Hauströkkrið yfir mér

Hauströkkrið yfir mér

Ég man þegar ég var lítil, þá var ég handviss um að ég væri eilíf og allt fólkið í kringum mig væri það líka. Ég man þann tíma þegar ég hvíldi í barnslegri vissu um að lífið yrði einhvern veginn alltaf svona, fólkið mitt í kringum mig sem elskaði mig og ól önn fyrir mér, eins og í óhagganlegri stillimynd sem ekkert gat grandað.

Ég man þegar ég var lítil, þá var ég handviss um að ég væri eilíf og allt fólkið í kringum mig væri það líka. Ég man þann tíma þegar ég hvíldi í barnslegri vissu um að lífið yrði einhvern veginn alltaf svona, fólkið mitt í kringum mig sem elskaði mig og ól önn fyrir mér, eins og í óhagganlegri stillimynd sem ekkert gat grandað.

Ég man ekki hvað ég var gömul þegar ég áttaði mig á að dauðinn væri hluti af lífinu, en þegar hann fór að vera hluti af veruleikanum, ógnaði hann mér ekki til að byrja með, því hann varð hluti af stillimyndinni, hlið inn í eilífðina, þar sem við endum öll saman að lokum.

Ég man að ég trúði því heitt og innilega að eftir dauðann þá yrði allt á einhvern hátt eins og nú, bara á öðrum stað, allt fólkið mitt saman á ný.

Ég man líka þegar ég fékk í fyrsta sinn efasemdir um þessa fallegu mynd sem ég geymdi í barnshuganum. Fékk minn fyrsta dauðaótta. Þegar rödd hvíslaði að mér: “Hvað ef það er ekkert, ég bara sofna og verð aldrei aftur til og það sem verra er, get aldrei séð þau sem ég elska aftur eða fylgt börnunum mínum eftir svona á kantinum, að handan, full tilhlökkunar yfir að sjá þau aftur þegar þeirra tími kemur”.

Það sem er merkilegt við þetta ferli, þegar ég hugsa til baka er það að ég var ekki beint óttaslegin yfir eigin dauða, heldur fylltist ég sorg fyrirfram yfir öllum þeim sem ég elska og hef tengst og sú tilhugsun að geta ekki fylgst lengur með þeim eða átt með þeim samfélag fannst mér óbærileg. Sorgin snerist að þeim manneskjum sem voru órjúfanlegur hluti af mínu lífi og þeirri tilfinningu að dauðinn væri þegar öllu er á botninn hvolt – endanleiki, lokasvarið. Hauströkkrið yfir okkur.

Lífið okkar snýst og umhverfist um tengsl, alveg frá því að við komum fyrst í heiminn og allt lífið á enda. Tengsl geta gefið okkur mestu gleðina en um leið okkar stærstu sorg. Við tengjumst okkar nánustu, eignumst vina- og kunningjasambönd og um leið og við tengjumst öðrum erum við um leið orðin varnarlaus fyrir vonbrigðum, áföllum og sorg.

Það að missa einhvern nákominn getur umbreytt lífsmunstrinu okkar og leit okkar að merkingu og tilgangi svo um munar. Munum að missir getur verið margskonar.

Við eignumst vini og vinasambönd breytast og deyja, við verðum ástfangin og sú ást verður að sorg þegar sambandið endar, við fáum vinnu, sem við getum á ákveðnum tímapunkti misst, við eigum fjölskyldu og fjölskyldunetið getur rofnað vegna samskiptavanda.

Allt þetta er missir og felur í sér sorg og þjáningu og mótar okkur og þær persónur sem við erum. Stundum felur missir í sér að við einangrum okkur og vinnum aldrei úr því sem fyrir okkur hefur komið. Sorgin verður óbærilegur raunveruleiki og mun auðveldara verður að sópa henni undir teppið en að takast á við hana og sjá hvort hún leiði okkur til betri og meiri þroska.

Sorgin er nefnilega margslungin og flókin, hún á sér margar birtingarmyndir og hún getur verið fyrirsjáanleg og ófyrirsjáanleg. En við getum aldrei að fullu búið okkur undir hana, því þegar hún kemur þá er hún eins og hauströkkrið sem legst yfir líf okkar eins og mara og takmarkar okkur sýn um stund og okkar verkefni í hinni dýpstu sorg er að finna okkur tilgang og markmið til að halda áfram, í lífi þar sem allt er orðið breytt.

Ég fékk það verkefni fyrir fimm árum síðan að fylgja móður minni eftir í veikindum, krabbameinsmeðferð, þar sem möguleikarnir á að hún myndi sigra þennan sjúkdóm voru litlar. Í þennan tíma höfum við fjölskyldan verið umlukin sorginni og kvíðanum yfir því sem koma skyldi. Í þessu tilfelli má segja að sorgin væri fyrirsjáanleg, því við vissum allan tímann í hvað stefndi ólíkt því þegar sorgin kemur fyrirvaralaust og ryðst inn í líf okkar, grimm og skilur okkur eftir með spurningar sem við kannski fáum aldrei svör við.

Móðir mín barðist hetjulega allan þennan tíma og tók hverjum degi sem gjöf og hennar ákvörðun var sú frá upphafi að vera glöð og jákvæð og gera lífið skemmtilegt þann tíma sem hún átti eftir. Þetta tókst henni, þó að tíminn milli meðferða og rannsókna væri þungur, þá fengum við góðan tíma og hún náði að gera margt og skila um leið til okkar baráttuvilja, sem við sem stóðum henni næst getum litið á sem ljós og dýrmæta gjöf í mestu sorginni sem fylgir okkur í dag.

Tilfinningar aðstandenda í þessu ferli eru flóknar og þversagnakenndar. Þegar við sitjum varnarlaus við sjúkrabeð þess við elskum og getum ekkert gert, hugsum jú stundum að þetta sé ósanngjarnt, reynum ögn að semja við Guð og í eigingirni okkar viljum ekki sleppa tökum, því við vitum hvað það felur í sér, en það er það sem við óttumst mest, að missa þau sem við elskum mest en um leið vitum við innst inni að það er ekkert annað í stöðunni hjá lífi sem þjáist, er að fjara út og heyja sína lokabaráttu. Þú ert innra með þér farin að óska þess sem þú óttast mest.

En það er svo merkilegt að innst inn í allri sorginni, í hinni mestu þjáningu þá getur myndast von, ljós og trú á það að þú munir geta staðið upp frá sjúkrarúminu þegar öllu er lokið. Og þann kraft og styrk færðu í gegnum þau sem standa næst þér, í gegnum fólkið sem situr með þér og grætur með þér, af því að við eigum það sameiginlegt að elska hvort annað og þann/þá sem er að kveðja. Þegar þið sitjið saman í þögn eða farið saman í gegnum minningarnar og ræðið það sem var ykkar gleði, þá gerist eitthvað, lítið kraftaverk og þannig smátt og smátt mildast sorgin.

Og þú veist það innra með þér, að vegna þessa, þessarar nándar og þessarar sameiginlegu reynslu, þá muntu lifa af og sorgin verður að fallegri minningu sem þú átt ein með þér, innra með þér og með ástvinum þínum.

Á endanum snýst þetta alltaf aftur og aftur um tengsl og mannlega nánd. Við munum alltaf vera varnarlaus fyrir því að missa en það sem þú getur misst er líka þín stærsta lífsbjörg þegar þú mætir sorgaraðstæðum og áföllum í lífinu.

Í dag óttast ég það enn að missa, það er bara af því að ég er mannleg og vegna þess að ég veit að það og hef upplifað að það er sárt og það er vont og það er heil mikið verkefni að læra að lifa nýju lífi án þess sem þú elskar og hefur verið þér allt. En ég trúi samt á tilganginn í lífi hvers og eins og að yfir okkur vaki góður Guð, sem verndar og umlykur allt líf sem fæðist og sem deyr. Ég get ekki staðið hér og fullyrt að við munum öll hittast á ný að þessu lífi loknu líkt og bernskumyndin mín fóstrar, til þess er lífið og dauðinn of mikill leyndardómur og ég vil leyfa því að vera þannig áfram. En ég trúi á Guð sem skapar og sem elskar. Ég trúi á Guð sem er með mér í þjáningunni og reisir mig við þegar ég er sorgmædd og get ekki staðið upp sjálf. Ég trúi á Guð sem gefur mér von og vonin birtist í sameiginlegri reynslu okkar allra, þjáningu, sorgum og gleði. Ég trúi á Guð sem hvíslar að okkur:

Sælir eru syrgjendur, því þeir munu huggaðir verða.

Guð blessi minningu allra sem við elskum og hafa hvatt þennan heim og Guð blessi okkur öll sem syrgjum og söknum og gefi okkur á hverjum degi styrk og trú til að halda áfram saman, dag í senn, eitt andartak í einu.

Amen.