Í sálmabók íslensku þjóðkirkjunnar sem út kom árið sem Sigurbjörn Einarsson varð níræður, árið 2001, eru rúmlega fimmtíu sálmar sem hann hefur ýmist þýtt eða frumort. Þetta eru álíka margir sálmar og eru í sálmabókinni eftir Matthías Jochumsson.
Æskukveðskapur
Á æskuárum sínum fékkst Sigurbjörn dálítið við skáldskap eins og fram kemur í ævisögu hans sem Sigurður A. Magnússon ritaði og kom út árið 1988. Hann birti t.d. ljóð í tímaritinu Jörð og annað um svipað leyti eða 1931 í Skólablaði Menntaskólans í Reykjavík; það byrjar svona: „Mér finnst það vera heldur lítið hnoss / í himnaríki að klæðast rykkilíni“. Ég fer ekki lengra með þetta – enda hefur mér verið falið að tala hér um sálmaskáldið Sigurbjörn Einarsson. Samkvæmt ævisögunni var það einkum endurskoðun sálmabókarinnar 1972 sem varð til þess að Sigurbjörn fór að yrkja sálma en þá hafi hann fyrir löngu verið búinn að segja skilið við skáldskapardísina. Það er alla vega ljóst að samband hans við þá góðu dís hefur borið mikinn ávöxt á síðustu áratugum því að afraksturinn er meiri en ég held að margur geri sér grein fyrir. Ég tek strax fram að ég geri hér vísvitandi ekki skýran greinarmun milli þess sem Sigurbjörn hefur þýtt og frumort þar sem ég er viss um að þýddu sálmarnir tala einnig sínu máli um viðhorf hans og vinnubrögð. Hefð, saga, trúararfur
Það sem vekur athygli við þýðingar Sigurbjörns er að sálmabókin 1589 kemur þar oft við sögu en oft má rekja textann enn lengra aftur, t.d. til Ambrósíusar (um 340–397) kirkjuföður eða til Prudentíusar (348–413) sem báðir voru uppi á fjórðu öld. Á því má sjá hvað hefðin er sterk í sálmum Sigurbjörns; arfur kirkjunnar. En það eru ekki aðeins fornir sálmar sem Sigurbjörn hefur endurnýjað; hann hefur þýtt sautjándu aldar skáldin Paul Gerhardt og Petter Dass, ensk nítjándu aldar sálmaskáld (Kingsley 346 og How 374), sálma eftir samtímamenn á Norðurlöndunum; sænska prestinn Anders Frostenson (f. 1906) og sænska biskupinn Bengt Jonzon (1888–1967), norska sálmaskáldið og myndlistarmanninn Svein Ellingsen (f. 1929) og færeyskan prófast að nafni F. Petersen (1853–1917) (415). Einnig sálma eftir tvær konur: Sigrid Dahlqvist (1889–1966) sem var sænskur rithöfundur (306) og Linu Sandell-Berg (1832–1903) en hún er talin mesta sálmaskáld sænsku vakningahreyfingarinnar.
Sú allra sætasta sönglist
Formáli Guðbrands biskups að sálmabókinni 1589 kom upp í huga minn þegar ég var að undirbúa þetta litla erindi og gera það sem maður annars gerir ekki eða sjaldan: fletta sálmabókinni og lesa sálma í hljóði. Guðbrandur segir í formálanum að Guðs orð sé vissulega í sjálfu sér „sú allra sætasta sönglist“ en þó hljóti öll sanngjörn hjörtu að játa það og meðkenna að þegar saman fer „mjúk málsnilld orðanna, fagurlegt lag og sæt hljóðagrein“ þá fái sá söngur nýjan kraft og gangi „djúpara til hjartans“ og hræri það og uppveki til Guðs. Guðbrandur á sem sagt við að orðalagið, bragurinn og lagið skipti allt máli og hafi áhrif á það hvernig sálmur virkar. Enda tók ég eftir því þegar ég las sálma Sigurbjörns að í þeim tilfellum sem ég þekkti lögin þá hljómuðu þau með í huganum og ég gerði mér grein fyrir því hvað mörg falleg lög eru til við sálma hans og hvað tónlistin skiptir miklu máli þótt ég ætli ekki að ræða um hana hér.
Bragur og stíll
Sálmar Sigurbjörns Einarssonar eru á einföldu og fallegu máli. Hann kemur hugsun sinni til skila í setningum sem eru eðlilegar, blátt áfram, oft nálægt talmáli. Þar sjást engin frávik frá reglum um stuðlasetningu eða rím, engin skáldaleyfi eða eitthvað sem sleppur fyrir horn. Eitt skemmtilegt einkenni er þegar hann stuðlar h á móti hv sem gengur ekki þegar ég ber orðin fram en er algjörlega leyfilegt þeim sem hafa fallegan skaftfellskan hv-framburð (t.d. 592: Nú hverfur sól í haf / og húmið kemur skjótt).
Opinn faðmur
Náttúran birtist í sálmum Sigurbjörns í formi birtu, blóma, jafnvel barna. Það er ekki fjarlæg náttúra heldur sú sem borgarbörn þekkja af eigin raun. Í þýðingu hans á sálmi eftir Frostensen segir: „Í dagsins iðu, götunnar glaumi, greinum vér þig með ljós þitt og frið“. Þessi sálmur hefst á orðunum: Þú mikli Guð ert með oss á jörðu, miskunn þín nær en geisli á kinn. Eitt af því sem einkennir sálma Sigurbjörns er einmitt nálægð; nálægð milli mín og/eða þín og Krists. Efni þeirra er oft einfaldlega: Kristur er hér og hann mætir þér og það er gleðiefni. Sá sem er ávarpaður í sálmunum getur verið hver sem er: gömul kona sem kemur í kirkju á hverjum sunnudegi eða einhver sem rakst hér inn fyrir tilviljun í þetta eina sinn, það getur verið bankastjóri eða fermingarbarn, það skiptir ekki máli því hér er höfðað til hins innra manns, til hjartans. Sá sem er kominn til kirkju – því að það er þar sem viðkomandi mætir þessum texta/sálminum – er umsvifalaust boðinn opinn og kærlíksríkur faðmur. Athyglisvert er að Sigurbjörn notar mjög oft sömu orðin til að lýsa Kristi: lind, lækning og líf.
Lind, lækning, líf
Mjög dæmigert fyrir þann tón sem ríkir í sálmum Sigurbjörns er sálmur sem á upphaf sitt á fjórtándu öld hjá Johan von Jenstein, erkibiskupi í Prag og kanslara í Bæheimi en hefur farið í meðferð hjá Lúther og kemur svo inn í Sálmabókina 1589: Jesús Kristur, lífsins ljómi (237) en þar er þetta erindi:
Lindin hreina lífsins eina læknir allra heimsins meina, Kristur hár, ég kem til þín, kraftur þinn mig reisi, hjálpin mín.Sálminum lýkur á þessu erindi:
Líknin þín, sem leyst mig hefur, lífið, sem þú nú mér gefur, endurnýi allt hjá mér, að ég verði þinn og líkur þér.Þessi áhersla á innilegt samband manns og Guðs er kannski innsti kjarni trúarinnar og rauður þráður gegnum sögu kristninnar. Erindið leiðir hugann að riti Tómasar frá Aquino Imitatio Christi en enduróm frá því riti er að finna um allan hinn kristna heim í margar aldir. Það hefur verið þýtt á íslensku sem Breytni eftir Kristi og í sálmum Sigurbjörns er einmitt lögð áhersla á að trúin leiðir til nýrrar breytni, nýs lífs eins og fram kemur í þessum orðum: „Í þinni fylgd verði höndin hlý / hugurinn bjartur og tungan ný“. Þetta er úr frumortum sálmi: Kristur sem reistir þitt ríki á jörð (267). Þar kemur fram sterk tilfinning fyrir hefðinni, sögunni og trúararfinum þegar hann segir:
Eilíf er vonin sem yfir oss skín, eilíf þín heilaga kirkja, dýrlegur skarinn sem fyrir fer feðra og votta sem gáfust þér.Tungutak okkar tíma
Sálmar eru bókmenntagrein sem hefur mjög ákveðið form og myndmál og er í eðli sínu hefðbundin. Það er þess vegna ekkert útilokað að forn sálmur, eins og t.d. „Heyr himna smiður“ sem Kolbeinn Tumason (d. 1208) orti, eigi enn erindi mörgum öldum síðar (ekki síst þegar til er einstaklega fallegt lag við hann eins og allir þekkja, eftir Þorkel Sigurbjörnsson). Engu að síður hefur hver kynslóð sitt tungutak, sína heimsmynd og jafnvel þótt hefðin sé sterk í sálmum Sigurbjörns Einarssonar tel ég óhætt að fullyrða að þar heyrum við greinilega tón tuttugustu aldarinnar, tungutak sem stendur okkur nær en sumir gamlir sálmar. Þar greinum við vitund og veruleika sem er dæmigerður fyrir okkar samtíð. Ég held þetta komi ekki síst fram í því hvernig fjarlægð frá Guði, jafnvel heimur án Guðs, er túlkaður sem myrkur og tóm: Mig huldi dimm og döpur nótt / og dauðans broddur nísti / en þú mig fannst [...] (562) eða: Þú heyrir Guð að hrópar / á hjálp þín dimma jörð. / Ó, vek þá von að nýju / sem var að engu gjörð (546).
Nærvera og innileiki
Ég gæti nefnt hér marga fallega sálma eftir Sigurbjörn Einarsson, sálma sem ætlaðir eru til að syngja við ákveðin tækifæri eins og brúðkaup (590), kvöldsálma (592), páskasálma og fleira. En ég ætla aðeins að nefna hér að lokum einstaklega fallegan hvítasunnusálm sem ég held að sé ortur nýlega: Leiftra þú, sól, þér heilsar hvítasunna (724). Ég heyrði hann fluttan við lag Jóns Ásgeirssonar á tónleikum Mótettukórsins í Hallgrímskirkju vorið 2005 og sá flutningur hafði djúp áhrif á mig. Þar sameinaðist helgi kirkjunnar, sólin sem skein inn um gluggana, yndislegur söngur, fallegt lag og texti sem komst þannig til skila á áhrifamikinn og sérstakan hátt. Návist og innileiki er eitt af því sem einkennir kristna dulúð og íhugun, sem á sér órofa hefð innan kirkjunnar, og hennar sér stað í mörgum sálmum Sigurbjörns. Þetta á ekki síst við um þennan hvítasunnusálm þar sem viðlagið er endurtekið. Í fyrsta erindi segir: „eilífur faðir ljóssins skín á þig, / andar nú sinni elsku yfir þig“. Síðasta línan er endurtekin en breytist smám saman og verður: „andar nú sinni elsku inn í þig“ og að lokum er beðið: „anda nú þinni elsku inn í mig“. Ég held að við séum hér komin mjög nálægt þeirri tilbeiðsluhefð sem leggur áherslu á algjöra nálægð og einingu Guðs og manns. Í því felst samt ekki að veita einhverju viðtöku í aðgerðaleysi; þetta er gagnkvæmt samband. Ég talaði um að Sigurbjörn notar oft orðið lind um Krist. Í einum sálmi sínum snýr hann þessu við og talar frá „lind míns hjarta“ og ávarpar Krist með þessum orðum: „allt sem býr í barmi mínum / bera skal vitni þinni náð / svo aftur lýsi elskan bjarta, / endurskin þitt, frá lind míns hjarta“ (52).