Dómsdagur sem hefur hátt

Dómsdagur sem hefur hátt

Yfirskriftina að þessari herferð hefði Lykla-Pétur hæglega getað notað á lýsingu sinni á Degi Drottins: „Höfum hátt.”

Flutt 26. nóvember 2017 í Neskirkju

Það er dómsdagssvipur á pistli dagsins eins og hæfir á þessum síðasta degi kirkjuársins. Það er víst ca. mánuði á undan almanaksárinu og nú er gamlársdagur í kirkjunni. Margt er að segja um dómsdagsspár. Vinsældir þeirra eru ótvíræðar og þær koma fyrir í textum margra menningarsamfélaga víðsvegar um heim.

Dagur Drottins

Hér áðan hlýddum við á erindi postulans Péturs til kristinna safnaða í Litlu Asíu. Þetta er hinn sami Pétur og var sagður hafa fengið lyklavöldin í hendur. Hann fer mikinn í lýsingum sínum á dómsdegi, kallar hann Dag Drottins og segir:

En dagur Drottins mun koma sem þjófur og þá munu himnarnir líða undir lok með miklum gný, frumefnin sundurleysast í brennandi hita og jörðin og þau verk, sem á henni eru, upp brenna. Þar eð allt þetta ferst, þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi. Þá munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita. En eftir fyrirheiti hans væntum við nýs himins og nýrrar jarðar þar sem réttlæti býr.

Þegar við rýnum í þessi orð birtist okkur sígilt stef sem finna má þegar höfundar bóka Biblíunnar líta fram til hinstu tíma. Umfjöllunin er gjarnan þrískipt: Jú, þar eru ógnvekjandi frásagnir af því þegar allt leysist upp og verður að engu. Hitt er þó ætíð með: áminningin til hinna trúuðu að lifa lífi sem sæmandi er. Loks er það vonin sem ritningin miðlar. Eftir storminn kemur stillan og þá mun réttlætið að lokum sigra.

Endalokin eru allt í kringum okkur. Við erum alltaf að kveðja og kveðjast. Tímabil vakna og deyja, dagar, vikur, mánuðir ár. Æviskeið og mannsævi. Og sumt er erfiðara að festa hendi á með dagsetningum. Skyndilega finnst okkur eins og eitthvað mikið hafi breyst, pendúllinn hafi færst frá einu enda til annars. Um þessar mundir stöndum við í þeim sporum. Ber ekki á öðru en að nú sé miður dómsdagur yfir ólíðandi hugsunarhætti og hegðun. Konur hafa stigið fram, fyrst ein og ein og svo hafa þær orðið æ fleiri. Nú skipta þær hundruðum. Þær segja allar sögu af forkastanlegri hegðun karla í sinn garð.

Yfirskriftina að þessari herferð hefði Lykla-Pétur hæglega getað notað á lýsingu sinni á Degi Drottins: „Höfum hátt.” Það er einmitt það. Dómsdagur kemur með miklum brestum. Það er ekkert auðvelt að stíga fram og rjúfa þykkja fjötra vanans og ríkjandi menningar. Slíkt krefst djörfungar og því miður fylgir því einnig blygðun og sársauki. En smám saman verður blygðunin ekki lengur þeirra sem á hefur verið brotið, hvort heldur það voru niðrandi orð, ósæmileg snerting eða enn alvarlegri kynferðisbrot. Nei, nú mega þeir skammast sín sem sýndu af sér þá hegðun og við öll hin sem létum það viðgangast með þegjandi samþykki – en upp úr þeim jarðvegi vex margt illgresið.

Kazuo Ishiguro

Dómsdagur birtist okkur í margvíslegri mynd. Hann kallar okkur til ábyrgðar, í honum leynist sterkur siðferðislegur boðskapur. Mögulega vakti sú hugsun fyrir Nóbelsnefndinni þegar hún veitti enska rithöfundinum Kazuo Ishiguro verðlaunin í ár. Er hann ekki lýsandi dæmi um dómsdagsskáld sem rýnir í líf mannsins og mannanna og leggur á vogarskálarnar? Í Dreggjum dagsins var það brytinn sem var staddur á dómsdegi eigin lífs. Hann leit til baka og rifjaði upp ranga valkosti á langri ævi þar sem hann helgaði þjónustunni við aðalsmann. Sá hafði, í aðdáun sinni á þýskalandi nazismans reynt að koma á samkomulagi á milli landanna.

Hvaða hlutverk valdi þjónninn sér? Hverju sóttist hann eftir og hvað siðgekk hann? Það rann upp fyrir honum að alla ævina hafði hann þjónað glötuðum málstað og glötuðum herra. Á sama tíma fældist hann sjálft lífið og ástina sem beið hans en rann honum svo úr greipum þegar hann um seinan sóttist eftir henni. Saga hans minnir á reynslu heils samfélags sem lét ofbeldismenningu viðgangast og tók henni með þögn eða vandræðalegu flissi.

Brytinn leitaði lífsins og tilgangsins of seint. Þarna sækir hið japansk ættaða skáld í smiðju sömu hugsana og svo margir aðrir hafa gert í gegnum tíðina. Dómsdagurinn í þeirri sögu var ekki reyndar ekki hávær. Hann var fremur eins og þungt andvarp er söguhetjan leit yfir dreggjar dagsins. Niðurstaðan er engu að síður sú sama og postulinn fær í kraftmikilli lýsingu sinni á degi Drottins: Lifðu lífinu og vertu trúr köllun þinni! Þessi undirtónn birtist á báðum stöðum. Memento mori! Mundu dauðann, hugleiddu takmörkin og gríptu daginn! hafðu hugrekki til að lifa og breyta í anda sannfæringar þinnar og samvisku. Þetta sögðu barokkmeistararnir áminnandi rómi og sóttu þar í ríkulega sjóði hins biblíulega boðskapar.

Og annað af þekktari verkum Ishiguros, sagan: Slepptu mér aldrei, lýsir lífi og hlutskipti barna í heimavistarskóla. Í þessari hrollvekjandi frásögn uppgötva börnin að þau lifa í þeim eina tilgangi að nýta megi úr þeim líffærin til lækninga. Þau eiga enga framtíð fyrir höndum. Ekki þarf að leita langt yfir skammt að áminnandi tóni í þessar sögu. Sjálfur sagði höfundurinn söguna vera lýsingu á hlutskipti fólks á okkar dögum. Heimur er á heljarþröm sagði hann, en við lifum og hrærumst og reynum að glæða stundirnar innihaldi og merkingu. Við erum að hans mati eins og hin ógæfusömu börn, sem í sögunni lifa lífi sínu í skugga þessarar yfirvofandi ógnar.

Siðfræði dómsdagsins

Já, við erum í sífellu minnt á dómsdaginn sem vofir yfir okkur en lífið heldur sinn vanagang. Það er helst að sortinn sæki að okkur þegar fólk treðst hvert um annað í leit að raftækjum og öðrum varningi á tilboði eins og var nú á föstudaginn. Ekkert virðist geta raskað ró nútímans, sinnuleysið birtist bara í nýrri mynd. Í tilkynningu frá Sameinuðu þjóðunum var síðastliðinn föstudagur sagður svartur dagur fyrir plánetuna. Hann einkenndist af hugsunarlausu kaupæði þar sem enn meira er sótt í auðlindir jarðar og enn meiri úrgangur fellur til. Höfundarnir kalla eftir því breytingum. Þótt þau umskipti verði vafalítið ekki þrautarlaus, verður það ekkert samanborið við þann dómsdag sem að óbreyttu vofir yfir jörðinni okkar og íbúum hennar.

Tal um dómsdag er felur í sér skýrar kröfur til þeirra sem á hlýða. Þar sem hann er settu fram í hinu kristna samhengi er það þó aldrei svo að ekki fylgi með stór skammtur af von. Alltaf er von og í hjörtum okkar er ljós kærleika og réttlætis sem getur skinið skærar og þá batnar heimurinn.

Ekkert er hægt að ræða dómsdagspámenn án þess að nefna Lúther, nú á síðasta degi siðbótarafmælisins. Sjálf siðaskiptin voru slíkur viðburður þar sem Lúther hafði hátt og stóð með samvisku sinni þrátt fyrir hótanir. Sjálfur virðist hann um tíma ekki hafa séð annað í kortunum en að endalokin væru í vændum. Á þeim tíma hafði maðurinn ekki burði til að breyta auðlindum jarðar í neysluvörur og úrgang í þeim tröllaukna mæli sem nú er. Samt var það græðgin sem vakti fyrir Lúther sem sagði að Guð hlyti að reiðast svo mjög vegna allra lyganna sem kirkjan hafði borið fram og vegna þess hvað valdinu hafði verið misbeitt. Þess væri skammt að bíða að dagur dómsins myndi renna upp.

Svo róaðist nú karlinn í það minnsta í þessum efnum og fór að hugleiða komandi tíma með hagnýtari hætti. Hann lét þó hafa það eftir sér að jafnvel þótt dómsdagur yrði á morgun, færi hann samt út í garð og gróðursetti eplatré. Vonin myndi aldrei víkja fyrir óttanum. Við settum líka niður eplatré hérna í garði Neskirkju á Lúthersárinu.

Og nú stendur eftir ákallið um siðbót, réttnefnda siðbót sem á erlendum málum kallast reform. Orðrétt þýðir það endurmótun, rétt eins og segir í texta Péturs um heim réttlætis sem rís upp úr rústum hinnar gömlu veraldar. Við stígum frá dauðanum til lífs. Dómsdagur er stundum hljóðlátt andvarp eins og í skáldsögunni um Dreggjar dagsins. Oftar hefur hann þó hátt eins og það uppgjör sem nú fer fram gagnvart kynbundnu óréttlæti og misrétti.

Frekjur sem hrifsa

Sú barátta á mikið sameiginlegt með ákallinu um bætta umgengni mannsins við náttúruna. Hvort um sig beinist gegn græðgi og skeytingarleysi þar sem frekjur hrifsa til sín í fullkomnu virðingarleysi við allt það sem fagurt er og gott. Og nú hafa Alkirkjuráðið og Lútherska heimsambandið, einhver öflugustu hjálpar og mannúðarsamtök veraldar sent frá sér ákall um reform – endurmótun samfélags og menningar þar sem þau horfa til hegðunar sem er náskyld þeirri sem konur á Íslandi og víðar hafa mótmælt. Þau hvetja okkur til að stíga frá dauðanum til lífsins, eins og Kristur kemst að í guðspjallinu og berjast gegn ásælni í verðmæti náttúrunnar.

Krafan er ætíð sú að við elskum náungann eins og okkur sjálf – náungi okkar eru sannarlega líka þau sem eiga að erfa jörðina. Það er þessi trú sem gefur okkur djörfung til að breyta því sem þarf að breyta og verður okkur leiðarljós til betra lífs. Að baki henni býr sú ríkulega og lifandi von sem skín til okkar í gegnum myrkur ofbeldis og þokubakka skeytingarleysis. Siðbótar er þörf og starf okkar er ærið.