En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“ Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum. Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins sögðu hirðarnir sín á milli: „Förum beint til Betlehem að sjá það sem gerst hefur og Drottinn hefur kunngjört okkur.“ Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið sem lá í jötu. Þegar þeir sáu það skýrðu þeir frá því er þeim hafði verið sagt um barn þetta. Og allir sem heyrðu undruðust það er hirðarnir sögðu þeim. En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það. Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það sem þeir höfðu heyrt og séð en allt var það eins og þeim hafði verið sagt.
Lúk. 2:1-20
Við erum samankomin hér í Dómkirkjunni á jóladagsmorgni. Í gærkvöldi hlýddum við á guðspjall Lúkasar um fæðingur frelsarans, eins og við gerum reyndar í dag. En það er sem það hljómi öðruvísi í eyrum þegar jólin eru komin og kvöldið liðið þar sem okkur finnst að allt þurfi að vera fullkomið. Við hrökkvum aftur í gírinn sem minnir okkur á veraldarvafstrið og lífsstríðið, en einnig erum við meðvituð um það sem skiptir máli í lífinu. Fjölskyldan og það að finnast við tilheyra einhverjum hópi. Fjölskyldutengsl eru víða sterk hér á landi og fjölskyldusamverur á jólum algengar.
Lúkas guðspjallamaður segir frá fjölskyldu. Maríu og Jósef og barninu þeirra sem fæddist í Betlehem. Veröldin sem Jesús fæddist inn í var grimm. Á fyrstu dögum hans flúðu Jósef og María með barnið til Egyptalands. „Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“ Sagði engill Drottins við Jósef í draumi. Og Jósef hlýddi.
Daglega heyrum við fréttir af því sem betur má fara í veröld okkar. Undanfarið höfum við líka fengið að heyra um hræðileg grimmdarverk sem unnin eru, þar sem saklaust fólk lætur lífið eða örkumlast. Það er því langt frá því að allir búi við frið og sælu á þessari jörð. Lítil börn og kennarar þeirra mæta í skólann dag einn, en ekki koma þau öll heim síðdegis. Dagar okkar eru óskrifað blað. Við vitum ekki nákvæmlega hvað á daga okkar drífur þó við áformum ýmislegt. „Mannréttindalögfræðingur pyntaður og settur í fangelsi. Krefstu þess að honum verði sleppt!“ Þessi skilaboð og önnur þeim lík fæ ég oft í farsímann. Þau eru frá Amnesty international, samtökunum sem standa mannréttindavaktina víða um heim. Það skilar árangri. Á heimasíðu þeirra má lesa:
„Ég er sönnun þess að bréf ykkar bera árangur. Þess vegna bið ég ykkur um að taka þátt í bréfamaraþoni Amnesty International – og veita þeim von, sem búa við mannréttindabrot um heim allan.Ef þú heldur að það sé gamaldags að skrifa bréf og tilgangslaust að setja blek á blað á tímum Facebook og Twitter, skaltu hugsa um sögu mína.
Ég heiti Birtukan Mideksa og bréf ykkar færðu mér frelsi. Ég eygði eitt sinn enga von um frelsi. Ég er einstæð móðir og fyrrum leiðtogi stjórnarandstöðuflokks í Eþíópíu. Þú getur hjálpað til við að frelsa aðra pólitíska fanga eins og mig. Taktu þátt í bréfamaraþoni Amnesty – stærsta bréfamaraþoni í heimi. Þar geturðu brugðist við vegna 11 áríðandi mála, sem þurfa á athygli okkar að halda. Bréf ykkar vernduðu mig á versta tímabili ævi minnar. Þið voruð rödd mín þegar rödd mín heyrðist ekki. Bréf ykkar héldu voninni lifandi þegar neyðin var mest. Það er Amnesty International að þakka að ég hlaut frelsi í október 2010. Ég er svo þakklát fyrir bréf ykkar og aðgerðir í mína þágu.
Friðarkveðja, Birtukan Mideksa“
Þetta er bréf konu sem er til í raun og veru. Hún er ekki skáldsagnapersóna. Samtakamáttur margra, frá mörgum löndum heims, frelsaði hana. Þannig birtist kærleikurinn í verki. Kristin trú boðar trú á utanaðkomandi kærleikskraft sem við köllum Guð. Sá Guð elskar jarðarinnar börn meira en nokkur mannlegur máttur fær skilið eða gert, svo mikið að hann fæddist sjálfur í þennan heim og gekk þann veg sem við öll göngum, frá vöggu til fullorðinsára. Hann þekkir því hvernig það er að vera maður og skilur þar af leiðandi allar okkar tilfinningar, langanir og þrár. Hann veit hvernig er að vera dapur, um það getum við lesið í guðspjöllunum. Hann veit hvernig það er að vera glaður, um það getum við líka lesið í guðspjöllunum. Hann veit hvernig við getum hugsað, lagst í fordóma, hégóma og skilningsleysi gagnvart hvert öðru, um það getum við einnig lesið í guðspjöllunum. Þess vegna m.a. er svo gott að lesa í Biblíunni til að geta samsamað sig þeim sem þar koma við sögu og þannig séð okkur í sporum þeirra fyrir framan Meistarann sjálfan og skynja viðbrögð hans. En einnig til að vita hvernig hann talaði, gerði og kom fram til fólk í mismunandi aðstæðum, því þannig eigum við einnig að vera andspænis hvert öðru.
Og af því að Guð okkar er utanaðkomandi, ekki meðfæddur í hjarta okkar eða nýru okkar eða nokkurt annað líffæri, þá ráðum við því sjálf hvort hann hefur áhrif á líf okkar eða ekki. Það er eitt af einkennum kristinnar trúar, það er vilji einstaklingsins sjálfs til að velja og hafna. Og við getum andað honum inn í líkama okkar, ef þannig má að orði komast og látið hann gera okkur heil þannig að þegar við öndum frá okkur fara neikvæðar hugsanir og ásakandi tilfinningar í burt með hjáp þess Guðs er fæddist af ungri stúlku í þennan heim fyrir um 2000 árum.
Margar ævisögur koma út hér á landi, bæði íslenskar og þýddar. Við lesum þær. Erum við að lesa þær til að forvitnast, til að hneykslast, til að skilja, til skemmtunar? Ég held að ævisögur séu vinsælt lesefni af því okkur finnst gott að geta samsamað okkur sögupersónunum og lært af þeim. Og þannig er það einnig með sögupersónur jólaguðspjallsins. Við getum ótal margt lært af Jósef og Maríu og líka af hirðunum, sem fyrstir fengu boðin um fæðingu frelsarans. Hirðarnir fóru rakleiðis til Betlehem eftir að þeim bárust tíðindin. Við skiljum það vel, því við fáum sjálf þá tilfinningu þegar eitthvað gerist að við viljum fara og sjá. Ömmur og afar fara ekki bara upp á fæðingardeild þegar nýr einstaklingur bætist í fjölskylduna, heldur setjast rakleiðis upp í næstu flugvél ef barnið er fætt úti á landi eða erlendis. Við skiljum því vel hirðana, sem vildu sjá það sem gjörst hafði. Og auðvitað sögðu þeir frá upplifun sinni. Það þekkjum við líka. Við segjum frá reynslu okkar og aðkomu að atburðum þegar við erum mætt á staðinn.
Og allir viðstaddir undruðust nema María. Enda hafði hún áður fengið heimsókn engils, sem hafði sagt henni að hún bæri son Guðs undir belti og skyldi ekki vera hrædd. Óttast þú eigi hafði engillinn sagt við hana alveg eins og við hirðana þegar þeim voru borin tíðindin. En hvað gerðu hirðarnir svo? Jú, þeir lofuðu Guð og vegsömuðu fyrir það sem þeir höfðu reynt og orðið vitni að. Okkar upplifanir af Guðdómnum eru e.t.v. ekki eins sterkar og hirðanna. Við sjáum ekki engla eða heyrum raddir svona dags daglega, en við fáum samt á hverjum degi ástæðu til að þakka Guði og lofa hann. Það er svo ótal margt sem við getum þakkað fyrir, en það er eins og við skynjum það ekki fyrr en að myrkrið hefur sótt okkur heim. Ljósið verður að skína í myrkrinu. Þegar heilsan hefur bilað t.d. finna margir að það er ekkert sjálfsagt að halda heilsu alla daga. Þannig lærum við smám saman að þakka fyrir hversdagslega hluti, því við skiljum að þeir eru ekki allir sjálfsagðir.
Á þessum jólum skulum við því minnast þakklætisins. Þakklætis fyrir að fá að lifa í landi þar sem lýðræði ríkir. Í landi þar sem kristin viðmið eru viðhöfð. Því þó margt megi betur fara erum við þó hamingjubörn miðað við margar aðrar þjóðir. Við getum líka þakkað fyrir líf okkar og þeirra sem á undan eru gengin og beðið Guð að líkna þeim sem þjást og stríða. Við getum þakkað að fá að stefna í faðm hans að leiðarlokum.
Megi boðskapur jólanna, kærleikurinn sem þau boða standa hjarta okkar nær og láta okkur bera hann áfram til samferðamanna okkar. Gleðileg jól í Jesú nafni.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.