G8 - Tvenns konar guðfræði

G8 - Tvenns konar guðfræði

Þarna er komið að átakalínu guðfræðinnar sem snýst um hvort prestar eigi að boða félagslegt réttlæti eða ekki. Með boðun félagslegs réttlætis telur ræðumaður kirkjuna hafa lent í siðrofi vegna þess að hún blandi sér í veraldlegan málaflokk þar sem hún geti lítið að gert.

Það er mögulegt að ástunda guðfræði á ýmsa vegu og á mismunandi vettvangi. Guðfræði er til dæmis hægt að stunda í klausturgarði lengst úti í sveit. Það er líka hægt að iðka guðfræði á torgi fyrir framan dómkirkju í miðjum erli borgarinnar.

Guðfræði sem virðist ættuð úr einangrun klaustursins má finna í íhugunarverðum fyrirlestri sem fluttur var við setningu kirkjuþings fyrir skömmu. Fjallaði erindið um stöðu og hlutverk þjóðkirkjunnar í aðdraganda og eftirmála bankahrunsins. Ávarp við þetta tækifæri hlýtur að tjá afstöðu kirkjustjórnarinnar að einhverju marki. Það vekur því athygli og verðskuldar greiningu. Hér verður þess freistað að rýna það út frá því sjónarhorni sem torgið skapar. Við, sem þetta skrifum, teljum okkur hafa tekið okkur stöðu þar m.a. í blaðagreinum sem við höfum birt á undanförnum misserum.

Ræðumaður virðist telja að þjóðkirkjan geti með nokkru stolti skoðað framlag sitt í aðdraganda og eftirleik Hrunsins. Þeirri skoðun til stuðnings segir hann að biskup hafi gagnrýnt græðgina en fengið bágt fyrir. Samtímis lítur fyrirlesarinn svo á að ræður presta hafi almennt snúist um veraldlegt réttlæti sem að hans mati tilheyri ekki hlutverki kirkjunnar.

Þarna er komið að átakalínu guðfræðinnar sem snýst um hvort prestar eigi að boða félagslegt réttlæti eða ekki. Með boðun félagslegs réttlætis telur ræðumaður kirkjuna hafa lent í siðrofi vegna þess að hún blandi sér í veraldlegan málaflokk þar sem hún geti lítið að gert. Þúsundir heimila muni hvort sem er verða gjaldþrota og skúrkar áfram ganga lausir. Hann telur boðun Krists ekki vera mannmiðlæga og kirkjan megi af þeim sökum ekki ala á því viðhorfi að manneskjan sé miðpunktur alheimsins. Hugtakið siðrof notar ræðumaður í svo óljósri og margbreytilegri merkingu að það verður að merkingarlausu mælskubragði. Þeirri hugmynd er að lokum varpað fram í fyrirlestrinum að rétt væri að gefa út almennt fræðslurit um hliðstæður og tengsl rita Biblíunnar við íslenska menningu. Því er til að svara að þau rit eru fjölmörg og fyrirfinnast á hinum ýmsu sviðum. Þau komu hvorki í veg fyrir hið svokallaða siðrof né bankahrunið. Þau munu heldur ekki vega þungt við lausn þeirra vandamála sem stjórnvöld standa frammi fyrir við að koma samfélaginu aftur  á réttan kjöl.

Röksemdarfærsla ræðumannsins virðist byggjast á alvarlegu rofi frá umhverfinu. Ætla mætti að hún hafi orðið til í lokuðum klausturgarði. Rökleiðslan er eins og blaut tuska í andlit þess kristna fólks sem er uggandi um hag þeirra sem verst eru sett og skynja í ysnum á torginu rödd frelsara síns sem segir: Hungraður var ég, ... þyrstur ... gestur ... nakinn ... sjúkur ... og í fangelsi – og þér komuð til mín (Mt 25.35-37). "Kristur er í nánd" segir ræðumaður en hvað merkir það? Hvað á kirkjan að gera þangað til?

Guðfræði af þessu tagi er ekki ný af nálinni. Hún byggist á því að greint er á milli himins og jarðar, efnis og anda, veraldlegs og trúarlegs sviðs. Slík guðfræði telur trúna, kirkjuna og guðfræðina eiga að einskorða sig við hið andlega, yfirnáttúrulega eða handanlæga.

Guðfræði torgsins hefur sömuleiðis tekið á sig margvíslegar myndir í tímans rás. Á síðari áratugum hefur hún einkum sagt til sín í guðfræði svartra, frelsunarguðfræði Suður-Ameríku og femínískri guðfræði. Þessi guðfræði gengur út frá því að Jesús var sannur maður um leið og hann birti okkur sannan Guð og hún vill vera undirbúin fyrir það að mæta honum meðal þeirra sem höllum fæti standa hvenær sem er og hvar sem er.

Fyrir rúmri öld héldu margir fram torgsguðfræði sem síðar var réttilega gagnrýnd fyrir að vera of mannmiðlæg. Hún hafði oftrú á möguleikum manneskjunnar til fullkomnunar. Þetta var bjartsýn og bláeyg guðfræði. Hún lokaði augum fyrir villimennsku og syndugu ástandi mannsins sem afhjúpaði sig í tveimur styrjöldum, háðum í miðpunkti hins menntaða heims á þeim tíma — Evrópu.  Í kjölfarið gekk guðfræði Vesturlanda í gegnum kreppu og uppgjör er hún vann úr þessari reynslu. Það sem einkum hefur endurnýjað guðfræði af þessu tagi og gefið henni nýjan trúverðugleika er hvernig hún greinir félagslegan veruleika og tekur sér stöðu með fátækum og smáum, þeim sem hafa mátt þola ofbeldi, þöggun og blekkingar. Slík guðfræði var vegin og léttvæg fundin við upphaf kirkjuþings.

Fagnaðarerindið fjallar um Orðið sem var Guð, en varð hold og bjó með oss, það er um Krist sem sannan Guð og sannan mann. Þessar tvær víddir verða að vera til staðar í öllu því sem ætlað er að efla Krist á meðal okkar, hvort sem um er að ræða bænir eða baráttu fyrir félagslegu réttlæti í ranglátum heimi.