Komið til mín

Komið til mín

Það er dýr­mætt að eiga at­hvarf í bæn­inni. Í kap­ellu sum­ar­búðanna í Vatna­skógi er af­steypa af Krists­mynd Thor­vald­sens með áletr­un­inni „Komið til mín“.
fullname - andlitsmynd Jón Ómar Gunnarsson
20. apríl 2020
Kristsmynd Thorvaldsens í kapellunni í Vatnaskógi.
Krists­mynd Thor­vald­sens í kap­ell­unni í Vatna­skógi. — Ljós­mynd/Á​rsæll Aðal­bergs­son
Á hverju ári heim­sækja fjöl­mörg börn og ung­menni sum­ar­búðir KFUM og KFUK í Vatna­skógi og taka þátt í sum­ar­dvalar­flokk­um, ferm­ing­ar­nám­skeiðum og fjöl­skyldu­sam­ver­um. Starf­sem­in í Vatna­skógi hófst 1923 og hafa sum­ar­búðirn­ar allt frá upp­hafi skipað mik­il­væg­an sess í líf­um þeirra sem hafa komið að starf­inu með ein­um eða öðrum hætti. Skál­inn sem í dag er þekkt­ur sem Gamli skáli var vígður 1943 og er hann eins kon­ar and­lit staðar­ins sem tek­ur á móti öll­um þeim sem koma í Vatna­skóg. Gamli skáli stend­ur á því svæði sem nefn­ist Lind­arrjóður, enda syngja Skóg­ar­menn alltaf þegar komið er í Vatna­skóg söng sr. Friðriks Friðriks­son­ar: „Ljóm­andi Lind­arrjóður, loks fæ ég þig að sjá...“ Í Vatna­skógi hafa mörg börn og ung­menni öðlast ógleym­an­lega upp­lif­un, skapað sér góðar minn­ing­ar, styrkt vina­bönd og reynt fjöl­mörg æv­in­týri.

Þegar ekið er eft­ir veg­in­um í Vatna­skóg og horft í átt að Eyr­ar­vatni tek­ur, eins og áður seg­ir, Gamli skáli á móti gest­um. Aust­ur af Gamla skála stend­ur í Lind­arrjóðri kap­ella sem orðin er órjúf­an­leg­ur hluti af upp­lif­un þeirra sem dvelja í Vatna­skógi. Hún var reist 1949 af ung­um mönn­um sem tóku þátt í upp­bygg­ing­ar­starf­inu í Vatna­skógi og stend­ur við lind­ina í Lind­arrjóðri. Í kap­ellu þess­ari er af­steypa af hinni frægu Krists­mynd Bertels Thor­vald­sens sem stend­ur við alt­ari Vorr­ar frú­ar kirkju í Kaup­manna­höfn. Krists­mynd Thor­vald­sens ætti að vera okk­ur Íslend­ing­um að góðu kunn, en önn­ur eft­ir­mynd henn­ar er við Foss­vogs­kirkju. Á fótstall stytt­unn­ar er áletr­un­in „Komið til mín“ og vís­ar hún til orða Jesú Krists í 11. kafla Matteus­arguðspjalls: „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hóg­vær og af hjarta lít­il­lát­ur og þá munuð þér finna hvíld sál­um yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“

Af­steyp­ur af Krists­mynd Thor­vald­sens eru víða til og hafa þær orðið fólki mik­ill inn­blást­ur. Til er saga af manni nokkr­um sem heim­sótti Frú­ar­kirkj­una í Kaup­manna­höfn til að berja styttu Thor­vald­sens aug­um. Hann varð strax fyr­ir von­brigðum því hon­um þótti eins og Krist­ur Thor­vald­sens virti sig ekki viðlits, því stytt­an væri svo niður­lút. En maður­inn komst að raun um annað þegar hann kraup við alt­ari kirkj­unn­ar. Er hann leit upp horfði hann í augu frels­ar­ans, sem laut höfði og horfði til hans mild­um aug­um með út­rétt­ar hend­ur. Það var eins og frels­ar­inn segði við hann: „Komdu til mín, ég tek þig í faðm minn, hjá mér áttu skjól, sjáðu sár­in mín sem ég ber fyr­ir þig, hjá mér er líf, hjá mér er hvíld.“

Jesús Krist­ur býður okk­ur að koma til sín og öðlast frið og hvíld í amstri dags­ins, hann býður okk­ur að staldra við og fela sér áhyggj­ur okk­ar, kvíða okk­ar og óró­leika. Með þess­um boðskap eru öll þau sem sækja Vatna­skóg heim nestuð og skip­ar kap­ell­an og Krists­mynd Thor­vald­sens mik­il­væg­an sess í sjóði minn­ing­anna. Ég hitt oft full­orðið fólk sem dvaldi í Vatna­skógi á æsku­ár­um, jafn­vel fyr­ir mörg­um ára­tug­um, sem allt til þessa dags minn­ist sér­stak­lega stund­anna í kap­ell­unni.

Í ávarpi sínu til bresku þjóðar­inn­ar vegna heims­far­ald­urs Covid-19 sagði Elísa­bet II að á tím­um sam­komu- og út­göngu­banns ásamt öðrum tak­mörk­un­um á dag­legt líf væri fjöldi fólks að fá ráðrúm til bænar og íhug­un­ar. Það eru orð að sönnu, því vissu­lega hef­ur hægst veru­lega á dag­legu lífi margra sem kjósa að vera meira eða minna heima hjá sér á þess­um tím­um. Þá er dýr­mætt að upp­götva bæn­ina á ný og reyna það að við get­um á flókn­um og erfiðum tím­um treyst því að frels­ar­inn Jesús býður okk­ur til sín með út­breidd­an faðminn. En þótt hægst hafi veru­lega á dag­legu lífi margra standa aðrir, sér­stak­lega barna­fjöl­skyld­ur, frammi fyr­ir ann­ars kon­ar áskor­un. Að skapa jafn­vægi og ramma utan um dag­legt líf þegar vinn­an fer fram heima og skólastarf, íþrótt­astarf og frí­stund­astarf er tak­markað. Þá er ekki óeðli­legt að finna til þreytu, kvíða og jafn­vel auk­inn­ar streitu. Í slík­um aðstæðum er ekki síður dýr­mætt að heyra orð Jesú Krists, sem standa á stytt­unni í kap­ellu sum­ar­búðanna í Vatna­skógi: „Komið til mín.“

Kæri les­andi, það er von mín að þú meg­ir finna frið, styrk og hugg­un í bæn­inni og sam­fé­lag­inu við Guð á þess­um um­brota­tím­um. Það er von mín að þegar þú lít­ur aft­ur til þess­ara flóknu tíma sem við nú lif­um meg­ir þú minn­ast bæna- og íhug­un­ar­stund­anna með Jesú Kristi, sem þú gafst þér ým­ist í hæga­gangi Covid-19 hvers­dags­ins eða í skarkala hans. Að þess­ar stund­ir megi verða þér dýr­mæt­ar á sama hátt og stund­irn­ar í kap­ellu Vatna­skóg­ar eru þeim sem þar hafa dvalið ómet­an­leg­ar.