Hagfræði himnaríkis

Hagfræði himnaríkis

Jesús minnir á þá staðreynd að verðmætamat mannsins og forgangsröðun hans hefur afgerandi áhrif á líf hans. Með öðrum orðum: Maðurinn bindur hjarta sitt við það sem hann telur skipta mestu máli.

Þá gekk Pétur til hans og spurði: „Drottinn, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgerir við mig? Svo sem sjö sinnum?“ Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö. Því að líkt er um himnaríki og konung sem vildi láta þjóna sína gera skil. Hann hóf reikningsskilin og var færður til hans maður er skuldaði tíu þúsund talentur. Sá gat ekkert borgað og bauð konungur þá að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu sem hann átti til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina. Þegar þjónn þessi kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér. En hann vildi það ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum. Þannig mun og faðir minn himneskur gera við yður nema þér fyrirgefið af hjarta hvert öðru.“ Mt. 18.21 – 35

Það er mikið rætt um lán og skuldir þessa dagana. Ísland gengur nú í gegnum sínar mestu efnahagslegu þrengingar í langan tíma. Sá tími hagvaxtar og hagsældar sem staðið hefur yfir mörg undanfarin ár og engan endi virtist ætla að taka hefur nú runnið sitt skeið með afgerandi hætti og sjálfsagt óhjákvæmilegum. Það er talað um hamfarir í þessu samhengi. Engin þjóð mun hafa upplifað annan eins gagngeran viðsnúning og efnahagslegt hrun á jafn skömmum tíma og Ísland hefur nú gert. Niðurskurður, uppsagnir, atvinnuleysi, verðbólga, launalækkanir og greiðsluþrot, eru algeng orð í fjölmiðlum í dag. Það kreppir víða að og ástandið lætur engan ósnortin. Fólk sér fram á erfiða daga og er óttaslegið, áhyggjufullt og reitt.

Atburðir síðustu daga og vikna hafa sannarlega vakið upp margskonar tilfinningar og spurningar á meðal okkar allra. Sem þjóð hljótum við taka eitt og annað til endurskoðunar og gera ýmislegt upp. Ekki síst hljótum við að spyrja okkur – í ljósi þess hruns sem nú er orðið – á hverju við byggðum? Á hverju hefur íslenskt samfélag síðastliðinna ára grundvallast. Hvaða gildi hafa verið höfð að leiðarljósi? Staðreyndin er sú að það ástand, sem nú blasir við, kom ekki til upp úr þurru, það átti sér ákveðin undanfara, sem varð ekki heldur til í tómarúmi heldur grundvallaðist á tiltekinni sýn á lífið, á vissu verðmætamati og siðgæði – á tiltekinni hagfræði ef svo mætti segja.

Jesús hafði ýmislegt um hagfræði að segja. Hann sagði eitt sinn: „Hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera.“ Jesús minnir á þá staðreynd að verðmætamat mannsins og forgangsröðun hans hefur afgerandi áhrif á líf hans. Með öðrum orðum: Maðurinn bindur hjarta sitt við það sem hann telur skipta mestu máli; hann grundvallar eða skilgreinir líf sitt á því sem hann telur verðmætast eða mestu varða með tilliti til sjálfs sín. Staðreyndin er sú að við leitum öll að því sem ljær lífi okkar innihaldi, tilgangi og merkingu og gefur okkur sjálfum persónulegt vægi og gildi í augum okkar sjálfra og annarra. Spurningin er hvert við leitum í þeim efnum.

Í breiðum skilningi má segja að trú sé fólgin í því sem maðurinn leggur sitt ýtrasta traust á, því sem gefur lífi hans tilgang og merkingu. Og hvað svo sem það er þá leiðir það af sér visst viðhorf til veruleikans, ákveðið verðmætamat, ákveðinn mannsskilning og ákveðið siðgæði, sem móta orð og gjörðir.

Kristin trú er fólgin í því að grundvalla líf sitt á Guði í Jesú Kristi, að treysta á hann í einu og öllu, að lofa honum að hafa áhrif á hug og hjarta, að bindast honum, elska hann og tilbiðja umfram allt annað, og bera vilja hans vitni í hugsunum, orðum og gjörðum.

Ein eldri kona hafði á orði um daginn að þær aðstæður sem nú væru uppi í samfélaginu væru „mikil synd“. Fólk tekur stundum svo til orða um það sem því þykir miður eða leitt – „það er mikil synd að svona fór“. En ég held að þessi gamla kona – sem er trúuð kona – hafi átt við eitthvað annað og meira en það.

Það sem kristin trú kallar synd er ekki fyrst og fremst að brjóta tiltekin boð og bönn. Synd er ekki fólgin í því einu að gera slæma hluti, heldur í því að gera góða hluti að mikilvægustu hlutum lífsins; að grundvalla sjálfsskilning sinn, persónulegt gildi sitt og hamingju á einhverju öðru en Guði. Og þannig líf – líf sem byggir ekki á Guði – stendur á afar völtum grunni og er mjög óstöðugt og varnarlaust, því allt annað en Guð er hverfult og getur gengið manni úr greipum hvenær sem er. Aðeins sá sem grundvallar líf sitt á Guði og sækir sjálfsskilning sinn til hans og orða hans, leggur traust sitt á hann, getur tekist á við hvað sem er og horfst í augu við það sem lífið ber á borð fyrir mann.

En hvað svo sem segja má um þetta er ljóst að efnahagsleg velsæld og veraldleg gæði hafa fyrir löngu verið lyft á guðlegan stall í hinum vestræna heimi. Hvað sem segja má um ítök Guðs í hjarta fólks þá er ljóst að í lífsgæðakapphlaupi sínu hafa margir misst sjónar af Guði – og misst á endanum móðinn. Þegar allt kemur til alls þá þiggur engin líf af eigum sínum.

Í hverju eru gæði lífsins fólgin? Þetta hlýtur að vera áleitin spurning í ljósi núverandi aðstæðna. Hvað er velmegun og hagsæld? Það er talað um að gríðarleg verðmæti hafi tapast á skömmum tíma. Hvaða verðmæti eru það? Ég átta mig á því að miklir meintir fjármunir hafa farið í súginn. En hvaða verðmæti hafa tapast? Það er mikilvægari spurning sem á sér áleitnara svar.

Okkar ágæta leikona, Edda Heiðrún Bachman, var í fréttunum fyrir stuttu. Það var sagt frá því að hún muni taka þátt í lyfjatilraun í Bandaríkjunum ásamt öðrum MND sjúklingum. Hún gaf lítið fyrir kreppuna og sagði hana ekki erfiða andspænis því að missa heilsuna, sem væri mun verra. En verst af öllu, sagði hún, er að glata sjálfum sér, hverfa inn í sjálfan sig og týnast.

Nú eru aðstæður hennar og sjónarhorn til lífsins allt annað en flestra. En getur það samt verið að þetta sé meinið? Getur verið að fólk hafi tapað sjálfu sér, horfið inn í sjálft sig? Getur verið að verðmætatapið sé fólgið í því? Höfum við gleymt því sem skiptir mestu máli? Höfum við metið þá hluti rétt sem máli skipta? Höfum við ekki gleymt því að ávaxta það sem raunverulega skiptir máli? Er það ekki meinið? Höfum við ekki misst sjónar af þeim verðmætum sem eru fólgin í okkur sjálfum, börnunum okkar, í náunga okkar, í lífinu sjálfu? Höfum við ekki að einhverju leyti gleymt því hvað okkur er í raun mikið gefið.

Og hvað hefur þú sem þú hefur ekki þegið? er spurt í Biblíunni. Guð er fjárfestir líka. Hann hefur fjárfest í þér. Það eru gríðarlega mikil verðmæti bundin í þér. Allir fjármunir heimsins blikna í samanburði við þau verðmæti sem Guð hefur lagt í þig. Og eins og hver annar fjárfestir þá vonar hann að sú fjárfesting beri ávöxt. Hann hefur svo miklar væntingar til þess að hann er tilbúinn til þess að leggja sjálfan sig að veði.

Lífið er okkar stærsta lán. Það þiggjum við frá Guði. Hvernig stöndum við í skilum við hann? Sú spurning er borin upp í guðspjalli dagisins. Þar er Jesús að tala um lán og skuldir, áhyggjur og reiði, greiðsluþrot og uppgjör. Það væri synd að segja að Jesú eigi ekki erindi við okkur í dag. Orð hans gætu ekki átt betur við en einmitt núna. Eins og svo oft áður er Jesús að tala til okkar í dæmisögu. Hann tekur dæmi úr reynsluheimi mannsins til að bregða ljósi á Guð, hver Guð er og vilji hans.

Sú hagfræði sem Jesús dregur upp í er gjörólík þeirri hagfræði sem manninum er eiginlegt að fylgja. Hagfræði himnaríkis byggir á gullnu reglunni. Guð hefur sett okkur eftirdæmi. Guð veit að við getum aldrei borgað sér tilbaka. Hvað eigum við sem gæti gengið upp í skuld okkar við Guð? Ekkert.

Frá Guði er allt komið. Honum einum heyrir allt til. Og þess vegna hefur hann gefið okkur upp skuldina. Hann lét hana falla á sjálfan sig. En það þýðir ekki að við séum skuldlaus og laus allra mála. Við eigum að bera kærleika Guðs vitni í eigin lífi, gagnvart náunga okkar. Með þeim hætti lofum við Guð og þannig greiðum við okkur veg inn í ríki hans.

Hagfræði himnaríkis snýst ekki um persónulegan ávinning og ágóða, ekki um sérhyggju eða eiginhagsmuni, heldur um fjórnfýsi og kærleika, samstöðu og umhyggju, skilning og fyrirgefningu. Það er hagfræði sem mun leiða okkur í gegnum þær þrengingar sem nú standa yfir og forða okkur frá öðrum eins. Hin sönnu lífsgæði verða ekki vegin og metin á grundvelli vísitalna eða gengisskráningar heldur á grundvelli þess kærleika sem við berum til Guðs og til hvers annars.

Enginn getur þjónað tveimur herrum. Munum það. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Við getum ekki þjónað Guði og mammón.

Þess vegna segir Jesús við okkur: Verið ekki áhyggjufull um líf ykkar, hvað þið eigið að eta eða drekka né heldur um líkama ykkar, hverju þið eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hvert ykkar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?

Og hví eruð þið áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi ykkur: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða ykkur, þið trúlítil!

Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum við að eta? Hvað eigum við að drekka? Hverju eigum við að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og ykkar himneski faðir veit að þið þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast ykkur að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.