Sálarþorri

Sálarþorri

Siðblindan er vetrarlandslagið í mannsálinni. Þar þekkist ekki samlíðan, sannleikurinn er einskis virði og öll þau tengsl sem mynduðu eru við annað fólk hafa það eina hlutverk að hjálpa hinum siðblinda að klífa upp metorðastigann.

Enn eru kaflaskil í almanaksárinu góða. Þorrinn er genginn í garð og þorrinn merkilegur tími, nokkurs konar andstæða jólanna sem eru okkur enn í fersku minni. Jólin eru jú hátíð ljóss og friðar en þorrinn er tími skammdegismyrkurs og vetrarofsa. Sú von og hlýja sem jólunum tengist er víðsfjarri og kemur ekki aftur inn í takt ársins fyrr en með páskum. Nú syngjum óðinn til vetrarhörkunnar þar sem „Þögull þorrinn heyrir þetta harmakvein“ en „gefur grið ei nein“. Þarna er lítil von þótt bóndinn fái þá hughreystingu í lokin að senn svífi þessi konungur kulda og storma á braut. Já og svo til þess að kóróna enn þær skörpu andstæður jóla og þorra þá eru jólin tími krása og sætinda en þorrinn er kæstur og súr.

Aðalvík

Fyrir okkur sem eigum tengsl og rætur vestur á firði leitar hugurinn ósjálfrátt þangað þegar stórbrotin náttúran minnir á sig. Á mínu heimili er meira að segja til hugtak yfir ofsaveður sem rekja má til vetrarveðranna á Ísafirði. Við köllum það „þetta er nú ekkert“ veður – en það er vísað í viðkvæðið sem gestir fengu að heyra í gegnum stórhríðina á þessum slóðum. Þá hrópuðu menn til okkar „þetta er nú ekkert!“ svona til áréttingar á því að oft höfðu þessi hraustmenn tekist á við verra veður en þetta.

Eitt sinn jarðsöng ég Suðurnesjamann fæddan vestur í Aðalvík vorið 1918. Það var þó ekkert vor enda hafði frostið farið niður í 30 gráður þegar verst lét og hafísbreiðan teygði sig svo langt sem augað eygði út á Grænlandssund.

Mér er oft hugsað til móður hans sem hafði fáum mánuðum áður misst eiginmann sinn úti á sjó. Þurfti hún að ala önn fyrir barnahópnum með rýran heykost, jarðbönn og þykkan klakamúrinn sem varnaði sjósókn. Tvennt varð henni til bjargar. Hið fyrra var sú guðsmildi að ísinn ruddi á undan sér miklu magni af skelfiski sem fólkið tíndi í fjörunni og snæddi svo. Hitt var náungakærleikurinn. Nágrannabændurnir þarna í Aðalvíkinni slógu skjaldborg utan um konuna og börnin, hver lagði sitt af mörkum svo unnt væri að framfleyta barnahópnum. Þau komust á legg, fluttu síðar hingað til Keflavíkur og tóku virkan þátt í uppbyggingunni hér um slóðir.

Þarna mætum við aftur andstæðum ógnar og hlýju. Kuldinn norður við heimskautsbaug má sín lítils gegn þeirri hlýju sem í hjörtunum býr.

Sálarþorri

Í lexíunni sem Vestfirðingarnir lásu hér áðan fáum við innsýn í þessar andstæður í lífinu. Hér er það Guð sem talar til spámannsins þar sem Guð bæði rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar, sýnir aðkomumanni kærleika en á það er einnig minnt að kjörin geta verið erfið og háskaleg, Guðs börnum.

Það er eins og hér sé fjallað um aðstæður óblíðrar veðráttu sem gera ekki bara kröfur til aðlögunarhæfni og seiglu fólks, heldur eru líka prófsteinninn á mannkostina, umhyggjuna fyrir náunganum og kærleikann sem í brjóstunum býr: „Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu.“

Já, hér er vísað til nokkurs sem þekkjum líka svo vel og getur verið enn háskalegra en heimskautaveturinn norður við mörk hins byggilega heims.

Því eins og við vitum þá getur þorrinn heltekið sálu mannsins. Í uppgjöri því sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir núna, hefur ákveðin manngerð verið kynnt til sögunnar. Víst setur að manni hroll þegar fræðimenn á sviði sálarfræði draga upp mynd af einstaklingum sem hafast við á milli fjöldans og leitast við að nýta hvert tækifæri til þess að níðast á náunganum og maka eigin krók á kostnað annarra.

Merkur fyrirlesari er á landi nú í síðustu viku og fjallaði um það sem á íslensku kallast siðblinda og felur í sér andstæðu alls þessa sem einkennir hina hjálpsömu Aðalvíkinga frostaveturinn mikla. Siðblindan er vetrarlandslagið í mannsálinni. Þar þekkist ekki samlíðan, sannleikurinn er einskis virði og öll þau tengsl sem mynduðu eru við annað fólk hafa það eina hlutverk að hjálpa hinum siðblinda að klífa upp metorðastigann.

Þegar við hlýðum á slíkar lýsingar er ekki laust við að við tökum að leita að slíkum einstaklingum í kringum okkur en fróðir menn tala um að jafnvel 1% mannkyns sé haldið þessari blindu. Ef rétt er, þá komumst við ekki hjá því að eiga samskipti við slíkt fólk í daglegu lífi okkar. Og jafnvel þekkjum dæmi þess að hafa látið það festa okkur í vef lyga og táls sem opinberaði ekki andlit sitt fyrr en það var um síðar.

Okkar hlutverk er þó ekki það að þefa hina siðblindu uppi. Þá er stutt í dómhörkuna og nornaveiðarnar, sem geta hæglega dregið fram enn verri hliðar í mannlífinu.

Horfa þarf til þess sem þar býr að baki. Frostavetur geysar í margri sálunni og hann nærist á þeirri sífelldu þrá mannsins eftir einhverju meiru og meiru en hann hefur, meiri völdum, meiri fjármunum, meiri athygli, frægð, frama. Kalblettirnir verða stærri og dekkri jafnvel þótt hverri þránni sé fullnægt því sífellt blasir eitthvað meira við sem manneskjan þarf. Þetta er veruleikinn sem við okkur blasir og fátt er verra þeim sem bæta vill umhverfi sitt, en að loka augunum fyrir því hvernig lífið er.

Gullna reglan

Hver er munurinn á hinum siðblinda og þeim sem siðvitið hefur? Hvað vantar í sálu hins fyrrnefnda?

Jú, það er þessi djúpstæða kennd sem Kristur kennir við gullið sjálft – hið fullkomna. Já, það er hluttekningin. Já, hið sanna gull – gullna reglan: Allt það sem þú vilt að aðrir menn gjöri þér það skalt þú einnig þeim gera. Við getum ekki uppfyllt þessa reglu nema með því að gefa gaum að þessari dýrmætu tilfinningu sem minnir okkur á það að við erum öll sköpun Guðs. Við erum öll hluti af börnum Guðs þar sem ekkert eitt á rétt á því sem annað fær ekki. Þar sem enginn má nýta aðra sem verkfæri til þess að ná sínu fram: „Berið sama hug til allra, verið ekki stórlát, umgangist fúslega lítilmagna. Oftreystið ekki eigin hyggindum. Gjaldið engum illt fyrir illt.“

En þessi áminning postulans hrekkur skammt ef það eru aðeins orðin ein. Kristur sýnir okkur það hins vegar með fordæmi hversu ómetanlegt það er að fylgja þessari gullnu reglu. Í augum hans eru ekki aðeins allir jafnir, heldur eru allir dýrmætir og verðugir þess að njóta stuðnings hans og kærleika.

Hann mætir hinum líkþráu sem voru álitnir óhreinir og einskis virði og hann ekki aðeins á með þeim samfélag hann veitir þeim þjónustu sína. Hann læknar þá og hreinsar. Það á ekki aðeins við um þá vanmáttugu og utangarðs. Nei, umhyggja hans nær líka til þeirra sem voru hataðir vegna þeirra valda sem þeir höfðu. Foringi í hernámsliðinu nýtur hins sama kærleika. Skilaboðin gætu ekki verið skýrari. Sigra þú gott með góðu. Ekki hata, elskaðu.

Sagan vestur í Aðalvík er auðvitað aðeins ein af ótalmörgum sem geymir innsýn í það besta sem í manninum býr. Frostaveturinn sjálfur má sín lítils gegn þeirri hlýju uppsprettu. Þarna er samfélagsnetið að störfum, tengt saman þeim böndum sem þola frost og fárviðri og knúin áfram af þeirri orku sem getur skapað birtu og yl þótt frostið sé komið niður í þrjátíu gráður og hafísinn teygi sig svo langt sem augað eygir.

Mannssálin er söm við sig hvort heldur það er á krossgötum í upphafi 21. Aldarinnar, frostaveturinn 1918 eða á sólbökuðum sléttum Júdeu á dögum Krists. Við eigum okkur frelsara sem sendir okkur þessi skilaboð að við erum óendanlega mikilvæg og eigum svo mikið að gefa. Hugleiðum þann boðskap nú er við höldum héðan úr helgidómnum. Veltum því fyrir okkur hversu mikilvægt það er að miðla hinu góða áfram til umhverfis okkar með það að marki að það endurspegli mynd þess sem æðsta og besta.