Leyfi til trúfélaga til að byggja hús snýst ekki um það hvernig samfélag Saudi Arabía er, heldur hvernig samfélag við viljum vera.
Ég hef oft rætt við fólk sem vill mótmæla byggingu mosku hér á landi á þeim forsendum að í einhverjum tilteknum löndum, t.d. Saudi Arabíu, megi ekki byggja kirkjur. Mér finnst alltaf jafnáhugavert að Arabíuskaginn skuli sífellt nefndur en ekki fjölmennasta múslimaland í heimi, Indónesía, þar sem fjölda kirkna er að finna, eða það næstfjölmennasta, Indland sem einnig státar af kristnum minnihluta og fjölda kirkjudeilda.
Ég ætla ekki að bera í bætifláka fyrir skort á trúfrelsi í Saudi Arabíu eða öðrum löndum þar sem mannréttindi eru brotin á einhvern hátt. Að jafnaði berum við okkur ekki saman við Saudi Arabíu þegar kemur að þjóðfélagsmálum almennt. Mannréttindabrot í útlöndum eru engin afsökun fyrir mannréttindabrotum hér á landi.
Við höfum byggt upp samfélag hér þar sem ákveðin gildi eru lögð til grundvallar, svo sem trúfrelsi, skoðanafrelsi, félaga- og fundafrelsi. Og þegar við tökum á deilumálum sem varða réttindi minnihlutahópa þá göngum við út frá þessum grundvallarþáttum.
Moska er bænhús múslima. Hér hafa því verið moskur í áratugi. Nú er ein við Öskjuhlíðina í gamla Ýmis-húsinu. Lóð til byggingu annarrar hefur verið úthlutað. Af umræðunni að ráða virðast margir telja að þessi lóðarúthlutun og væntanlegt byggingarleyfi séu ógn við samfélagið. Þær raddir heyrast sem vilja banna byggingu mosku, burtséð frá staðsetningu.
Tæplega 800 múslimar eru skráðir í þau tvö trúfélög múslima sem starfa hér. Gera má ráð fyrir að múslimar séu fleiri, til dæmis í hópi stúdenta sem dvelja hér tímabundið. Þessi hópur vill geta iðkað trú sína, bæn og samfélag. Betri bygging getur bætt aðstöðuna og aukið sýnileikann. En hvorki þessi bygging né aðrar moskur hafa áhrif á lýðræði í samfélagi okkar, sem bundið er í lögum og við viljum standa vörð um.
Vaxandi hópur múslima eru barnfæddir Íslendingar sem hafa alist upp við gildi okkar samfélags. Múslimar sem hingað flytja koma af ýmsum ástæðum, t.d. efnahagslegum eða vegna hjúskapar. Sumir vilja setjast hér að einmitt vegna þess opna lýðræðissamfélags sem hér ríkir og þeim líkar við.
Stöndum eindregið vörð um lýðræði hér á landi, verum vakandi fyrir því og eflum það. En gerum það ekki með því að traðka á réttindindum minnihlutahópa.