Takk fyrir

Takk fyrir

Í dag viljum við þakka fyrir fjölskyldu og vini, fólkið sem gefur okkur verkefni og áskoranir, fólkið sem nærir okkur með umhyggju, velvilja og kærleika.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
18. ágúst 2010

Sumarblóm - mynd: Árni Svanur Daníelsson

Þakklætið er ekki ein af hinum klassísku dygðum en okkur finnst að það eigi svo sannarlega heima í lista yfir nútímadygðir sem hjálpa okkur að lifa hinu góða lífi.

Þakklæti er grundvallarafstaða til lífsins. Þakklæti er meðvitund um að við lifum í þörf. Þörf fyrir aðrar manneskjur, ást, næringu, ljós, áskoranir, viðurkenningu og daglegt brauð.

Þakklæti er að leyfa sér að vera manneskja. Þakklæti er að gleðjast yfir lífinu.

Við eigum uppáhaldssálm um þakklætið sem er ættaður frá Þýskalandi. Hann hefst svona:

Danke für diesen guten Morgen, danke für jeden neuen Tag. Danke, dass ich all meine Sorgen auf dich werfen mag.

Íslenska útgáfan hefst svona:

Þakkir fyrir hvern fagran morgun þakkir fyrir hvern nýjan dag þakkir að ég get endurgoldið og elsku veitt í mót.

Í dag viljum við þakka fyrir fjölskyldu og vini, fólkið sem gefur okkur verkefni og áskoranir, fólkið sem nærir okkur með umhyggju, velvilja og kærleika. Við viljum þakka fyrir þau sem eru með okkur í dag og líka þau sem eru farin frá okkur og skilja eftir minningar og söknuð. Við viljum þakka fyrir hvert annað og fyrir þennan dag.

Fyrir hvað vilt þú þakka í dag?