Tími og spegill

Tími og spegill

Stundum þegar við flettum til baka í lífsbókinni sjáum við tímabil, sem voru slæm, erfið, þjáningarfull .... Jesús sagði dæmisögu af fíkjutré. Það er oft skilið svo, að það tákni fólkið hans ... Það bar ekki ávöxt .... Kannski er fíkjutréð okkar þjóðarmynd. Um þessar mundir óttaleg hryggðarmynd .... Við erum ekki tré. Því síður trédrumbar. Við erum börn Guðs og hann einn getur betur en allir aðrir hlúð að æðakerfinu og taugakerfinu og siðakerfinu og kennt okkur þá list að sjá lífið í réttu ljósi og lifa í ljósi vonarinnar.
fullname - andlitsmynd Birgir Ásgeirsson
31. desember 2008
Flokkar

Þá sagði Jesús þeim þessa dæmisögu: „Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki. Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að vera engum til gagns? En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár þar til ég hef grafið um það og borið að áburð. Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp.“ Lúk 13.6-9

“Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta”. (Ds.4). Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Áramót eru flestum áhrifamikil þáttaskil. Liðið ár er afmarkaður tími, - tími sem við höfum lifað með, í og á. Við höfum fundið fyrir honum, þreifað á honum, ýmist í gleði eða sorg, vinnusemi eða aðgerðarleysi, heilbrigð eða veik, sogað andartak hans inn í brjóstholið, notið stundarinnar. Við höfum líka reynt að ýta honum frá okkur, reynt að eyða honum, tortíma honum, svo hann gæti ekki leikið sér að okkur, eða bætt við minningum eða hrukkum, sem eru okkur ógeðfelldar, já, eða aukið álag líðandi stundar, sem okkur fannst vera okkur um megn. Við höfum látið okkur hlakka til komu tímans og fagnað nýrri stund, nýrri sólarupprás, nýjum degi, lyft höndum og sungið honum söng þakklætis og nautnar. Við höfum líka óttast hann, beðið þess að hann hyrfi eða næmi a.m.k. staðar, svo við misstum það ekki frá okkur, sem var á förum, hvort sem það nú var dagur eða nótt, ástvinur eða einhver, sem stóð við dauðans dyr og beið þess að skilja við, þennan tíma, þennan stað, þessa tilveru. Allt hefur þetta verið talið, frá einni stund til annarrar, einu andartaki til annars.

Tími liðins árs hefur vaxið inn í líf okkar, umvafið vitund okkar, vakið með okkur stundargleði eða stundarhryggð. Við heilsum tímanum í kvíða og eftirvæntingu og við kveðjum hann í sorg og í sátt. Hann mætti okkur jafnlyndur og stundvís, hvort sem það snerti vonbrigði eða vonir, starf eða þjónustu, ástarfund eða kveðjustund, hvíld eða svefn. Hann fylgir okkur tryggur. Þótt okkur finnist hann leiðinlegur, þá hverfur hann ekki. Og þótt okkur finnist hann svo skemmtilegur, að það megi engan endi taka, þá líður hann hjá. En hann yfirgefur okkur aldrei, meðan við lifum. Tíminn, já, tíminn. Hann er lífið mitt og þitt. Hann er það sem ég hef, þar til ég dey. Og þegar árið þetta er liðið, er söknuðurinn óumflýjanlegur. Hluti af mér hverfur með þessu ári. Hluti af mér deyr og ég fæ því ekki breytt. Ég fæ engu breytt af því sem var. Það veldur mér hryggð. En líka gleði. Sumt fór ekki eins og ég vildi. En því vil ég heldur ekki gleyma, að margt fór vel. Minningarnar hafa safnast upp, ég á þær og þær hverfa ekki. Þær eru óháðar tíma og rúmi. Eru upphafnar og tíminn og eilífðin verða eitt í þeim og verða mér vegarnesti til næsta skrefs, næsta árs, eins og ávöxtur, sætur eða súr, - súrsætur.

Súrsætir ávextir

Stundum þegar við flettum til baka í lífsbókinni sjáum við tímabil, sem voru slæm, erfið, þjáningarfull. Sjálfur vildi ég t.d. ekki lifa aftur unglingsárin. En þau hafa samt sem áður verið sú reynsla, sem ég má ekki missa, því þau kenndu mér svo margt og gerðu mig, þegar upp var staðið, styrkari og betur hæfan til að meta það sem gott var, eða öllu heldur það sem mér finnst gott. Og það var margt og það er margt, svo óumræðilega margt. Í því er mikið þakkarefni, en hvorugt má missa sig úr lífssögunni, þeim tíma sem ég hef fengið, til þess að ég geti verið það sem ég er. Það viljum við vera og þurfum að vera. Við sjálf. Annars er það ekki ekta. Annars get ég hvorki skilið það, né notið þess, lifað því, glaðst af hjarta eða grátið af einlægni. Það er hins vegar spurning með ávöxtinn. Sífelld spurning. Lifandi spurning. Það er spurning um tilvist. Tilvíst mína og það samfélag sem mig varðar, skapar lífsskilyrði, skapar traust og öryggi. Samfélag, sem vinnur gegn einsemd og einangrun, samfélag, sem skilgreinir umhverfið, hverjir eru til staðar, hvernig þeim verði sinnt, hvernig gladdir og auðsýnd umhyggja.

Jesús sagði dæmisögu af fíkjutré. Það er oft skilið svo, að það tákni fólkið hans. Hina útvöldu þjóð. Þ.e.a.s. fólkið sem Guð skapar og gerir að karli og konu, hvort á sinn hátt, hvert sinnar gerðar í útliti og hinu innra, - en er þó fyrst og fremst barn Guðs. Og það er mjög persónuleg staða. Það er ég. Eða þú. Og það bar ekki ávöxt.

Þetta fíkjutré dæmisögunnar lifði samt. Það hafði á einhvern hátt átt slæma daga. Það hafði með einhverjum hætti misst jarðsambandið og skilist frá þeirri næringu, sem var því nauðsynleg. Hér var hvorki lífsþróttur né fylling, svo það bæri ávöxt. En ávöxtur trés er ávöxtur. Ávöxtur manns er ávöxtur af því tagi, sem er miklu meira, bæði á hæð og dýpt. Maðurinn er meira en tré, en hann getur nærst af trénu og lært af því.

Ávöxtur mannsins er ekki sá einn að geta af sér barn, sem er þó stórkostlegt og óviðjafnanleg reynsla móður og föður. Ávöxtur mannsins er einnig allt það, sem hann skapar í hugsun sinni og framkvæmd. Það á sér auðvitað engan endi, meðan lífið varir og við fylgjum tímanum. Ef sá ávöxtur á að þroskast, verða fullburða, eftirsóknarverður, þá verður að koma til eftirfylgd, umhyggja, alúð, velvild, ástúð, - sem í einu orði heitir kærleikur. Á því byggist allt. Við sjáum það á því, hvað hefur gefið okkur sjálfum lífsfyllingu, besta tímann og mesta hamingju. Við sjáum það á því, hvað hefur verið drifkraftur lífsins og fengið okkur til þess að bæta okkur sjálf og vera öðrum bót og betrun, hvatning, gleði og von. Þar koma börnin okkar sannarlega við sögu, en líka það sem okkur hefur verið trúað fyrir og það sem við getum af okkur í orði og verki, hugsun og tjáningu. Sagan vitnar um það. Saga hvers og eins. Þar hefur hver sínu hlutverki að gegna. Ef einhver finnur ekki þann tilgang, þá er það annarra úr hinu skipulagða kærleiksamfélagi okkar að koma til hjálpar. Veita aðhlynningu, hvatningu og lífsþrótt, og hleypa þannig lífi og von að viðkomandi og í hann, svo að hann beri ávöxt í sjálfum sér.

Jesús kom ekki í þennan heim til þess að setja út á eitt lítið vesalt fíkjutré. Hann benti á það okkur til umhugsunar. Hann kom til þess að gera okkur kleift að skynja nauðsyn kærleikans, leita eftir honum af innilegri tilfinningu og þrá hann af öllu hjarta.

Hryggðarmynd?

Kannski er fíkjutréð okkar þjóðarmynd. Um þessar mundir óttaleg hryggðarmynd. Þar hafa einhver sambönd rofnað og ræturnar þornað. Börkurinn, hjúpur heildarinnar, er vindblásinn og kalinn, og það ríkir ótti um afkomu, skil og traust. Víngarðseigandinn, velti því fyrir sér hvort höggva bæri þetta tré. Taka það upp með rótum og láta annan afurðarmeiri gróður vaxa yfir og hylja þess tilverustað nýjum gróðri, ávaxtameiri. En víngarðsmaðurinn bar umhyggju fyrir þessu tré, þótti vænt um það. Leyf mér að hlú að því, sagði hann, hlú að því, losa um jarðveginn, gefa því áburð, vera því skjól og hvatning, næring og svölun. Ef þetta er það sem bjargar einu tré, þá er það kærleikur velgjörðarmannsins, sem bjargar þjóðinni. Af hinum sanna kærleika sprettur vitundin um bróður, systur, náunga. Ef við hugsum í þjóðlegri stærð, þá er það einmitt slík afstaða sem við þurfum á að halda, einmitt nú. Þá getur þessi hryggðarmynd hugsanlega fengið á sig blómlegri mynd og orðið ávaxtaríkari í skilningi mennskunnar, þar sem óttinn er hrakinn á brott, tortryggnin höggvin upp og lifandi von eftirvæntingarinnar vakin á ný. Það er hægt, og við þá vonarsýn er gott að vakna til nýs dags og nýs árs.

Spegill, spegill ... En það er auðvitað alltaf erfitt, jafnvel varasamt, að tjá sig í þjóðlegum stærðargráðum. Kannski gerum við of mikið af því. Nær væri að skoða þetta fíkjutré, eins og litið væri í spegil. Og ef þetta lasburða fíkjutré er bara mynd af sjálfum mér, er ég þá sama hryggðarmyndin og það? Ja, mér finnst það stundum. En eftir því sem árin líða geri ég mér betur grein fyrir því að spegill á vegg er fláráð skepna, og líka það, að tíminn er ákaflega jarðbundið fyrirbæri, sem setur óþægileg mörk á getu mannsins og varnar mér auðveldlega sýn til hinna eilífu verðmæta, rétt eins og vesöl mynt viðskiptanna, sem fjötrar manninn og heftir frelsi hans, þegar hann lætur spegilmynd peningsins stjórna sér.

Kona nokkur á tíræðis aldri var hrukkótt og slitin. En fyrir okkur sem þekktum hana var hún engin hryggðarmynd. Hún var dásamleg mannvera. Þótt hún gréti, varð sá meiri manneskja en ella , sem hjá henni sat, og þegar hún hló, upphófst sjálfsmyndin og tíminn missti vald sitt, vitundin um hamingju varð skýrari og gleðin yfir gjöfum lífsins varð áþreifanleg. Við eigum áreiðanlega öll minningu um slíka manneskju í lífsbókinni, - og gott ef svo er.

Sá sem tekur barn sér í faðm, finnur til hins sama. Sá sem er umvafin hrammi góðs vinar finnur betur en ella hver hann er sjálfur. Sá sem hlustar eftir því, hvernig mér líður og bregst við af skilningi og samkennd, skerpir einnig þá tilfinningu. Þegar hönd heldur í hönd á sjúkrabeði, þá finnst það að innstu rót. Allt þetta og miklu meira af því tagi, er að horfa á spegilmynd kærleikans og uppgötva eigin lífsþrek, listskynjun, sköpunarmátt, löngun til að læra og gefa, löngun til að lifa, - eitt ár enn.

Við erum ekki tré. Því síður trédrumbar. Við erum börn Guðs og hann einn getur betur en allir aðrir hlúð að æðakerfinu og taugakerfinu og siðakerfinu og kennt okkur þá list að sjá lífið í réttu ljósi og lifa í ljósi vonarinnar.

Ásýnd Drottins

Drottinn hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns. Sú mynd, sem hann gefur sjálfum þér, er hans eigin mynd, af því að þú ert barn Guðs. Ekkert í tímans rás jarðneskrar tilveru fær því hnikað, og engin villusýn veraldarhyggju og silfurroðinnar spegilmyndar í gullramma fær því breytt. Þannig vitnar Páll postuli um þessa reynslu sína: Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum. Þegar hið mikla tónskáld Georg Friedrich Händel samdi Messías, átti hann í hugarstríði út af veraldlegum áföllum. En honum tókst samt í spegilmynd Krists, að gefa okkur sýn til þeirrar myndar, sem er hafin yfir alla tíma og snertir eilífðina. Þegar kemur að síðasta kafla verksins, einhvers mesta dýrðaróðs tónlistarsögunnar, fær hann einum bjartrödduðum sólóista það hlutverk að undirbúa þennan dýrðaróð og það ómar einni röddu: “Ef Guð er með okkur hver er þá á móti okkur?” (Róm. 8) Og það vill svo vel til að það verk allt verður flutt hér í kirkjunni á morgun, nýjársdag.

Orð Guðs er spegill sálarinnar. Sú spegilmynd sem þar sést er hin sanna mynd af þér, þitt eigið fíkjutré. Við þurfum að sjálfsögðu að líta í silfurspegilinn í kvöld, - þennan sem hangir á veggnum, áður en við mætum í spaugstofu þessa síðasta dags liðins árs. Og við skulum gleðjast í því. Um leið minnumst við þess, að myndin sem speglast í orði Guðs, er aldrei hryggðarmynd, heldur aðeins ljóslifandi, björt og kærleiksrík mynd vonar og eilífðar.

Guð gefi okkur öllum gleðilegt nýtt ár í Jesú nafni.