendur að ferðamaðurinn veit vart hvar hann geti skoðað hvar boðið er upp á helgihald.

Hvaða skilaboð eru þetta til fólks? Þjóðkirkjan verður augljóslega að standa sig betur og ættu prestar að setja metnað sinn í það að hafa þessar upplýsingar aðgengilegar. Jafnvel mætti rökstyðja að slíkt sé skylda þjóðkirkjusafnaða því að ég sem meðlimur þjóðkirkjunnar á vissan rétt á því að geta sótt kirkju á ferð minni um landið, hvort heldur ég dvel í höfuðborginni eða úti um land. Við vitum einnig að fjöldi ferðamanna innlendra sem erlendra vill sækja kirkjur á ferð sinn um landið.

En þá kemur upp hin hlið málsins sem er sú að júlímánuður er aðal sumarleyfistími presta eins og annarra landsmanna. Ef prestar geta ekki farið í sumarleyfi fyrr en eftir prestastefnu sem nú er um Jónsmessu (hverrar tímasetningu verður að ræða alvarlega að breyta) og verða margir hverjir að vera komnir heim á ný um miðjan ágúst, til að undirbúa og setja hauststarfið í gang, dugar þessi tími rétt aðeins til að allir prestar fari í sumarleyfi á þessum sama tíma! Að þessum forsendum einum gefnum væri næsta rökrétt svar við ofangreindri spurningu að það hefði nánast hvergi verið helgihald á Íslandi í júlímánuði því að flest allir prestar hefðu verið í sumarleyfi. Vitaskuld gengur svona fyrirkomulag ekki. Prestafélagið og kirkjustjórnin verða að setjast yfir það verkefni að samræma sumarleyfi presta sem og að tryggja helgihaldi í kirkjum landsins yfir sumartímann sem í annan tíma jafnt á höfuðborgarsvæði sem og úti um land. Fjölmargar leiðir eru til lausnar. Þar sem ekki er hægt að hafa helgihald á sunnudegi má hafa helgihald í miðri viku eins og reyndar er gert sums staðar úti um land nú þegar. Og sami prestur getur einnig haft helgihald í fleiri en einni kirkju á sama sunnudegi.

Þessi umræða snertir það verkefni kirkjustjórnarinnar að endurskipuleggja prestsþjónustuna um land allt, s.s skoða samstarf presta, jöfnun þjónustubyrða og reglulegar afleysingar. Stjórn Prestafélags Íslands hefur kynnt þá stefnu sína að hafa skuli að leiðarljósi að allir prestar fái fríhelgi einu sinni í mánuði auk sumarleyfis. Svo er ekki nú. Og þó að ekki hafi verið gerð formleg samþykkt um regluleg helgarfrí presta þá er almennur stuðningur innan prestastéttarinnar fyrir þessari stefnu eins og komið hefur fram á fundum stjórnar með félögum vítt um landið sem og á síðustu aðalfundum félagsins. Norska kirkjan hefur t.d. samþykkt að koma þessu fyrirkomulagi á og vinnur að því. Prestar hér á landi hafa margir hverjir reynt að fá sér helgarfrí af og til og gengið misjafnlega vel. En vitaskuld er alveg fráleitt annað en að allir prestar sitji hér við sama borð sem og þeir sem þjónustuna njóta.

Einnig þarf að breyta því fyrirkomulagi að afleysing presta merki aðeins bakvakt og neyðarþjónusta. Slíkt fyrirkomulag á við á stundum, en í öðrum tilvikum verður afleysing að vera virk, þ.e. að sá prestur sem leysir af annist helgihald og hafi umsjón með með því safnaðarstarfi sem er á venjubundinni dagskrá. Það er auðvitað ekki forsvaranlegt að helgihald leggist af á stórum svæðum yfir sumartímann eða einu sinni í mánuði þegar presturinn á lögbundið frí. Með þetta í huga er ljóst að ekki verður hægt að fækka prestum á landsbyggðinni nema takmarkað þó hitt sé jafn ljóst að brýn þörf er á því að fjölga prestum og öðru starfsfólki sem sinna skal helgihaldi og öðru safnaðarstarfi á höfuðborgarsvæðinu.

En spurningunni um hvar og hvaða daga messað var nú í júlí né hvernig helgihaldi verður háttað um sumartímann á Íslandi í framtíðinni verður þó ekki eingöngu svarað út frá ofangreindum atriðuðum. Ýmsir prestar hafa veigrað sér við að halda uppi helgihaldi vegna þess fámennir söfnuðir hafi ekki efni á að kalla til organista nema sárasjaldan og einnig hefur dregið úr prestum að erfitt er að kalla saman sönghæfan kór yfir sumarið. Slíkt tel ég þó ekki gildar afsakanir því vel er hægt að hafa helgihald þó ekki sé sungin messa með hefðbundnu sniði. Slíkt gera reyndar prestar nú þegar víða um land til viðbótar við hefðbundnar messur, hvort heldur á höfuðborgarsvæðinu eða úti um land. Þar sem einnig hefur reynst erfitt að fá presta til að leysa af á höfuðborgarsvæðinu á aðal sumarleyfistímanum og hafa guðfræðingar annast helgihald þar að hluta til.

Möguleikarnir til að leysa ofangreinda þætti eru fjölmargir. Við höfum margar leiðir til að skipuleggja og auglýsa helgihald, höfum ýmis form fyrir helgihald og við höfum einnig vel menntað og hæft fólk til að annast helgihald þó ekki hafi það hlotið prestsvígslu. Við höfum einnig vel menntað og hæft fólk til að annast ýmsa þætti í safnaðarstarfi sem presturinn kemst ekki yfir að annast en þarf að sinna jafnt yfir sumartímann sem aðra tíma ársins. Fjölmargir guðfræðingar og djáknar kalla eftir því að fá að þjóna í kirkjunni. Það væri mikill fengur fyrir boðun og þjónustu íslenskrar kirkju að fá það fólk til liðs við vaxandi safnaðarstarf. Skipulagi þjónustu kirkjunnar verður að breyta og einnig að finna peninga til að greiða því fólki laun sem bíður í ofvæni eftir því að leggja starfinu lið.