Kirkjan sem griðastaður

Kirkjan sem griðastaður

Þó kirkjugrið hljómi sem úrelt hugtak hefur það verið stundað í lútherskum kirkjum og í nálægum löndum á okkar dögum
fullname - andlitsmynd Agnes Sigurðardóttir
28. júní 2016
Meðhöfundar:
Solveig Lára Guðmundsdóttir

Þann 7. júní s.l. áttum við tvær undirritaðar, biskupar í þjóðkirkju Íslands, fund á Biskupsstofu með flóttafólki.  Það var prestur innflytjenda sr. Toshiki Toma sem átti frumkvæði að fundinum með biskupum landsins.  Sr. Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup í Skálholti gat því miður ekki setið fundinn vegna vísitasíu um Suðurland.

Á fundinn kom flóttafólk frá Afganistan, Íran og Úganda, auk fulltrúa frá samtökunum No borders.

Tilgangur fundarins var fyrst og fremst að gefa flóttafólkinu tækifæri til að segja sögu sína og benda á hvað betur mætti fara í móttöku flóttafólks á Íslandi.

Dyflinnarreglugerðin

Það sem fyrst bar á góma á fundinum var Dyflinnarreglugerðin, sem heimilar að senda flóttafólk aftur til þess lands sem þau komu fyrst til innan Evrópu. Þessa reglugerð væri hægt að nota á alla þá flóttamenn sem fundinn sátu, enda engin bein flug hingað frá þeim stríðshrjáðu löndum sem þau koma upprunalega frá. Mörg hafa þegar fengið synjun í því landi sem þau flúðu upprunalega til en bíða þess nú samt að vera send þangað aftur, og þaðan að öllum líkindum alla leið til baka þar sem ekkert bíður þeirra annað en ofsóknir og dauði.

Frásagnir fólksins voru afar áhrifamiklar og það er ljóst að Dyflinnarreglugerðin er afar ósanngjörn gagnvart þeim sem vilja koma til Íslands.  Engin bein flug eru frá Miðausturlöndum til Íslands og því þurfa allir að millilenda einhvers staðar í Evrópu komi þau með flugi.  Ekki þarf að spyrja um þau sem koma fótgangangandi, með rútum eða bátum yfir Miðjarðarhafið.

Því er það okkar skoðun að Ísland beri að skoða vel aðild sína að Dyflinnarreglugerðinni og ef ekki reynist unnt að segja sig frá henni, þá beri yfirvöldum að minnsta kosti að túlka hana rúmt.

Ísland hefur komist upp með að nota Dyflinnarregluna aðallega til að komast hjá því að veita flóttafólki hæli. Á Íslandi er fjöldi flóttafólks það lítill að engin ástæða er til annars en að taka öll mál til efnislegrar meðferðar. Það er sannarlega engin ástæða til þess að senda flóttafólk aftur til þeirra landa sem ráða ekki við álagið, eða þeirra landa sem senda fólk til baka til þess lands sem það flúði upprunalega frá.

Frá því þátttaka Íslands í Dyflinnarsamstarfinu hófst hafa íslensk stjórnvöld vísað stærstum hluta hælisumsækjenda til baka til annarra aðildarríkja. Frá upphafi aðildar og þangað til í lok nóvember 2013 höfðu 93.5% hælisleitenda verið synjað um hæli á Íslandi.

Kirkjan leitist við að rjúfa einangrun flóttafólks

Annað sem bar á góma á fundi okkar var einangrun þeirra sem leita alþjóðlegrar verndar.

Að mati viðmælenda okkar er kirkjan í sterkri stöðu til að rjúfa þá einangrun.  Því hvetjum við söfnuði landsins til að taka vel á móti flóttafólki og beita sér fyrir því að útvega því stuðningsfjölskyldur.  Reynslan hefur sýnt að þau sem hafa sterkan stuðning heimafólks eigi frekar möguleika á því að mál þeirra séu tekin fyrir.

Einnig sjáum við fyrir okkur að kirkjan geti skapað vettvang til að finna sameiginleg verkefni fyrir heimafólk og flóttafólk.  Allir hafa eitthvað að gefa og eitthvað að þiggja.  Þetta samstarf getur því verið gefandi fyrir alla.

Kirkjugrið

Þriðja málið sem rætt var um voru svokölluð kirkjugrið.  Flóttafólkið sagði okkur frá því að margt flóttafólk hafi fengið grið í kirkjum í Evrópu og vildu fá að vita hvernig þessu er háttað hér á landi.

Dr. Hjalti Hugason prófesson í kirkjusögu við Háskóla Íslands hefur skrifað grein um kirkjugrið á Vísindavefnum.  Þar stendur: “Kirkjugrið fólust í að sá sem sóttur var með vopnavaldi mátti leita sér skjóls í kirkju eða kirkjugarði og naut friðhelgi meðan hann dvaldi þar. Í kristinrétti Árna Þorlákssonar (1237–1298) eða svokölluðum kristinrétti nýja sem lögfestur var hér 1275 er að finna nákvæm fyrirmæli um kirkjugrið. Þar segir að óháð því hvaða brot menn kynnu að hafa framið skyldu þeir njóta friðhelgi meðan þeir dveldu í kirkju eða kirkjugarði nema þeir sem framið hefðu ránmorð eða sært eða drepið mann á helgum stað. Gætu bandamenn ekki veitt þeim sem dvaldi í kirkjugriðum aðstoð átti presturinn sem þjónaði kirkjunni að sjá til þess að hann dæi ekki af þorsta, hungri eða kulda.”

Þó kirkjugrið hljómi sem úrelt hugtak hefur það verið stundað í lútherskum kirkjum og í nálægum löndum á okkar dögum. Þetta á einkum við þegar hælisleitendur, stundum í hópum, leita kirkjugriða og starfsfólk kirknanna kýs að fara að fyrrgreindum fyrirmælum, það er að veita húsaskjól og aðra nauðsynlega þjónustu þar til mál flóttafólksins hafa verið tekin fyrir.

Að lokum segir dr. Hjalti: “Ég lít svo á að vel geti þær aðstæður komið upp í náinni framtíð á sviði innflytjendamála að forráðamönnum kirkna beri siðferðisleg skylda til að veita flóttamönnum húsaskjól og láta reyna á hvort fornar venjur um kirkjugrið geti reynst tæki til að knýja yfirvöld til að taka ábyrga, efnislega afstöðu til málefna einstakra hælisleitenda.”

Undir þessi lokaorð dr. Hjalta viljum við taka með von um að við opnum augu okkar fyrir því að kærleiksboðskapur kirkjunnar býður okkur að gera svo.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. júní sl.  

Höfundar eru biskupar í þjóðkirkjunni