Brjóstagjöf í Betlehem

Brjóstagjöf í Betlehem

Ein mikilvægasta áskorun sem snýr að öllu fólki er sú að vera ekki tilfinningarlegir flóttamenn.

Og frelsarinn var lagður á brjóst og fjárhirðarnir þögðu til að trufla ekki tengsl móður og barns en María fann guðaveigarnar streyma fram hvíta kirtlana uns hún varð sjálf drukkin af ást (Hildur Eir Bolladóttir)

Það er margt stórkostlegt sem gerist í lífinu. Fólk upplifir mörg kraftaverk en í mínum huga jafnast ekkert á við það þegar barn fæðist. Allt í einu lítur barnið dagsins ljós og á samri stundu verða til djúp tengsl innan stórfjölskyldunnar. Foreldrar, ömmur, afar og frændfólk fá ný hlutverk sem byggjast á djúpum tengslum, ástúðarböndum sem næra og gleðja og allir þrá að sjá lífið sækja fram. Enginn þekkir hvítvoðunginn en allir elska skilyrðislaust og það er einstök gjöf. Barnið er gjöf lífsins sem er svo óendanlega máttugt í vanmætti sínum og barnið er ný von inn í þennan heim. Ástin kviknar og hlutverkin blómstra. Þess vegna er fæðing barnsins tengslahátíð. Þess vegna eru jólin svona heilög, af því að guðsmyndin okkar birtist í ungabarninu.

Jólin er tengslahátíð, þess vegna birtast þau okkur með margvíslegum hætti. Stundum eru þau full af hamingju og tilhlökkun og stundum eru þau tregafull og jafnvel hlaðin sársauka. Margir upplifa að fjölskyldan sem er dreifð um allan heim sameinast á þessum tíma og fólk leggur á sig löng ferðalög til að geta verið heima á jólum af því að heima er þar sem allir geta sameinast, - jafnvel þótt að heima sé allt annars staðar aðra daga ársins. Ég gleymi því aldrei þegar dóttir mín hringdi í mig á aðfangadagskvöld og var þá stödd ásamt vinkonu sinni í Kambódíu. Þá var móðurhjartað þanið af söknuði og áhyggjum, eða þegar elsti sonur minn hringdi á aðfangadegi þar sem ég var stödd á þessu kvöldi í Los Angeles og það gat fæðst lítill drengur á hverri stundu heima á Íslandi og ég fékk bara að sjá fjölskylduna á Skype. Þá var ég lítil í mér. Það var af því að jólin eru tengslahátíð. Á þessu kvöldi viljum við sameinast.

Ég tala líka um trega og sársauka. Þegar átök eru í fjölskyldum og fólk getur ekki talað saman vegna óuppgerðra mála þá fyllist hjartað af trega á þessum tíma og svo er það sársaukinn þegar dauðinn hefur slitið ástúðarböndin og ástvinur er horfinn sjónum okkar. Þá gerum við allt til að halda tengslum við minningarnar og sköpum hefðir sem varðveita þær á þessum tíma jafnvel þó að það kalli fram tár og söknuð því við viljum ekki fyrir nokkurn mun missa þau tengsl heldur hjúpum við þau fegurð, kærleika og þakklæti.

Seint mun ég gleyma er ég var starfandi miðborgarprestur í Reykjavík og átti bænastund í athvarfi með konum sem voru utangarðs á þessum kvöldi eins og svo mörgum öðrum. Stundin var þrungin trega og sorg af því að fjölskyldutengslin voru rofin vegna fíknar og neyslu. Ég man eina konuna þar lýsa því hvernig hún hefði misst börnin þrjú frá sér og hvernig henni hefði í veikindum sínum tekist að eyðileggja fjölskyldu- og vinatengslin eins og hún orðaði það og þess vegna væri hún tilfinningarlega ein á þessu kvöldi fjarri sínu fólki. Það væru aðeins ein tengsl sem henni hefði ekki tekist að eyðileggja og það var við hennar æðri mátt og hún hefði ekki misst bænamálið. Svo bað hún fyrir okkur öllum sem þarna vorum og það er sú fegursta fyrirbæn sem ég hef þegið og við allar sem áttum þessa stund vorum skyndilega á samleið. Tengslin við barnið í Betlehem höfðu aldrei rofnað því það var líka utangarðs frá fyrstu stundu lífsins.

Við getum verið flóttamenn og utangarðsmenn í svo margvíslegum skilningi. Þegar við gerum ekki upp sáru tengslin við ástvini okkar upplifum við okkur sem tilfinningarlega flóttamenn og þegar við verðum fyrir missi þá getum við nefnilega upplifað okkur sem utangarðs. Margt fólk sem upplifir að missa maka sinn finnst það varla heill né hálfur maður og utangarðs á margan hátt.

Við hjónin eigum yndislegan vinahóp sem hittist við hver áramót, sjö hjón sem koma saman til að fagna nýju ári og góðri vináttu. Nú á síðast liðnu vori fórum við öll saman til Normandí í Frakklandi til að njóta og treysta vinaböndin. Ég veit að á almanakinu lúrir dagsetning þar sem eitthvert okkar missir makann sinn - og raunar við öll einn daginn - og ég sé hversu auðvelt það getur verið að viðkomandi upplifi sig þá utangarðs í þessum hópi. Allt sem við höfum gert, höfum við gert sem hjónafólk. Við hreinlega kunnum ekkert á vinskapinn öðruvísi. Þá vona ég að við munum bera gæfu til að standa saman og koma í veg fyrir að nokkur upplifi sig utangarðs og heiðrum minninguna um þann sem er farin inn í hið eilífa ljós. Ég finn það líka þegar árin líða að í hvert skipti sem ég sest til borðs með þessum vinum mínum og horfi yfir hópinn þá er ég svo þakklát að enn ein áramótin erum við þarna öll.

Ein mikilvægasta áskorun sem snýr að öllu fólki er sú að vera ekki tilfinningarlegir flóttamenn. Ég man þegar í var í Bandaríkjunum og sat kúrs í fjölskyldumeðferð. Einn af mínum aðal kennurum lagði ríka áherslu á það að góður sálgætir yrði að sættast við stórfjölskyldu sína og vera ekki með tengslin við sína nánustu óuppgerð í sársauka eða skömm. Þrátt fyrir að barnið í Betlehem hefði bæði verið utangarðs á ýmsan hátt og flóttamaður vegna yfirvofandi hættu í umhverfi sínu frá blautu barnsbeini þá var hann ekki tilfinningarlegur flóttamaður. Afrek frelsarans Jesú var ekki síst í því fólgið að mæta fólki af heilindum og elska skilyrðislaust. Hann dæmdi ekki líf annarra og setti sig ekki á háan hest en skilgreindi sig sem þjón allra og lagði fram skýra ástarkröfu:

„Þér hafið heyrt að sagt var: Auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. En ég segi yður: Rísið ekki gegn þeim sem gerir yður mein. Nei, slái einhver þig á hægri kinn þá bjóð honum einnig hina. Og vilji einhver þreyta lög við þig og hafa af þér kyrtil þinn gef honum eftir yfirhöfnina líka. Og neyði einhver þig með sér eina mílu þá far með honum tvær. Gef þeim sem biður þig og snú ekki baki við þeim sem vill fá lán hjá þér. Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður.“ (Matt. 5. 38-42)

Hann sem fæddist sem flóttamaður í Betlehem hvetur okkur til að vera ekki tilfinningalegir flóttamenn heldur varðveita ástúðarböndin og græða tengslin.

Og frelsarinn var lagður á brjóst og fjárhirðarnir þögðu til að trufla ekki tengsl móður og barns en María fann guðaveigarnar streyma fram hvíta kirtlana uns hún varð sjálf drukkin af ást

Með móðurmjólkinni drakk barnið í Betlehem í sig ástina á mannkyni sem hann þjónaði allt til enda lífs síns og þjónar enn í dag af því að þegar okkur tekst ekki að mynda tengslin eða missum þau frá okkur þurfum við að eiga ástvin þar sem tengslin eru heil þrátt fyrir vanmátt okkar. Sá er boðskapur jólanna; þú ert aldrei einn eða ein og við getum öll leyft barninu að stækka hjarta okkar. Dýrð sé Guði. Amen