Fast undir fótum

Fast undir fótum

Ég játa það að ég hef átt þær stundir að ég veit ekki hvað ég á að gera við svona sögur, eins og þá sem er guðspjall þessa dags. Þó veit ég vel að stormana þekkjum við vel flest, áföllin, ágjafirnar, andviðrið og óttann. Það þekkjum við allt of vel.

Tafarlaust knúði Jesús lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um meðan hann sendi fólkið brott. Og er hann hafði látið fólkið fara gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið var hann þar einn. En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum því að vindur var á móti.

En er langt var liðið nætur kom Jesús til þeirra, gangandi á vatninu. Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu varð þeim bilt við. Þeir sögðu: „Þetta er vofa,“ og æptu af hræðslu.

En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.“

Pétur svaraði honum: „Ef það ert þú, Drottinn, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.“

Jesús svaraði: „Kom þú!“ Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. En er hann sá ofviðrið varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: „Drottinn, bjarga þú mér!“

Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: „Trúlitli maður, hví efaðist þú?“

Þeir stigu í bátinn og þá lægði vindinn. En þeir sem í bátnum voru féllu fram fyrir honum og sögðu: „Sannarlega ert þú sonur Guðs.“ Matt 14.22-33

Ég þakka elskulegar móttökur hér í Hjallasókn, samskipti við ykkar framúrskarandi presta, starfsfólk kirkjunnar og safnaðarfólk á öllum aldri, og þakka fyrir að fá að eiga þessa helgu stund með ykkur. Ég þakka allt sem gert er til að prýða messuna með fögrum söng og tónlist, alúð og umhyggju. Guð launi og blessi allt það góða starf og þjónustu sem hér er innt af hendi í þágu Guðs kristni. Blessun hans sé yfir og allt um kring, og varðveiti kirkjuna, heimilin og sérhvert hús og hjarta.

Ég játa það að ég hef átt þær stundir að ég veit ekki hvað ég á að gera við svona sögur, eins og þá sem er guðspjall þessa dags. Þó veit ég vel að stormana þekkjum við vel flest, áföllin, ágjafirnar, andviðrið og óttann. Það þekkjum við allt of vel. Og kraftaverk gerast. Lífið er samfellt undur og ýmsir þeir atburðir verða sem engin skýring er á. Tilviljanir og furður hverskonar eru við fótmál hvert. Kraftaverk kallast það á máli trúarinnar, af því að hún sér það sem vísbendingu um kraft, um mátt hins ósýnilega Guðs. Og andspænis tilviljunum lífsins segir trúin: Tilviljun er þegar Guð vinnur kraftaverk sín í kyrrþey! Ekki svo að skilja að trúin viti svör við öllu og eigi við öllu ráð. Nei, en trúin er traust til þess máttar sem veit og megnar að gefa svör þeim sem leitar, biður, knýr á.

Þeir þarna á bátnum forðum lifðu atburð sem þeir skynjuðu að var ekkert nema kraftaverk. Pétur upplifði atvik sem ekki á sér neina skýringu aðra. Þeir færðu þessa frásögn í letur þegar þeir höfðu reynt og séð krossinn og upprisuna, að þessi Jesús gekk í dauðann og reis af gröf og lifir, sem sýndi að miskunnsemin, kærleikurinn, fyrirgefningin sem hann var og auðsýndi, var sterkari en öfl syndar, dauða, haturs og heljar. Og þess vegna var frásögnin færð í letur og er rifjuð upp sem vitnisburður um mátt sem er enn að verki, um kraft sem enn er virkur í heiminum okkar.

Í huga og reynsluheimi samtíma Jesú var vatnið, sjórinn, tákn eyðingar og dauða. En líka tákn lífsins, því án vatns visnar allt og deyr. Það vissu þeir ofur vel, búnandi í þurruviðrasömu landi, þar sem eyðimörkin er á næsta leiti. Bátsferðin sem guðspjallið segir frá verður í hugum þeirra og minningu eitthvað sem minnti á för forfeðra þeirra og –mæðra yfir Rauðahafið. Og hún verður líka eins og mynd af Golgata og gröfinni á páskadagsmorgni. Gegnum óþolandi aðstæður, dauðans háska og hörmungar, laukst upp leið, fær leið til lífs og framtíðar. Þegar barn er borið til skírnar og vatni ausið, þá er það einmitt vísan til sömu reynslu, bylgjur dauðans viku fyrir öðrum mætti og sterkari. Jesús Kristur heitir hann, frelsari heimsins. Guðspjallið, já og öll tilvera kirkjunnar er vitnisburður um hann. Hönd hans er að verki í dag, það fullyrðir kirkjan. Og sú hönd er mild og sterk.

Kraftaverk gerast. En við þekkjum líka sögur, og vitum af þeim tilvikum þar sem kraftaverkin urðu ekki, engin rödd hastaði á bylgjurnar og storminn, engin hönd reyndist megna að bjarga. Oft varð það til þess að bænin þagnaði, trúin visnaði og dó. En við höfum líka séð hvernig trúin reis upp einmitt í slíkum vonlausum aðstæðum, og vann sína stærstu sigra, hjá raunabörnunum, hjá þeim sem okkur fannst bíða ósigur, verða undir ofurefli örlaganna.

Ég sá eftirtektarverð orð höfð eftir Ásmundi Sveinssyni, myndhöggvara. Listamaðurinn segir: „Stundum hefur mér jafnvel dottið í hug að guð sé baráttan. Slagkrafturinn. Og þroskinn sem fylgir átakinu.“ Svo mörg voru þau orð. Merking orðsins „almáttugur“ í trúarjátningu okkar, er reyndar ekki sá sem getur allt. Heldur sá sem stendur fremst í baráttunni og leiðir til sigurs. Sú mynd blasir við í Jesú frá Nasaret. Hann tekst á við ógnina og skelfinguna í mannheimi, hann tekst á við syndina og dauðann. Þar kom að hann laut í lægra haldi og öll hjálp virtist úti, mannlega séð. En páskasigurinn hans leiddi í ljós sigur sem um síðir mun birtast öllum. En tími baráttunnar er ekki liðinn.

Engin kraftaverk, engar „sannanir“ megna að sannfæra um tilvist Guðs og mátt hans. Nema kraftaverkið, undrið sem æðst er í tilverunni: kærleikurinn, umhyggjan, ástin, í baráttu hversdagsins.

Sagan um Pétur á vatninu fjallar um það undur.

Hún segir ekki að Pétur hafi ímyndað sér, að hann þrátt fyrir allt sem skynsemi og reynsla segir gæti gengið á vatninu. Það væri sjálfsblekking. Margur lifir við sjálfsblekkingar af ýmsum toga. Nei, það er annað. Það er raunveruleikinn sem Pétur fær að horfast í augu við. Raunveruleiki trúarinnar, eða öllu heldur, raunveruleiki Krists, kærleikans eilífa.

Þannig hygg ég að við höfum nú æði mörg reynt kraftaverkið sem Pétur reyndi. Og þó hefur ekkert okkar gengið á vatni, og eigum það tæpast eftir. En okkur er haldið uppi, við lifum, finnum og sjáum og eigum samfélag við aðra, sem halda okkur uppi í óbærilegum aðstæðum. En eins og hjá Pétri þá er óttinn og efinn á næsta leyti og kippir undan okkur fótunum þegar síst varir, þegar við förum að velta okkur upp úr því sem gæti gerst, hörmungarnar, áföllin sem gætu komið yfir okkur. Og við sökkvum.

Áföllin og hörmungarnar eru ekki tál heldur yfirleitt alltof raunveruleg. Hyldýpið er raunverulegt. En festum athyglina við það sem hugsanlega gæti gerst, þá sökkvum við. Og alveg eins ef við teljum okkur sjálf ráða - að við höfum sjálf stjórn á öllum aðstæðum, eins og td að trú okkar muni bera, okkar eigin máttur og styrkur. Nei, það dugar skammt. Guðspjallið kennir okkur að horfa til Krists því hann er einmitt þarna, þar sem þú ert, og réttir út hönd sína. Að trúa og biðja er að halda fast í þá hönd, að leyfa Drottni að bera sig gegnum storminn, yfir bylgjurnar. Horfum ekki á öldurótið og hlustum ekki á veðragnýinn, horfum til frelsarans og trúum á hann! Ekki er neitt fastar undir fótum en það, að vera hjá honum, finna handtakið hans, vera borinn á örmum hans. Það er hugrekki trúarinnar. Ekki að geta sjálfur, heldur að vera borinn, leiddur.

Besta og fegursta myndin af því hvað það er að trúa er reyndar það þegar barn er skírt. Við eigum það sameiginlegt flest að hafa verið á ævimorgni borin til skírnar. Fáar stundir eru hærri og yndislegri. Gleðin, vonin, kærleikurinn, vitnisburður um undur lífsins og kraftaverk og samhengi og samhug umhyggju og ástar. Orðið eilífa hljómar og nafnið er nefnt og tengt nafni Drottins, skaparans, frelsarans, andans heilaga. Skvampið í skírnarvatninu sem innsiglar sáttmála Guðs við ómálga, ósjálfbjarga barnið minnir á lífsins haf. Blítt lætur báran við kinnunginn þegar gæfan brosir við. En á augabragði getur hún snúist, umhverfst, hún æðir, hvín og slær heljarhrammi. Og vissulega er það hið eina sem við vitum með vissu um ókominn dag að bylgjan sú mun rísa og slá og deyða. Orð og atferli skírnarinnar tekur utan um gleðina og gæfuna, og kvíða, harm og neyð, og signir það og lyftir inn í nýtt samhengi. Jesús er það samhengi og gefur það sem ber uppi gegnum allt sem skelfir og deyðir. Jesús Kristur, frelsarinn krossfesti og upprisni.

Þegar nafnið þitt var nefnt og dropar skírnarvatnsins féllu á höfuð þitt í nafni föður, sonar og heilags anda sagði Drottinn við þig: „Óttastu ekki, ég frelsa þig, ég kalla á þig með nafni, þú ert minn! Gangir þú gegnum vötnin, þá er ég með þér, gegnum vatnsföllin, þá skulu þau ekki flæða yfir þig…“ Við megum vita og treysta að þetta er sama rödd, sami mátturinn og forðum lægði öldurnar og hastaði á storminn. Jesús Kristur.

Kirkjan, iðkun hennar og athöfn er sendiför hans með orð hans og návist og hjálparhönd sem tekur utan um veiku og vanmegna trúna mína og þína, fyrirvara, hik og efa. Og kemur upp að hlið okkar á ögurstundum ævinnar og leggur okkur til atferli og iðkun og leggur orð á tungu sem líkna, lækna og leysa. Og hvetja eins og þeir Páll og Sílas forðum og við heyrðum í lexíunni: „Trú þú á Drottin Jesú og þú munt verða hólpinn og heimili þitt.“

Mættum við öll eiga þá trú sem treystir eilífri forsjón þess Drottins sem aldrei bregst, þess máttar sem -eins og við sungum áðan - „bylgjur getur bundið og bugað stormaher, sem fótstig getur fundið sem fær sé handa þér.“