Biblíusýning í Seltjarnarneskirkju í tilefni 50 ára afmælis sóknarinnar

Biblíusýning í Seltjarnarneskirkju í tilefni 50 ára afmælis sóknarinnar

Það er okkur sómi að kirkjan skuli vilja sýna þetta safn af Biblíum í tilefni af afmælinu.
fullname - andlitsmynd Ólafur Sigurðsson
06. október 2024

Opnun Biblíusýningar í Seltjarnarneskirkju

6. október 2024

Í tilefni af 50 ára afmæli safnaðarins

Ávarp Ólafs Sigurðssonar

Ég vil byrja á því að óska Seltjarnarnessöfnuði til hamingju með þessi 50 ár.

Og einnig óska þeim til hamingju með það þróttmikla starf sem hér fer fram.

Það er okkur sómi að kirkjan skuli vilja sýna þetta safn af Biblíum í tilefni af afmælinu.  Þá vil ég einnig óska söfnuðinum til hamingju með að hafa innan sinna vébanda mann, sem hefur verið okkur stoð og stytta í undirbúningi Biblíusýningarinnar, bæði í Skálholti og hér. Hann er Ólafur Egilsson sendiherra og kann ég honum mínar bestu þakkir.

Árangur kirkjulegs uppeldis

Upphaf Biblíusafns foreldra minna, Sigurðar Pálssonar prests í Hraungerði og Stefaníu Gissurardóttur, má vafalaust rekja til uppeldisára þeirra beggja.

Þegar faðir minn fæddist var móðir hans alvarlega veik eftir fæðinguna. Hann var tvíburi og varð það úr að hann færi í fóstur til afa síns og konu hans sem var ljósmóðir. Hún dó ári seinna, en Sigurður Brandsson afi hans ól hann upp til tíu ára aldurs, ásamt ráðskonu sinni, Ingveldi Hróðmundsdóttur. Þar undi hann sér vel og var mjög kært með honum og þeim báðum.

Hann hlaut trúarlegt uppeldi, auk þess sem séra Árni Þórarinsson var heimilisvinur og hafði mikil áhrif á drenginn. Og afi hans var meðhjálpari í kirkjunni á Kolbeinsstöðum.

Það var föður mínum erfitt þegar afi hans dó.  Hann var tíu ára og honum fannst hann vera einskonar tökubarn á heimili foreldra sinna.

Móðir mín hinsvegar fór í fóstur til séra Ólafs Sæmundssonar í Hraungerði tíu ára gömul, þegar  foreldrar hennar veiktust af spönsku veikinni. Þá var  börnum komið fyrir á öðrum heimilum og svo fór að hún ílentist þar.

Þegar kona séra Ólafs missti heilsuna voru dætur prestshjónanna farnar að heiman í skóla og störf. Þá var móðir mín um tvítugt og tók í raun við stjórn umsvifamikils prestsheimilis, þar til séra Ólafur lét af embætti.

Þau höfðu því bæði fengið trúarlegt og kirkjulegt uppeldi. Þetta safn er í öllum skilningi safn þeirra beggja, en ekki föður míns eins.

Eignaðist Viðeyjarbiblíu 17 ára

Fyrsta Biblían sem er merkt föður mínum er með ártalinu 1918 þegar hann var 17 ára. Það er Viðeyjarbiblía, fyrsta Biblían sem Hið íslenska biblíufélag gaf út.

Fimmtán ár liðu þar til faðir minn hlaut vígslu og tók fjölskylda hans þá höndum saman og gaf honum Guðbrandsbiblíu.

Þau hjón voru ekki bókasafnarar í venjulegum skilningi þess orðs. Þau ráku alla tíð stórt heimili, með iðulausum gestagangi. Prestslaun stóðu ekki undir því að fjárfesta í dýrum bókum.

Í rauninni söfnuðust biblíurnar að þeim og það sama mátti segja um aðrar guðsorðabækur. Til dæmis var straumur af gröllurum, gömlu messusöngbókinni (Graduale), sem faðir minn miðlaði til annarra presta, þannig að hann átti engan grallara þegar hann lést.

 Ljót Biblía og sóðaleg

Ég get nefnt dæmi um hvernig þau eignuðust eina Biblíu.  Bóndi úr sveitinni kom í heimsókn. Hann hafði með sér gamla Biblíu, illa haldna og lausa í bandi. Dóttir hans sagði að hún væri ljót og sóðaleg og auk þess með letri sem enginn skildi og vildi henda henni. Hann spurði hvort faðir minn myndi ekki geta fundið bókinni stað. Þetta var Vajsenhúsbiblía, fjórða Biblía sem prentuð var á Íslensku.

Núna, rúmlega sjötíu árum seinna, er þessi bók hvorki ljót né sóðaleg.

Það stafar af því að kunnur bókasafnari, Eyþór Guðmundsson, sá bókin

og bauðst til að gera hana upp, fyrir einskæra ást sína á gömlum bókum.

Hann hefur líka lánað okkur Nýja testamenti sem var sérprentað með Hendersonsbiblíunni. 

 Eitt af leiðarmerkjum íslenskra bókmennta

Það var upp úr 1530 sem Oddur Gottskálksson byrjaði að þýða Nýja testamentið í fjósinu í Skálholti. Hann fór með handritið til Kaupmannahafnar og lét prenta það 1540. Það er elsta prentaða bók sem varðveist hefur á Íslensku.

Því miður erum við ekki svo vel stödd að eiga eitt af þeim fjórum eintökum sem til eru. Hér á sýningunni eru hinsvegar eintök af ljósprentun, sem Sigurður Nordal sá um í Kaupmannahöfn fyrir 91 ári. Í formála sagði hann:  “Nýja testament Odds má hiklaust telja eitt af leiðarmerkjum í sögu íslenskra bókmennta. Þýðandinn hefur ekki aðeins haft fram að leggja gáfur og lærdóm til verksins, heldur líka einlæga trú og hreint hjarta”.

Þessa þýðingu notaði Guðbrandur Þorláksson biskup nær óbreytta í Biblíunni sem kennd er við hann og kom út 1584.  Til eru þeir sem segja að þýðing og útgáfa Guðbrandsbiblíu sé eitt mesta afreksverk Íslandssögunnar.

 400 ára minning

Segja má að við systkin höfum fengið áhuga á Biblíum í vöggugjöf.

Árið 1940 vildu þrír menn minnast þess að 400 ár voru liðin frá útgáfu Nýja testamentis Odds. Þeir gáfu út sýnisbók um það með textum með latnesku letri.  Þeir voru Jóhannes Sigurðsson prentari, Hafsteinn Guðmundsson, kenndur við Hóla, sem sá um útlit og séra Sigurður faðir minn sem sá um texta og skrifaði eftirmála. Þetta var merkilegt framtak á sérstökum tímum. Úfgáfudagur var tíu dögum eftir að Bretar hernámu Ísland. Til setja þetta í nánara samhengi við þjóðlífið, þá gerðist þetta ári eftir að vegur var lagður yfir Holtavörðuheiði og bílfært varð norður í land og þá tók í það minnsta einn og hálfan tíma að aka austur á Selfoss.

 Biblíurnar eru verðmæti, en ekki fjármunir

Þegar foreldrar okkar voru látin 1989 ákváðum við systkinin sameiginlega að líta ekki á Biblíurnar sem fjármuni, heldur sem verðmæti, bæði trúarleg og menningarleg. Ákvörðun þessi er óbreytt þó að okkur hafi fækkað.

Núna erum við tvö eftir á lífi, Ingveldur og ég, en látin eru Páll, Ingibjörg, Sigurður, Gissur og Agata Sesselja.

Við ákváðum að halda þeim saman og ráðstafa síðar til verðugrar stofnunar. Í ljós kom að þær voru til hjá helstu stofnunum og úr varð að bíða og sjá til.

 Að lífga upp á Skálholtsstað

Í 25 ár voru þær í geymslu hjá Páli, elsta bróður okkar, sem bjó á Látraströnd hér á Nesinu, svo sem 300 metra fjarlægð frá kirkjunni. Hann var mikill kirkjumaður og söng í kirkjukórnum hér í fjölda ára.  Það hefði glatt hann að vita af Biblíunum hér.

Tíminn leið og það varð okkur ljósara með degi hverjum, að þessar merku minjar voru hvergi aðgengilegar fyrir almenning. Þær voru læstar inni í hvelfingum safna og skápum safnara.

Fyrir nokkrum árum rann okkur til rifja ástandið á Skálholtsstað. Kyrrstaða eða samdráttur var þar á öllum sviðum. Við ákváðum að lífga þar upp á lífið  með því að setja upp sýningu á Biblíunum í Þorláksbúð. Þar var sýningin opin í tæpt ár.

Sýningin gekk vel, en ekki var hægt að halda henni áfram, Skálholtsstaður gaf okkur tölur um komur fólks á staðinn, sem reyndust vera hugarórar.

Krefjandi að takast á við prentlistina

Upphafsorð í bókinni Saga prentlistar á Íslandi eru:

“Það ber sennilega ekkert meiri vott um menningarlöngun og andlegan þroska Íslendinga en það, hve fljótt þeir sáu og skildu nytsemi prentlistarinnar og færðu sér hana í nyt.”

Þetta skrifaði Klemens Jónsson 1930. Það er kjarni málsins að þessir ágætu forfeður okkar höfðu andlegan þroska og víðsýni til að skilja þá byltingu, sem prentlistin fól í sér.  Og árið 1530 var Jón Arason komin með prentsmiðju norður í Húnavatnssýslu.

Hugsið ykkur vandamálin sem menn þurftu að sigrast á.

Til að kynnast prentlistinni þurfti að fara til Þýskalands og að “skreppa” þangað tók eitt ár.

Síðan þurfti að kaupa prentpressu og letur. Til viðbótar þurfti að búa til nýja stafi, því að íslenska stafrófið var flóknara en annað norrænt.

Þá þurfti að senda menn til útlanda til að læra prent.

Það þurfti að kaupa pappír og flytja í hálf-opnum skipum yfir Norður Atlantshafið, engin bryggja var í landinu og löndun var með árabátum og vaðið með vörur síðasta spottann upp í fjöruborðið. Síðan að hengja pappírinn á klifbera á hestum og koma honum heim til Hóla.

Og hugsið um það - án þess að hann blotnaði.  Ekkert plast var til.

Síðan þurfti að binda inn og afla mikils af skinni, sem var vandamál af því að sauðskinn er ekki nógu sterkt.

Þegar þetta var svo allt búið þurfti að dreifa Biblíunni um allt land, aftur án þess að blotna.

Í beinu framhaldi tók við að kenna fleirum að lesa, til viðbótar þeim sem áður kunnu að lesa handrit og handskrifaðar guðsorðabækur.

Á hvaða leið er íslensk menning?

Nú er svo komið á Íslandi að illa gengur að kenna lestur og skilning á lesmáli. Íslandssaga, landafræði og kristnifræði eru ekki kennd í grunnskólum lengur.

Ég er ekki viss um að vel gangi að kenna að skrifa og nota margföldunar-töfluna.

Þessi vandamál ná alla leið upp í háskóla, þar sem kennarar segja að margir nemendur skilji illa lesmál og geti ekki tjáð sig skriflega.

Hvers lags þjóðmenning er það, sem sleppir undirstöðunni?

Hús reist á sandi fellur, eins og segir í Matteusarguðspjalli (7:26-27).

Jurt án rótar visnar.

Þjóð án sögu leysist upp.

Breski rithöfundurinn og hugsuðurinn George Orwell komst svo að orði: “Fljótlegasta leið til að tortíma þjóð er að svipta hana sögu sinni.”

Við eigum ekki að þekkja fortíðina til að apa eftir henni, heldur til að skilja hvert hún hefur skilað okkur.

Við þurfum að skilja hver við erum til að geta glaðst yfir því að vera Íslendingar.  Ef núna er minnst á ættjarðarást hnussar í mönnum.

Nema að sjálfsögðu þegar Íslendingum gengur vel í boltaleik. Þá er þess krafist að menn gefi þjóðerniskennd lausan tauminn.

 Orðsins þjóð

Sannleikurinn er sá að við Íslendingar erum þjóð orðsins. „Í upphafi var Orðið“ segir í Jóhannesarguðspjalli (1:1) og af því er dreginn málshátturinn að orð eru til alls fyrst.

Ef fólk ekki nær tökum á tungumálinu, eru því allar bjargir bannaðar, af því að við hugsum í orðum. Ef fólk hefur aldrei lesið ástarsögu kann það ekki orðin um ástina og skilur ekki þessa sérstöku tilfinningu sem henni fylgir.

Sama er að segja um sorgina. Sálusorgarar segja mér að ef menn kunna ekki orðin til að hugsa um sorgina hvíli hún á þeim sem andlegt farg, sem gengur illa að losna undan.

Við erum svo mikið orðsins fólk að við byggðum engin varanleg hús eða mannvirki fyrr en um aldamótin 1900.  Það lítið sem til er af slíku var allt gert af Dönum.

Það er vissulega athyglisvert að það var ekki fyrr en um aldamótin nítján hundruð sem hjólið barst til Íslands, sem hjólbörur og hestvagnar.

En við getum samt verið stolt af fortíð okkar. 

 Þjóðin bjó sér sjálf til stjórnkerfi

Um aldamótin 900 fluttu 30 til 40 þúsund manns til óbyggðs lands og settust að án þess að til bardaga kæmi um landið og gæði þess.

Við stofnuðum Alþingi, fyrir tólf hundrað árum, án þess að einhver kóngur mælti svo fyrir. Fólkið í landinu gerði það.

Við skiptum um trúarbrögð með pólitískri ákvörðun, án umtalsverðra vandræða, af því að þjóðin vildi verða kristin.

Þjóðveldið stóð í rúm þrjú hundruð ár þar til á Sturlungaöld, þegar framkvæmdavaldið og peningavaldið tóku yfir og kölluðu á íhlutun erlendra valdsmanna.

Það er sögulega séð æði góð ending á stjórnmálakerfi. Berið það saman við kommúnisma og nasisma/fasisma tuttugustu aldar.

Við skrifuðum einu bókmenntirnar sem skrifaðar voru á eigin þjóðtungu í Evrópu á þeim tíma. Aðrir skrifuðu á latínu, tungu fræðimanna.

Okkur tókst að lifa af drepsóttir, harðindi og einhver ofboðslegustu eldgos sögunnar

Það var engin tilviljun að við urðum meðal fyrstu þjóða til að hefja biblíuþýðingar. Það er rökrétt framhald af Söguöldinni.

Það er engin tilviljun að heill hópur af íslenskum rithöfundum er að hasla sér völl erlendis, ekki síst höfundar spennusagna.

Það er engin tilviljun að við skrifum hlutfallslega meira af ljóðum og öðrum bókmenntum en aðrar þjóðir.

En til að þetta geti haldið áfram verðum við að læra að lesa, og skrifa

og líka að læra margföldunartöfluna.

 Taka framförum í kristilegu hugarfari og líferni

Við höfum meira en þrefalt fleira fólk í því að kenna íþróttir en meðal þjóð í Evrópu og sú þjóð sem kemst okkur næst er hálfdrættingur við okkur.  Það vita allir að það þarf þjálfun til að standa sig í golfi eða kúluvarpi, handbolta eða sundi.  Æfingin skapar meistarann.

En á sama tíma gengur okkur illa að kenna ungmennum að lesa og skrifa, sem líka útheimtir þjálfun.

Við ættum ef til vill að huga meira að því, að við þurfum líka þjálfun í að vera almennilegt fólk, eða eins og segir í kirkjubæninni

“…að taka framförum í kristilegu hugarfari og líferni.“  

Með öðrum orðum því sem nú er kallað hinar fornu dygðir, sem eru ekkert annað en kenningar kristninnar um kærleika, jafnrétti, sannleiksást,  sannsögli, hjálpsemi og fyrirgefningu. Loks er ekki farið fram á neitt smáræði, þegar kristnum mönnum er falið að fyrirgefa misgerðir og elska óvini sína.  Samt lifa þessar kenningar í hugskoti margra Íslendinga, þó að þeir viti oft ekki hvaðan þær koma.

Sýning á fornum Biblíum leysir ekki vandann, en vonandi getur hún opnað glufu í einhverri sál sem hugsi:

Fyrst þeir gátu þetta við aðstæður á Miðöldum, þá hlýt ég að geta meira, með allri þeirri tækni sem ég ræð yfir.