Kristnin og þjóðernið

Kristnin og þjóðernið

Íslensk menning er að breytast. Tökum því með djörfung og lítum á það sem tækifæri til að auðga íslenska menningu. Siðurinn er einnig að breytast. Sjáum það sem áskorun um auðugra og dýpra trúarlíf, betra tækifæri til að rækta sjálfa trúna og þá þjónustu sem henni fylgir,
fullname - andlitsmynd Halldór Reynisson
29. ágúst 2007

Mig langar að fjalla hér um kristnina og um þjóðernið. Tilefnið er að við erum hér í Þingvallakirkju, guðshúsi helgasta stað þjóðarinnar. Hér í þessum litla helgidómi skarast þessir tveir stofnar í lífi þjóðarinnar; annars vegar  hugmyndin um íslenska þjóð og ríki – hins vegar sá trúarlegi arfur sem þjóðin hefur átt í þúsund ár.

Það veit hvert tíu ára skólabarn á Íslandi að Þingvellir eru táknmynd, helgistaður þjóðarinnar. Hér varð íslenskt þjóðríki til árið 930 úr sambræðingi innflytjenda frá Noregi, Bretlandseyjum og víðar. Hér höldum við hátíðlega stóru stundirnar í líf þjóðarinnar. Og stærsti atburðurinn er að sjálfsögðu kristnitakan árið 1000 - ef frá er talinn sjálf stofnun þjóðveldisins. Og í þúsund ár mótuðu þessir tveir meginstaumar síðan sjálfsvitund allra Íslendinga.

Kannski kristallast þessi sambræðingur þjóðernis og trúar í kveðskap tveggja skálda frá ólíkum tíma, Hallgrími Péturssyni og Snorra Hjartarsyni.

Hallgrímur vefur saman þjóðernið og trúna með sérstökum hætti í þessum frábæra sálmi:

Gefðu að móður málið mitt Minn Jesú þess ég beiði Frá allri villu klárt og kvitt krossins orð þitt út breiði

Hér fellur allt að sama brunni, þjóðerni, tunga, - siður og trú. Enda á tímum þegar sama trú í sama ríki var dagskipanin en önnur trú talin villa.
Snorri Hjartarson orðar einnig sína trúarjátningu í ljóði:   Land, þjóð og tunga, þrenning sönn og ein, Þér var ég gefinn barn á móðurkné;
Hér er lífsviðhorfið Ísland, landið, þjóðernið. Ljóðið er sálmur hins íslenska þjóðríkisátrúnaðar, og skáldið notar form hins kristna tungutaks til að lýsa því sem gerir okkur að Íslendingum.

En tímarnir breytast – “times are a-changing” söng Bob Dylan. Ef til vill eiga orð þessara merku skálda trúar og þjóðernis ekki eins vel við og áður.

Sjálfsmynd okkar Íslendinga er að breytast. Þjóðin sem var afskaplega einlit er bókstaflega orðin marglit, margbreytileg og sundurgerðarleg. Fólkið í landinu á sér fjölbreytilegri bakgrunn og uppruna heldur en nokkurn tíma fyrr og er þá landnámsöldin meðtalin. Og kannski er það ekki alvont, þjóðernishyggja er hvort eð er ekki nema 200 ára gamalt fyrirbæri sem margoft hefur leitt þjáningu og bölvun yfir heimsbyggðina eins og stríð 20. aldar eru til vitnis um.

Tungan er einnig að breytast telja margir fræðimenn – og við mannfólkið höfum breytt ásýnd landsins mjög víða. Og sýnist sitt hverjum.

Og siðurinn, religio, er líka að breytast. Íslendingar ákváðu hér á Þingvöllum árið 1000 að hafa einn sið, eina trú enda tíðkaðist varla annað á þeim tíma.  Nú er sá sameiginlegi siður sem bindur alla saman í þessu samfélagi, frekar lýðræði, jafnrétti og umburðarlyndi. Við þurfum ekki lengur að vera eins hvað lífsviðhorf snertir. En við verðum að vera bundin af því grundvallarviðhorfi að fá að vera öðru vísi.

Sumir hafa áhyggjur af því að Íslendingar séu ekki lengur eins kristnir og þeir voru. Samt er það hæpna við þá fullyrðingu kannski fyrst og fremst það að ætla stórum hópi að aðhyllast sömu trú – að heil þjóð geti verið kristin.

Eflaust getur hún verið það ef við lítum á siðinn sem þá kristnu menningu sem kristin trúariðkun getur af sér í tímanna rás. Hins vegar ef við einblínum á hina persónulegu trúarafstöðu þá flækist málið. Mannskepnan er það margbreytileg að það er hæpið að hún geti nokkurn tíma komið sé saman um trú og lífsviðhorf nema tilneydd.

Áður voru allir bundnir af sama sið og sömu trú - annað leiðst ekki. Nú er sérhverjum frjálst að aðhyllast þá trú sem hann kýs svo fremi sem hún brýtur ekki gegn almennu siðferði og allsherjarreglu.  Af því leiðir að siðurinn, skilinn sem sameiginlegur gildagrunnur, getur aldrei verið annað en veraldleg grunngildi sem allir eiga að geta sameinast um.

Við getum því ekki – og eigum ekki að láta fortíðina eða arfinn múlbinda okkur – en hinar öfgarnar eru að neita því að arfurinn séu hluti af okkur og framtíð okkar.

Það er söguleg staðreynd að kristin trú mótaði þjóðina og menningu hennar í 1000 ár – og það er líka staðreynd að þessi kristna menning mótar okkur enn á margvíslegan hátt, oft án þess að við tökum eftir því.

Samt er það andstætt eðli kristninnar að neyða nokkurn til fylgilags við hana. Að fylgja Kristi í sannleika hefur alltaf verið meðvituð ákvörðun. Að trúa á Krist hefur alltaf verið stökk út í hið óþekkta. Að þora að fylgja hinni kristnu sannfæringu og lifa í samræmi við hana hefur kannski alltaf verið afstaða minnihlutans.

Íslensk menning er að breytast. Tökum því með djörfung og lítum á það sem tækifæri til að auðga íslenska menningu. Siðurinn er einnig að breytast. Sjáum það sem áskorun um auðugra og dýpra trúarlíf, betra tækifæri til að rækta sjálfa trúna og þá þjónustu sem henni fylgir, frekar en fátækleg fylgispekt einhvers óljóss meirihluta er fær um að veita.