Að strika út skuldir

Að strika út skuldir

Þessi dæmisaga fjallar um fyrirgefninguna. Þetta er mikilvægur boðskapur sem á vel við í dag. Ég átta mig á því að fyrirgefning er kannski ekki það sem er mörgum Íslendingum efst í huga þessa dagana. Kannski sér í lagi þar sem enginn eða engir hafa beðist fyrirgefningar, hvorki einstaklingar né stofnanir.

Þá gekk Pétur til hans og spurði: „Drottinn, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgerir við mig? Svo sem sjö sinnum?“ Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.

Því að líkt er um himnaríki og konung sem vildi láta þjóna sína gera skil. Hann hóf reikningsskilin og var færður til hans maður er skuldaði tíu þúsund talentur. Sá gat ekkert borgað og bauð konungur þá að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu sem hann átti til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina. Þegar þjónn þessi kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér. En hann vildi það ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum. Þannig mun og faðir minn himneskur gera við yður nema þér fyrirgefið af hjarta hvert öðru.“

Guðspjall: Matt 18.21-35

Það er ekki erfitt þessa dagana að setja sig í spor þjónsins sem skuldaði konungi sínum tíu þúsund talentur.  Tíu þúsund talentur var gífurlega há fjárhæð.  Nú eru margir Íslendingar í þessum sporum, að skulda háar fjárhæðir sem nú hækka hvern mánuð.  Margir sjá ekki fram úr því að geta nokkurn tíma greitt þessar skuldir ef fram fer sem horfir. 

Það er ekki erfitt að setja sig í spor þjónsins, að ímynda sér angist hans, vonleysi og skömm.  Það er ekki síður auðvelt að ímynda sér gleði hans og hamingju þegar konungurinn tilkynnir honum að hann muni gefa honum upp skuldina.  Ímyndið ykkur ef lánastofnanir á Íslandi myndu gefa öllum upp gjaldeyristengdu lánin.  Ef þau yrðu hreint og beint strikuð út.  Þá yrði nú fagnað á mörgum heimilum á Íslandi. 

En það er ekki raunhæft að vonast eftir að það gerist.  Enda er konungurinn í dæmisögunni ekki holdgerfingur lánadrottna á Íslandi heldur á hann að tákna Guð.  Hann táknar Guð sem gefur okkur upp allar okkar skuldir.  Hann er sá eini sem við ávallt getum gert ráð fyrir að muni fyrirgefa okkur öll brot, strika út allar okkar skuldir.

En hvað gerði síðan þessi þakkláti þjónn þegar hann var orðinn skuldlaus og vel settur, þegar hann hafði komið ár sinni vel fyrir borð.  Jú, hann fór beint á fund samþjóns síns og rukkaði hann um útistandandi skuldir.  Og hann gerði það af fullri hörku, jafn mikilli hörku og lánadrottin hans hafði beitt hann stuttu áður.

Þetta er ágæt lýsing á okkur mannfólkinu.  Við eigum oft svo erfitt með að líta í eigin barm, sjá sökina hjá okkur sjálfum.  Við eigum oft svo erfitt með að setja okkur í spor annarra sér í lagi ef það kemur niður á okkur sjálfum og verður til þess að við verðum að fórna einhverju.  Það er svo miklu auðveldara að fyrirgefa og vera rausnarleg ef við þurfum ekki að hafa fyrir því, ef það bitnar ekki á okkur sjálfum.

Þessi dæmisaga fjallar um fyrirgefninguna.  Þetta er mikilvægur boðskapur sem á vel við í dag.  Ég átta mig á því að fyrirgefning er kannski ekki það sem er mörgum Íslendingum efst í huga þessa dagana.  Kannski sér í lagi þar sem enginn eða engir hafa beðist fyrirgefningar, hvorki einstaklingar né stofnanir, hvorki ríkisstjórn né einstaklingar innan hennar.  Þau sem nú óttast að missa allan sinn sparnað og jafnvel aleiguna vegna þess að þau treystu lánastofnunum landsins, þau sem tóku lán í góðri trú og eiga ekki lengur fyrir afborgunum, þau sem hafa misst vinnuna og svo mætti lengi telja.  Fyrirgefning er þeim líklega ekki ofarlega í huga. 

En gleymum því aldrei að því fylgir áhætta að vera manneskja og lifa með öðrum manneskjum.  Áhættan sem við allar manneskjur tökum og höfum ekkert val um það, er að verða særð sálrænt eða líkamlega.  Að gera mistök og að breyta rangt tilheyrir því að vera manneskja.  Öll gerum við mistök og öll breytum við stundum rangt – ekkert okkar er fullkomið.  Jesús er sá eini sem var og er fullkominn.  En það að vera manneskja gefur okkur þau forréttindi að okkur stendur til boða að eiga samband og samskipti á tveimur sviðum, við annað fólk og við Guð.  Við lifum öll í ástandi syndar.  Við gerum mistök og vitleysur en Guð hefur gefið okkur leið út úr þessu.  Hann gaf okkur fyrirgefninguna.  Og hann vill að við nýtum okkur hana.  Ekki aðeins gagnvart Guði heldur einnig gagnvart náunganum.  Hann vill ekki að við komum fram við hvort annað eins og þjónninn kom fram við samþjón sinn í sögunni.  Hann vill að við reynum að setja okkur í spor annarra og fyrirgefum hvert öðru eins og kostur er.

En fyrirgefning er ekki alltaf auðveld og kannski ekki sjálfsögð heldur.  Að viðurkenna að við höfum breytt rangt eða gert mistök er ekki öllum gefið.  Að sjá og skilja að við höfum gert mistök er ekki heldur öllum gefið.

Það er alltaf auðveldara að fyrirgefa þeim sem biðja um fyrirgefningu og sýna iðrun en getum við eða þurfum við að fyrirgefa þeim sem hafa brotið á okkur en ekki beðið okkur fyrirgefningar?  Það þarf sterk bein, ákveðið sjálfsöryggi og sjálfsþekkingu til að geta það.  Þegar þú fyrirgefur þá kyngir þú stolti, þú gerir þig auðsærðari og opnari fyrir fleiri brotum.  En það er þess virði að reyna og ástæðurnar eru tvær:  Önnur er sú að ef við fyrirgefum ekki er stór hætta á því að við koðnum niður og festumst í viðjum biturleika og haturs.  Til eru allt of margar manneskjur sem eru bitrar og reiðar út í allt og alla.  Manneskjur sem ekki finna þann innri styrk sem þarf til þess að geta fyrirgefið þeim sem brotið hafa á þeim og ekki beðið um fyrirgefningu.  Hin ástæðan er sú að Guð vill að við fyrirgefum.  Jesús segir í Guðspjalli dagsins og á fleiri stöðum í Nýja testamentinu að ef þú fyrirgefur þeim sem hafa brotið gegn þér þá mun hann á sama hátt fyrirgefa þér þínar misgjörðir.  Og öll þurfum við á fyrirgefningu Guðs að halda.  Við búum öll í glerhúsum.

Ég minntist á það hér áðan að fyrirgefning er kannski ekki það sem er efst í huga margra Íslendinga í dag.  Margir eru reiðir, vonsviknir, fullir sektarkennd, vonleysi og skömm.  Íslenska þjóðin er stolt og við erum alin upp við það að við eigum að geta bjargað okkur sjálf og ekki vera upp á aðra komin.  Þetta eru nokkur einkenni þeirrar einstaklingshyggju sem einkennir stóran hluta okkar Íslendinga.  En er ekki kominn tími til að við förum að treysta á hvert annað, kyngja stoltinu og viðurkenna að við þurfum á hvert öðru að halda, að við erum sterkari sem hópur en sem einstaklingur?  Allt sem tengist skorti á peningum, skuldum og vanskilum er hlaðið skömm.  Það er skammarlegt að vera ekki með há laun og hafa ekki efni á flottri hönnun og stórum jeppum.  En þetta er náttúrulega hin mesta vitleysa!  Og kannski lærum við það núna, í þessum erfiðleikum okkar.  Öllum breytingum fylgja ný tækifæri og nú ríður á að nýta þær breytingar sem við stöndum frammi fyrir til góðs. 

Við Íslendingar eru svo sem  ekki óvön erfiðleikum en við höfum ekki mikla reynslu, sem þjóð, af erfiðleikum af mannavöldum.  Við erum vanari því að takast á við náttúruhamfarir og erfiðleika tengda þeim.  Það eru aðrar tilfinningar sem koma fram þegar okkur finnst erfiðleikarnir og hryllingurinn vera einhverjum að kenna, manneskjum en þegar hörmungarnar orsakast af einhverju sem við ráðum ekki við.  Því er mikilvægt að muna að öll erum við breysk, að öll getum við gert mistök, að öll þurfum við að líta í eigin barm áður en við dæmum.  Hjálpum frekar hvert öðru að fyrirgefa svo við endum ekki kengbogin af reiði og biturleika.

Guð er tilbúinn að strika út misgjörðir okkar, að gefa okkur upp skuldina við hann.  Reynum að setja okkur í spor annarra og fyrirgefa náunganum á sama hátt.