Jólin eru að gefa og þiggja.

Jólin eru að gefa og þiggja.

Allt það sem á undan fór. Allur undirbúningur. Allt það sem við ætluðum okkur fyrir og um jólahátíðina sameinast á þessari stundu á þessu augnabliki og hefur orðið að því sem ekki er hægt að undirbúa sig fyrir. Hinni óræðu helgi hátíðarinnar. Vikurnar og dagana fyrir jólin horfðum við á hið ytra.
fullname - andlitsmynd Þór Hauksson
24. desember 2009
Flokkar

Prédikun Aðfangadagskvöld 2009 Kl.23.00 „Jólin eru að gefa og þiggja.“

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen

Allt það sem á undan fór. Allur undirbúningur. Allt það sem við ætluðum okkur fyrir og um jólahátíðina sameinast á þessari stundu á þessu augnabliki og hefur orðið að því sem ekki er hægt að undirbúa sig fyrir. Hinni óræðu helgi hátíðarinnar. Vikurnar og dagana fyrir jólin horfðum við á hið ytra. Gera vel við okkur í mat og drykk, senda kveðju í útvarpi til fjölskyldu og vina og eða skrifa jólakort með hlýrri jóla og nýárs kveðju. Undirbúningur þess helgin hefur sótt okkur heim, hún er hér hún er fyrir utan og umlykur allt og hún lyktar vel. Það er hátíð í bæ. Gleðileg jól. Það er ekki hægt að þreifa á henni en hún einungis - er – helgin því við leyfum henni að taka utan um okkur og við hjúfra okkur í henni. Við finnum fyrir henni. Hún getur birst í ýmsum myndum. Sú mynd sem við höfum af henni getur verið margvísleg í huga. En ég held að við getum flest verið sammála um að hún hefur fengið aðgang að okkur hverju og einu þegar kirkjuklukkur landsins hringdu jólahátíðina inn fyrir fáeinum stundum. Það er eins og umhverfið allt í híbýlum og utan við hljóðni og úr verður stillimynd þess sem við hvert og eitt okkar þráum að fá að eiga hlutdeild í, djúpa kyrrð ekki aðeins hið ytra heldur og innra með okkur. Eftirvænting dagana á undan hafa sameinað krafta sína á þessu kvöldi. Helgi og inntak jólanna er kærkomin gestur á tímum þar sem henni er að mestu úthýst. Er við stöndum úti við dyr lífs okkar á jólum sem og öðrum dögum ársins og meinum barninu í okkur inngöngu úthýsum við jólunum. Eins og forðum daga bankar frelsarinn á hjörtu og beiðist inngöngu en fær oftar en ekki það svar eins og ungu hjónin í Betlehem „því miður ekkert pláss hér.“ Skyldi það vera víða þannig í kvöld og næstu daga að ekki er pláss við jólaborðið? Þau voru áhyggjufull ungu hjónin eftir langt ferðalag og komin að því að eiga sitt fyrsta barn og þeim úthýst. Á jólum hugsum við til þeirra sem farnir eru og þeirra sem eru meðal okkar og það á engin að vera einn á jólum, engum vísað frá. Á jólum á að vera fögnuður, fögnuður sá sem englarnir á Betlehemsvöllum boðuðu og sögðu „sjá, ég boða yður mikin fögnuð yður er í dag frelsari fæddur...“ sá fögnuður er aldrei svo lágvær að hann nái ekki eyrum hvers og eins okkar. Sú fregn endurkastaðist ekki fyrst um veggi marmarahalla þar sem hátt er til lofts og vítt til veggja og kvisaðist þaðan út meðal lýðsins heldur var því öfugt farið. Jólin eru í senn trúar og fjölskylduhátíð þar sem allir gera sitt til þess að vera með sínum nánustu en á stundum skilur haf og lönd að en hugur spyr ekki um fjarlægðir eða torveld landamæri heldur kallar á okkur ekki háværri röddu heldur þeim tóni sem við höfum verið kölluð til í þessum helgidómi í kvöld og nóttin helga lúrir rétt handan við og býður okkur velkomin til hvílu með þá frétt að okkur er frelsari fæddur. Fyrir og um jól gerist eitthvað svo jafnvel hin hörðúðugstu hjörtu verða mjúk og meir. Fólk er fúsara en endranær að horfa til náungans og opna dyr sínar upp á gátt, að verða til hjálpar. Hvers vegna um jól erum við svo fús til að opna hjörtu okkar og sinni fyrir helgi þessarar hátíðar? Hvers vegna erum við tilbúin að hlusta á söguna um fæðingu frelsarans? Eða eins og barnið sem sagði stundarhátt í aftanmessu jóla fyrir einhverjum árum síðan -„mamma! ég hef heyrt þessa sögu áður.“ Barnið var óþreyjufullt eftir að komast heim og fá gjafirnar í hendur. Það er skiljanlegt þegar börnin eiga í hlut. Það er rétt við höfum heyrt söguna margoft en erum aftur og aftur tilbúin að hlusta á hana lesna og það er eitthvað sem snertir við okkur, eitthvað sem ýtir við okkur. Þetta eitthvað er einmitt það sem við þráum innst inni að hleypa einfaldleikanum, boðskap jólanna að okkur og meðtaka hann í sálu og sinni. Á jólum leyfum við okkur allt það sem við annars lokum á, á öðrum dögum og tímum. Vegna þessa finnum við til ómótstæðilegrar tilfinningar sem aftur veldur okkur vellíðan. Á jólum er eins og allt fari á annað stig þar sem við leyfum okkur að horfa til baka hugsum til þeirra sem farnir eru og þeirra sem standa okkur nær og fjær. Tilveran umbreytist í það sem við óskum okkur helst í mildilegri framrás tímans þar sem við getum sest niður með bók, jólabland og konfekt og höfum ekki áhyggjur af morgundeginum. Tilveran er ilmandi og flauelsmjúk. Nóttin þegar ljósið kom í heiminn og heimurinn varð ekki samur er nóttin sem framundan er og ljósið skín út um hvern glugga híbýla okkar. Það var dauf skíma í fjárhúsinu sem gerði sig ekki líklega til að vísa og eða lýsa ferðalöngum veg. Gerði það samt þrátt fyrir að aðstæður allar voru í hrópandi mótsögn við það sem átti að verða. Ljósið er það sama því það slokknaði ekki á því þótt viljinn væri þá og er enn í dag að svo færi. Það lýsir okkur enn í dag á ferðalagi okkar um lífsins veg. Í kvöld og á heilagri nóttu sem bíður okkar með opin faðminn gefst okkur tími aldrei sem fyrr að staldra við og hlusta á það sem býr innra með okkur-þrár okkar og væntingar. Þær eru þarna sumar hverjar undir þungum klafa myrkurs og vonleysis gleymdar og fótum troðin en ekki í kvöld og ekki í nótt því það er sem að veröldin öll standi á tánum í viðleytni sinni til að ganga á móts við það sem helg hátíð boðar. Til þess að taka á móti boðskapnum verðum við hvert og eitt að kannast við okkar eigin mennsku að við eigum oftar en ekki erfitt með að viðurkenna fyrir okkur sjálfum og hvað þá fyrir öðrum að við erum eins og ómálga barn í veröld sem snýst oftar en ekki gegn sjálfri sér. Í kvöld aðfangadagskvöld er helg stund í nótt er helg nótt-jólanótt. Við fálmum ekki út í myrkrið og grípum í tómt. Við réttum fram hönd í myrkri og drögum hana að okkur í birtu boðskapar jólanna að „yður er í dag frelsari fæddur“ og það var ekkert verið að pukrast með það í myrkri næturinnar heldur fengu ósköp venjulegir fjárhirðar á Betlehemsvöllum að heyra fyrstir manna og sjá með eigin augum. Á þeim dögum var ekki til eitthvað sem heitir upplýsingalög sem komið var á til þess að gæta þess að almúginn fái að vita hvað er að gerast í bakherbergjum hárra stofnana samfélagsins. Boðskapnum komið á framfæri milliliðalaust ekki farin leið diplomatíu eða prótokolla og þaðan lekið út heldur farið í lægstu lög mannlegrar tilveru og þaðan barst fréttinn frá Betlehemsvöllum. Maður á mann kvisaðist út í hvern afkima hins þekkta heims að „barn er oss fætt“ frétt sem allir gátu meðtekið. Hvítvoðungur lagður í jötu því frelsara heimsins var úthýst af mönnum. Það er freistandi að ætla að það hafi verið vondar manneskjur sem það gerðu en svo var ekki. Frelsara heimsins var nefnilega úthýst þá og oftar en ekki í dag af mér og þér. Kann að vera að við erum búin að heyra söguna aftur og aftur og aftur en erum samt tilbúin að hlusta og meðtaka. Er það vegna þess að við stóðum í dyragættinni og sögðum að það væri ekkert pláss eða vegna þess að innst inni þráum við að eignast þetta ljós í hjarta. Gjafir hátíðarinnar hjá flestum opinberaðar fyrr í kvöld. Hvert og eitt okkar dagana á undan einbeitt í þeirri viðleitni að gleðja okkar nánustu. Sú gleði er fölskvalaus hjá þeim sem gefur og þeim sem tekur á móti. Jólin eru að gefa og jólin eru að þiggja. Jólin fá ekki staðist nema hvorutveggja komi til. Sá sem ekki gefur getur ekki tekið á móti. Okkur er gefin frelsari heimsins. Tökum á móti honum í hjarta og leyfum honum að eiga þar stað – það þarf ekki mikið til eða tilstand aðeins það sem við höfum til að bjóða eða eins og trúðarnir í leikriti Borgarleikhússins - Jesús litla“ sögðu að hann hafi verið lagður í fötu; því þeir höfðu ekki annað að bjóða og sögðu að það hlyti að hafa verðið þýðingarvilla að hann hafi verið lagður í jötu. Jata eða fata hverju skiptir? Nóttin lúrir við í myrkrinu og vakir yfir okkur. Við þurfum ekki að óttast-í kvöld er okkur frelsari fæddur.

Friður Guðs, sem æðri er öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir í Kristi Jesú. Amen