Fyrirgefningin – er ekki alltaf svarið

Fyrirgefningin – er ekki alltaf svarið

Fyrirgefningin streymir aðeins í eina átt: frá þeim valdameiri til hins valdaminni. Það er ekki mögulegt frá sjónarhóli Nýja testamentisins að valdaminni einstaklingur fyrirgefi þeim valdameiri. Nema þá valdastaðan milli þeirra breytist.

Skuggi á vegg

Fyrirgefning er fallegt orð og eins þykir fagurt að fyrirgefa í mannlegum samskiptum. Sérstaklega í kristnu samhengi. Ekki er hægt að skýra það með því að svo margir ritningarstaðir í Biblíunni séu tengdir fyrirgefningunni. Þeir tiltölulega fáu fyrirgefningartextar sem finnast í Nýja testamentinu fjalla fyrst og fremst um fyrirgefningu Guðs á syndum manna svo og fyrirgefningu Jesú á því sama. Eftir upprisu Jesú kemur svo fyrir blanda af hvoru tveggja: Fyrirgefningu Guðs miðlað gegnum Jesú. Allir þessir textar eiga það sameiginlegt að það er hinn valdameiri sem fyrirgefur þeim valdaminni.

Í Nýja testamentinu eru Guð og Jesús alltaf yfir synd hafnir. Grísku sagnirnar sem notaðar eru í frumtextanum endurspegla þessa stöðu og vísa til lagalegra og viðskiptalegra tengsla þar sem hinn æðri gefur þeim lægri upp skuld.

Hvað þá með ritningarstaði í Nýja testamentinu þar sem fyrirgefning í mannlegum samskiptum kemur fyrir, eru þeir margir? Ekki er hægt að segja það. Sé allt talið er um að ræða sjö slíka í guðspjöllunum og fjóra í bréfunum. Eitt aðalþemað í þessu sambandi er hvernig fyrirgefning okkar manna tengist fyrirgefningu Guðs. Hvergi sést þetta betur en í bæninni Faðir vor. Matteusarguðspjall orðar þetta þannig: fyrirgef oss vorar skuldir svo sem vér og fyrirgefum vorum skuldunautum, en hjá Lúkasi segir: fyrirgef oss vorar syndir, enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum.

Hvernig ber að skilja þessa bæn? Má skilja það svo að við manneskjur verðum að fyrirgefa hver annarri svo Guð geti fyrirgefið okkur eða betur orðað? Biðjum við Guð að fyrirgefa okkur vegna þess að við fyrirgefum? Hvað ef við fyrirgefum ekki, myndi Guð þá ekki heldur fyrirgefa okkur?

Til að svara þessu skulum við líta á fyrirgefningarlíkanið sjálft. Eins og áður var ýjað að styðst Nýja testamentið við mynd af viðskiptum, t.d. milli landeiganda og leiguliða, þegar rætt er um fyrirgefningu. Þessi mynd hefur síðan verið yfirfærð á andlegan veruleika, á samband Guðs og manna. Þetta er í sjálfu sér mjög kunnuglegt: ekki síst okkur Íslendingum sem mörg erum í djúpu skuldafeni um þessar mundir. Sem skuldunautur er maður í slæmri stöðu gagnvart þeim sem maður skuldar. Eigandi skuldarinnar, bankinn eða lánveitandinn hefur ákveðið vald yfir okkur. Sem skuldunautar getum við ekki gefið bankanum upp eigin skuld: Þvert á móti er það aðeins bankinn, þ.e. hinn valdameiri aðili, sem getur fyrirgefið okkur í merkingunni: gefið okkur upp skuldina. Þessi veruleiki var öllum ljós á dögum Nýja testamentisins: Leiguliðinn gat ekki gefið landeigandanum upp neina skuld. Það var jú hann sjálfur sem var skuldunauturinn. Þess vegna er það Guð sem á máttinn, eilífðina og dýrðina sem er beðinn um að gefa upp skuldir í bæninni Faðir vor. Ekkert eitt orð er sagt um að við eigum að fyrirgefa mönnum sem hafa vald yfir okkur: einungis hinn valdameiri er í aðstöðu til að fyrirgefa skuldunautum sínum. Fyrirgefningin streymir aðeins í eina átt: frá þeim valdameiri til hins valdaminni. Það er ekki mögulegt frá sjónarhóli Nýja testamentisins að valdaminni einstaklingur fyrirgefi þeim valdameiri. Nema þá valdastaðan milli þeirra breytist.

En lítum þá á Jesú og valdastöðu hans. Hún er breytileg innan guðspjallanna. Dæmi um það er þegar Jesús segir við bersyndugu konuna: syndir þínar eru fyrirgefnar (Lúk 7:48) Þá er hann valdamikill. En sú valdastaða var gjörbreytt þegar búið var að negla hann á krossinn. Hinn krossfesti Jesús biður Guð að fyrirgefa þeim sem krossfestu hann. Hann segir ekki: syndir ykkar eru fyrirgefnar, heldur vísar því til hans sem valdið hefur. „Faðir, fyrirgef þeim því að þeir vita ekki hvað þeir gjöra“ (Lúk 23:34) Jesús er ekki í aðstöðu til að fyrirgefa niðurlægður og negldur á kross: Guð einn hefur vald til þess. Við getum hugsað okkur að einmitt hér hefði mátt sjá ákveðin hvörf: Jesús hefði getað breytt hinu ríkjandi fyrirgefningarlíkani sem við sjáum alls staðar í Nýja testamentinu, þ.e. hér hefði hann getað boðað eitthvað nýtt, eins og það að hinir veiku ættu að fyrirgefa hinum sterku. En það gerir hann ekki.

Þetta er það líkan fyrirgefningar sem blasir við okkar í Nýja testamentinu og Jesús breytir því ekki. Við sjáum það einnig á þessum örfáu stöðum í bréfunum þar sem talað eru um fyrirgefningu milli manna. Hún er aðeins möguleg að uppfylltum vissum skilyrðum. Þau eru að sá sem fyrirgefur verði að vera valdameiri eða að hann sé að minnsta kosti jafnoki þess sem fyrirgefninguna á að fá. Páll postuli hvetur til fyrirgefningar í Síðara Korintubréfi en hvergi hvetur hann til þess að valdaminna fólk fyrirgefi þeim valdameiri: Fyrirgefning er einungis möguleg milli jafningja. Er þetta fyrirgefningarlíkan Nýja testamentisins hjálplegt í dag? Það er ekki víst að öllum þyki það en mér finnst það. Sérstaklega held ég að þeir sem vinna með einstaklinga sem brotið hefur verið á, svo sem fórnarlömb ýmis konar ofbeldis, andlegs, líkamlegs og kynferðislegs, geti haft visst gagn af því að styðjast við það.

Valdasjónarmiðið sem kemur fram í því er þrátt fyrir allt alls ekki fjarri okkar veruleika. Öll tengsl okkar við annað fólk eru valdatengsl ef því er að skipta. Það er mikilvægt að sjá það og skilja. Í ofbeldisaðstæðum nær annar aðilinn valdi yfir hinum og í krafti þess valds getur hann beitt hinn aðilann ofbeldi. Að losna undan valdi persónu sem hefur meitt mann og sært er mjög erfitt og tal um fyrirgefningu hjálpar ekki alltaf í þeim aðstæðum. Ef gerandinn viðurkennir hvorki verknað sinn né reynir að bæta fyrir brot sitt ættum við, með stuðningi Nýja testamentisins, að sleppa öllu tali um fyrirgefningu. Þótt fyrirgefningin sé okkur kristnum kær, er hún ekki alltaf svarið.