Taktu á móti

Taktu á móti

Þessi andlega staða, að viðurkenna auðsæranleika sinn með opnar hendur, hug og hjarta, sleppa öllum varnarháttum, vera berskjölduð gagnvart hvert öðru til að geta þegið andlegar og hagnýtar gjafir annarra, á sannarlega einnig við um samband okkar við Guð.

Út með illsku’ og hatur, inn með gleði’ og frið, taktu’ á móti jólunum með Drottinn þér við hlið. Víða’ er hart í heimi, horfin friðar sól. Það geta ekki allir haldið gleði’ og friðarjól. Magnús Eiríksson
Friðarjól. Friður á jörðu. Friður í hjarta. Er það ekki það sem við þráum, frið og jafnvægi í lífinu? Fæst okkar höfum áhrif á stóra samhengið, heimsmálin. En flest getum við haft eitthvað að segja um okkar eigið líf og líf fólksins í kring um okkur, eins og segir áfram í söngtexta Magnúsar Eiríkssonar:

Mundu að þakka Guði gjafir, frelsi’ og frið. Þrautir, raunir náungans víst koma okkur við. Bráðum klukkur klingja, kalla heims um ból, vonandi þær hringja flestum gleði’ og friðarjól. Biðjum fyrir öllum þeim sem eiga bágt og þjást. Víða mætti vera meira’ um kærleika og ást.

Friður er einn meginboðskapur heilagrar jólahátíðar. Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu, sungu englarnir forðum. Hugtakið friður á hebresku, shalom, merkir ástand þar sem allt er í jafnvægi; það felur í sér velferð, heill, sátt og samlyndi. Þannig má líta á til dæmis vanheilsu sem skort á jafnvægi í líkamanum, eins konar ófrið sem kemur í veg fyrir að líkaminn starfi eðlilega. Ójafnvægi í peningamálum er annað dæmi og truflun á tengslum við vini eða fjölskyldu enn annað. Þannig er friður ekki bara hugtak sem nær yfir samskipti þjóða heldur einnig tengsl einstaklinga og manneskjunnar við sjálfa sig.

Samkvæmt skilningi Biblíunnar grundar allt ójafnvægi í skorti á friði manneskjunnar við Guð. Ef við tökum við friði Guðs inn í líf okkar mun það hafa áhrif á líf okkar allt – að því marki sem við hleypum Guði að ólíkum sviðum lífsins. Á ískápsshurðinni hjá einni vinkonu minni hékk eitt sinn segull með eftirfarandi áletrun: Guð mun gera hjarta þitt heilt – ef þú gefur honum öll brotin (God will heal your heart – if you give him all the pieces).

Gefðu! Á aðventunni hefur auglýsingum í fjölmiðlum snjóað yfir okkur. Margar þeirra hafa klifað á sögninni að gefa í boðhætti: Gefðu! Gefðu þetta! Gefðu hitt! Gefðu! Það er eitthvað frekjulegt og græðgislegt við svona auglýsingar, kvöð kaupmennskunnar til okkar neytenda. Á nýliðinni aðventu fannst mér þetta sérlega óþægilegt, eins og einhverju fallegu og góðu væri umbreytt í þvingun, kvöð. Því vissulega eigum við að gefa, ekki bara á jólum heldur allan ársins hring. Sælla er að gefa en þiggja, segir jú í helgri bók og haft eftir Jesú Kristi sjálfum en í því samhengi að annast óstyrka, þau sem minna mega sín (Post 20.35).

Stærsta gjöf allra tíma er einmitt gjöf Jesú Krists sjálfs til okkar, Lífgjöfin sjálf, gjöf þess shalom sem engan enda mun taka (Jes 9.6). Í því samhengi erum við öll óstyrk; okkur skortir styrk gagnvart aðstæðum lífs og dauða. Okkur er tamt að hugsa um gjöf Jesú í sambandi við dauða hans og upprisu en gjöfin hefst með hingaðkomu hans, með boðun Maríu, fæðingu Jesú og lífi öllu. Með því að verða manneskja tæmdi Guð sjálfan sig, eins og segir í sálminum forna í Filippíbréfinu (2.6-11):

Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur. Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur. Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig...

Svipti sig öllu mætti líka þýða sem tæmdi sjálfan sig, af grísku sögninni kenoo. Sá magnaði trúarinnar veruleiki er til dæmis tjáður í okkar góða sálmi eftir Einar Sigurðsson frá Heydölum (70): „þeir fundu bæði Guð og mann, í lágan stall var lagður hann, þó lausnarinn heimsins væri“ og hjá Valdimar Briem við lag Mozarts (78): „Sá Guð, er ræður himni háum, hann hvílir nú í dýrastalli lágum, sá Guð, er öll á himins hnoss, varð hold á jörð og býr með oss.“

Lífgjöfin er algjör og óskilyrt gjöf Guðs; lífið sjálft inn í dauða minn, ljós Guðs inn í myrkrið í mér, máttur Guðs inn í vanmátt minn, friður Guðs inn í ófriðinn og ójafnvægið í mér: Minn frið gef ég yður, segir Jesús (Jóh 14.27). Og þess vegna gef ég áfram á þann hátt sem ég er fær um, ekki af kvöð eða nauð, ekki af því að auglýsingarnar segja mér það, heldur til að gefa áfram það sem ég hef þegið.

Að viðurkenna vanmátt sinn En þar er einmitt veiki hlekkurinn í keðju gjafarinnar. Að þiggja gjöfina, taka á móti, veita viðtöku Lífgjöf Guðs. Að gefast Guði er stundum sagt, gefast upp, jafnvel. Það hljómar kannski ekki vel fyrir okkur sem erum vön að bjarga okkur sjálf en merkir í raun að fela Guði líf sitt. Því til þess að geta þegið eitthvað heilum huga verðum við að viðurkenna þörf okkar fyrir það. Ég er til dæmis svo órómantísk að hugsa mest um notagildi gjafa, bæði sem gefandi og þiggjandi. Þannig þarf ég að minna mig á að þiggja með þakklæti það sem aðrir gefa mér af góðum huga þó ég sjái ekki í sviphendingu að gjöfin muni nýtast mér.

Að viðurkenna þörf sína fyrir aðstoð frá öðrum er annað dæmi um það sem veitist mörgum okkar erfitt. Við erum líklega flest alin upp við að bjarga okkur sjálf og láta engan bilbug á okkur finna, sama hvað aðstæður verða erfiðar. Þá verður ósk um hjálp oft sem óyfirstíganlegur þröskuldur og við böslumst þetta áfram frekar en að biðja um aðstoð, sem þó oftar en ekki er fúslega veitt. Að horfast í augu við skort sinn á ýmsum sviðum, viðurkenna vanmátt sinn getur verið stórt skref að stíga. En það er einmitt forsenda þess að geta þegið, bæði í hversdagslegum aðstæðum og þegar kemur að ítrustu aðstæðum lífs og dauða. Notagildi þeirrar gjafar er ótvírætt: líf og sáluhjálp að eilífu. Hvað er hægt að biðja um meira?

Að veita viðtöku Í samhengi við rannsókn sem ég hef verið að vinna að á samstarfi kristinna trúfélaga varð á vegi mínum hugmyndafræði sem leggur áherslu á einmitt þetta: Að veita viðtöku því sem aðrir hafa að gefa, í því tilfelli aðrir kristnir söfnuðir. Við erum svo oft upptekin af því hvað við höfum að gefa, hvað aðrir gætu lært af okkur, að við gleymum okkar eigin þörf fyrir að læra af öðrum, þiggja það sem aðrir hafa fram að færa. Í þessari nálgun, sem kemur frá fræðimanni við rómverks-kaþólska háskólann í Durham á Englandi, er lagt til að við réttum fram opnar hendur okkar sem andlega talað eru særðar af eigin mistökum og annarra; að við opnum hjarta okkar og horfumst í augu við hvað það er auðsæranlegt, varnarlaust, viðkvæmt.

Þessi andlega staða, að viðurkenna auðsæranleika sinn með opnar hendur, hug og hjarta, sleppa öllum varnarháttum, vera berskjölduð gagnvart hvert öðru til að geta þegið andlegar og hagnýtar gjafir annarra, á sannarlega einnig við um samband okkar við Guð. Þar eiga orð Jesú, sælla er að gefa en þiggja, við hann sjálfan. Við erum í stöðu þiggjanda, eins og segir í gömlu bæninni sem sr. Bjarni Þorsteinsson tónsetti svo fallega:

Gæzkuríki, himneski faðir, þú sem af einskærri náð gafst oss þinn eingetinn son, sendu oss þinn heilaga anda, svo að vjer meðtökum Jesú fúslega í hjörtu vor...
Að meðtaka Jesú fúslega í hjarta sitt er það sem jólin snúast um, andlega talað, gefast Guði, ganga inn í frið Guðs. Það getum við ekki í eigin mætti; að viðurkenna vanmátt sinn, horfast í augu við okkar viðkvæma veruleika og biðja Guð um að fylla okkur af sínum veruleika er verk heilags anda. Sendu okkur þinn heilaga anda, fylltu okkur af þér, þú sem tæmdir sjálfan þig svo að við mættum þiggja allt hið góða sem veitist í Kristi (Fílm 1.6).

Viðkvæmni Kæru vinir á Seltjarnarnesi. Hér var rætt um viðkvæman veruleika. Það er ekki síst um hátíðar eins og jól og áramót að við finnum fyrir viðkvæmni innra með okkur, finnum til undan ytri ófriði og þráum jafnvægi í lífi okkar. Gamlar minningar og tilfinningar þeim tengdar skjóta upp kollinum, sumar góðar, aðrar síður. Ein góð minning kom til mín fyrir nokkrum dögum þegar barst í tal að jólapappír, borðar og bönd voru endurnýtt hérna áður fyrr, enda kannski um vandaðri varning að ræða en nú á tímum einnota umbúða. Þá mundi ég eftir mömmu að strauja jólapappírinn frá fyrra ári og þeirri sérstöku lykt sem fylgdi – ég veit ekki hvort ég á að kalla það ilm, en í minningunni er þessi lykt dýrmætur hluti af ilmi liðinna jóla ásamt með ilminum úr eplakassanum og grenigreinum frá vinafólkinu austur á Hallormsstað.

Svona minningar eru dýrmætar, bera með sér frið og staðfestu heims í jafnvægi. Er það ekki einmitt þrá manneskjunnar, friður og jafnvægi, eins og komið var inn á hér í upphafi? Samt var heimurinn ekkert fullkominn þá, í bernsku okkar og uppvexti, ekki frekar en nú. Mörg okkar ólust upp við einhvers konar skort, efnahagslegan skort, skort á öryggi eða atlæti. Og stríð hafa geysað fyrr og síð. En þannig eru aðstæður manneskjunnar í heiminum. Það merkir ekki að við eigum að gefast upp fyrir ófriðinum yst sem innst heldur sækja þangað sem friðinn er að finna, þétt við hjarta Guðs, umlukin þeim friði sem er æðri öllum skilningi, friði Guðs sem mun varðveita hjörtu okkar og hugsanir í Kristi Jesú (Fil 4.7) og gefa okkur kraft til að flytja friðinn áfram í smáu sem stóru. Og framtíðarsýn kristinnar trúar er björt. Við hana höldum við fast, þótt hér sé dimmt, þótt hér sé kalt, eins og Valdimar V. Snævarr orti:

Vér fögnum þér, ó, blessað barn, og bjarma slær á lífsins hjarn. Sjá, heilög von í hjörtum skín og hana vekur fæðing þín.

Þótt hér sé dimmt, þótt hér sé kalt, þín heilög elska bætir allt. Þótt skorti frið þótt falli tár, hún friðar, líknar, græðir sár.

Ó, þegar sérhvert hjarta er hreint og hefir, Drottinn, mátt þinn reynt þá ljómar heimi lífsins sól, vér lifum eilíf dýrðarjól. Valdimar V. Snævarr (565)