Jón Steinar og fyrirgefningin

Jón Steinar og fyrirgefningin

Við munum öll þegar hann Jón Steinar Gunnlaugsson, sagði að stúlkurnar sem Robert Downey braut á þyrftu bara að fyrirgefa honum, þá myndi þeim líða betur. Jesús segir líka að við eigum að fyrirgefa. Ekki bara sjö sinnum, heldur sjötíu sinnum sjö. Og það má segja að fyrirgefningin sé rauði þráðurinn í gegnum kristna trú, á henni byggjast allar okkar hugmyndir um samband okkar við Guð, Guð fyrirgefur okkur syndir okkar, þess vegna eigum við líka að fyrirgefa öðrum sem brjóta gegn okkur.

Við munum öll þegar hann Jón Steinar Gunnlaugsson, sagði að stúlkurnar sem Robert Downey braut á þyrftu bara að fyrirgefa honum, þá myndi þeim líða betur.
Jesús segir líka að við eigum að fyrirgefa. Ekki bara sjö sinnum, heldur sjötíu sinnum sjö. Og það má segja að fyrirgefningin sé rauði þráðurinn í gegnum kristna trú, á henni byggjast allar okkar hugmyndir um samband okkar við Guð, Guð fyrirgefur okkur syndir okkar, þess vegna eigum við líka að fyrirgefa öðrum sem brjóta gegn okkur.
Er þetta þá nokkuð flókið? Eiga ekki stúlkurnar þá bara að fyrirgefa Robert Downey og málið er dautt? Eigum við þá ekki bara að fyrirgefa þeim sem brjóta gegn okkur þannig að allir geti haldið áfram að lifa í sátt og samlyndi?

Pétur spyr Jesú hversu oft á að fyrirgefa. Hann setur upp reikningsdæmi… En það er ekki bara reikningsdæmi út í loftið. Hann er að vitna í það sem Guð segir í Gamla testamentinu um Kain (sem myrti bróður sinn), Guð boðaði nefnilega þar að Kains yrði hefnt sjöfalt, ef einhver vogaði sér að drepa hann fyrir það sem hann gerði. Og þegar Jesús segir ekki sjö sinnum, heldur sjötíu sinnum sjö, þá er hann að halda þessari hugsun áfram og vísar í að stuttu seinna segir sonur Kains, að hann muni hefna, ekki sjöfalt, heldur sjötíufalt fyrir allt það mótlæti sem hann verður fyrir. Jesús er semsagt að bregðast við því hugarfari hefndar, sem ríkti á tímum gamla testamentisins, auga fyrir auga, og tönn fyrir tönn, og hann er að segja, við eigum að sprengja upp þetta kerfi, við eigum að losa okkur úr þessu hugarfari hefndar, og við eigum að ganga mjög langt í því.

En er þetta þá ekki bara alveg borðleggjandi?

Nei, því að fyrirgefningin er alls ekki einfalt hugtak. Og mér finnst sagan af Jósep útskýra þetta mjög vel.
Jósep er einn af uppáhalds karakterum mínum í Biblíunni. Kannski vegna þess að hann er draumamaður, og ég hef mikinn áhuga á draumum, og það má segja að það séu draumar Jósefs sem koma allri þessari atburðarás af stað. Það er mikilvægt að rifja upp sögu Jósefs til að átta sig á því hvað er að gerast í kaflanum sem við heyrðum lesinn hér áðan. Jósef var í algjöru uppáhaldi hjá pabba sínum, honum Jakob. Hann átti 11 bræður en hann var sá eini sem pabbi hans lét vefa á kápu úr mörgum litum (það er einmitt til söngleikur um kápuna). Og bræður hans öfunduðu hann. Ekki bætti það úr skák að Jósef dreymdi drauma um að sólin og tunglið og 11 stjörnur myndu lúta honum, og að kornbindi bræðranna á akrinum myndu lúta kornbindi hans. Þetta fannst bræðrunum að sjálfsögðu argasti hroki og þeir ákváðu að drepa hann. Þeir guggnuðu reyndar þegar á hólminn var komið, en seldu hann í þrældóm í staðinn, og Jósef var fluttur til Egyptalands. Hugsið ykkur örlögin! Að vera svikinn af sínum eigin bræðrum, rifinn frá fjölskyldu sinni og hnepptur í þrældóm. Í Egyptalandi varð hann svo fyrir enn meira mótlæti, þegar hann var sakaður um glæp og kastað í fangelsi. En í fangelsinu réð hann drauma tveggja starfsmanna Faraós. Þegar Faraó dreymdi síðan skrítna drauma nokkrum árum síðar, mundi annar þessara manna eftir Jósef og hann var sóttur í fangelsið. Hann réð drauma Faraós þannig að það myndu fyrst koma sjö góð ár og síðan sjö mögur ár, og Faraó ætti að nota fyrri sjö árin til að safna birgðum í hlöður, því síðan myndi koma hungursneyð. Faraó gerði hann að ráðgjafa sínum og þegar hungursneyðin kom, þá var Egyptaland eina landið þar sem hægt var að fá mat, og Jósef var orðinn einn af nánustu samstarfsmönnum Faraós.
Þá birtast bræður Jósefs, alla leið frá Ísrael, og vilja kaupa korn. Jósef þekkir þá, en þeir þekkja hann ekki. Sagan þróast þannig að hann segir þeim á endanum hver hann er, og þeir fallast í faðma. Tengslin eru endurreist, og við getum ímyndað okkur að allt hafi aftur orðið gott. Að Jósef hafi einfaldlega fyrirgefið bræðrum sínum, Guð notaði jú þessa atburðarás til góðs. En það sem gerist síðan segir okkur hvað þetta er í rauninni flókið mál.
Á meðan faðir þeirra er enn á lífi er allt með kyrrum kjörum. En svo deyr faðir þeirra. Og þá verða bræðurnir hræddir. Hræddir um að nú muni Jósef hefna sín á þeim. Að hann sé ekki búinn að gleyma. Og þeir ákveða að fara til Jósefs og nota föður sinn áfram sem skálkaskjól,„Pabbi sagði að þú ættir að fyrirgefa okkur“. Og við skulum athuga að orðið sem þeir nota um að fyrirgefa, er að aflétta einhvers konar byrði. Losa þá við einhvern þunga.
Og þegar þeir tala um sjálfa sig, tala þeir ekki um sig sem bræður Jósefs, heldur sem þræla föður síns. Þetta er nefnilega mikilvægt. Því að þeir gera sér grein fyrir að eftir allt sem hefur gerst, þá verður aldrei neitt aftur eins. Þeir geta ekki lengur talað um sig sem bræður Jósefs. Það hefur orðið rof, og það rof er endanlegt, jafnvel þótt allt hafi verið gott á yfirborðinu. Og takið eftir hvað Jósef segir; hann segir:„Óttist ekki, ekki kem ég í Guðs stað“. Ég held að með þessu sé hann í rauninni að segja: „Þið þurfið ekki að vera hræddir, því það er ekki mitt að hefna“. En hann segir í rauninni ekki,„ykkur er fyrirgefið“. Því að það er einfaldlega ekki á hans færi. Hann getur tekið þá afstöðu að hefna ekki, og hann getur tekið þá afstöðu að láta hina ömurlegu meðferð bræðranna á sér verða til góðs á einhvern hátt, en fyrirgefningin er einfaldlega ekki hans hlutverk. Og þetta er lærdómurinn sem við verðum að taka úr þessari sögu: Það er ekki hlutverk fórnarlambsins að aflétta byrði sektarinnar af þeim sem brýtur gegn því. Það er eitthvað sem er á milli þess sem brýtur og Guðs. Guð einn er í stöðu til að aflétta þessari byrði, og það er þangað sem fólk þarf að leita til að fá fyrirgefningu. Jósef er frábær fyrirmynd þegar kemur að því að takast á við erfiða reynslu með reisn og búa til eitthvað gott úr henni, og við getum líka lært það af sögunni um hann, að það eina sem við getum gert er að velja að lifa ekki í hugarfari hefndar og maklegra málagjalda, við eigum að hefja okkur upp fyrir hugsanaháttinn auga fyrir auga og tönn fyrir tönn, en við berum ekki ábyrgð á því að brotamanninum eða konunni líði betur. Það er mál hans sjálfs eða hennar sjálfrar gagnvart Guði.

Ef þú hefur upplifað það í þínu lífi að einher hefur brotið gagnvart þér, þannig að líf þitt verður aldrei samt, þá langar mig að segja þetta við þig: Þú berð ábyrgð á því að lifa ekki í hugarfari hefndar. Og þú berð ábyrgð á því að reyna að nýta þér reynslu þína á einhvern hátt til góðs. Og þannig mun þér að sjálfsögðu líða betur. En þú berð ekki ábyrgð á því að lyfta byrði sektarinnar af þeim sem braut gegn þér. Það er einfaldlega ekki þitt vandamál. Og það er eitt enn sem við getum tekið með okkur úr sögu Jósefs. Aftur og aftur er það tekið fram að Drottinn var með honum. Og ég segi þér í dag: Drottinn er líka með þér. Guð getur gefið þér þann styrk sem þú þarft til að leyfa ekki reiði og biturleika að ná tökum á lífi þínu.

Og ef þú hefur brotið gagnvart einhverjum. Jafnvel eyðilagt líf einhvers. Ekki gera þá kröfu að viðkomandi fyrirgefi og allt verði gott aftur. Því að allt sem við gerum hefur afleiðingar. Samband Jósefs við bræður sína varð aldrei eins aftur. Jafnvel þótt Jósef hafi ekki látið þá gjalda þess sem þeir gerðu, þvert á móti. Ef við brjótum gegn einhverjum, sérstaklega nákomnum, þá verður sambandið aldrei eins aftur. Það getur einaldlega ekki orðið það. Ekki gera þá kröfu til viðkomandi að hann eða hún muni geta látið sem ekkert sé. Eða aflétt af þér sektarkenndinni. Þar þarft þú að leita Guðs. Iðrast, og fá fyrirgefningu hjá Guði. Og sú fyrirgefning stendur til boða, einmitt vegna þess að Jesús hefur tekið á sig sekt þína og synd. Og það er hann sem reisir þig við þannig að þú getir lifað áfram sem barn Guðs.

Dýrð sé Guði, amen.