Umbúðir og innihald

Umbúðir og innihald

Við leggjum það vissulega á okkur að pakka þessum gjöfum inn, alveg eins og kirkjan umvefur trúna orðræðu og hefðum. Að endingu er það þó innihaldið sem skiptir máli. Það er þetta sem guðspjallamennirnir túlka með sterkustu táknum sem við mennirnir þekkjum – hvítvoðungnum og ljósinu.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
25. desember 2021
Flokkar

Nú er hátíðin er í hámarki og það sést best á því að verslanir eru lokaðar í dag. Jafnvel Krambúðin hérna í grennd við okkur hefur slökkt ljós. Það er eins og samfélagið gefi sér örlítið næði til að draga að sér andann áður en blásið er svo aftur til leiks og allar nauðsynjar og ónauðsynjar eru aðgengilegar.


Hátíð í hámarki


Tímabil eftirvæntingar er að baki. Aðventan er liðin með öllum sínum margbreytilegu litbrigðum. Hátíðleikinn nær alltaf hámarki á aðfangadagskvöld þegar jólaklukkurnar klingja. Gjafir hafa gengið á milli vina og kærar kveðjur lesnar. Rjúkandi krásir hafa verið bornar á borð með endalausu úrvali meðlætis.

 

Á jóladegi eru þessar minningar lifandi í hugskoti okkar og eftir því sem árunum fjölgar í lífi okkar skynjum við það hversu mikill hluti minningarbrotin eru af okkur sjálfum. Við erum samsett úr því sem við höfum gert og upplifað og mætum ókomnum tímum með þá reynslu í farteskinu.

 

Nú hefur sitthvað gerst og sitthvað breyst frá því í gærkvöldi. Margir hafa rennt yfir fréttasíðurnar áður þeir kláruðu tiltektina eftir veisluhöld gærkvöldsins. Þar fær umheimurinn aðeins að gæjast inn í líf okkar.

 

Senn tekur hversdagurinn völdin að nýju. Það af honum sem mætir okkur núna, er eftir sem áður baðað þeirri helgi sem jólunum fylgir. Þannig er jóladagur eins og stefnumót hátíðar og hversdags, hins tímalausa og hins takmarkaða.


Í skugga faraldurs

 

Þessi jól höldum við í skugga Covid faraldursins. Já, skuggi hans hvílir yfir okkur. Í nótt eftir miðnæturstundina fékk ég fregnir af því að nokkur hópur fólks sem hafði ætlað að mæta hefði veikst og situr nú heima milli vonar og ótta um að einkennin verði væg. Við fundum einnig fyrir hressilegum jarðskjálfta við þessa helgistund í nótt og þar vorum við aftur minnt á smæð okkar og umkomuleysi andspænis ógnarkröftum náttúrunnar.

 

Jólin eiga sér margvíslegar rætur. Hátíðin tengist ljósinu á norðurhveli jarðar þar sem menn og málleysingjar teyga í sig birtuna og bíða þess að hún fái notið sín í meira mæli eftir því sem líður á árið. Kristnir menn tengja ljósið við Jesú og fæðingu hans. Þrír guðspjallamenn segja frá þessum atburði. Í gær lásum við frásögn Lúkasar af því þegar barnið var lagt í jötu og englar vitjuðu hirðanna úti í haga. Mattheus segir frá vitringnunum sem færðu barninu gjafir. En texti Jóhannesar er af allt öðrum toga.

 

Þarna er engin saga, engin innsýn í huga þeirra sem tengdust hinum fyrstu jólum. Engin ótti, engin úrræði í húsnæðisleysi, ekki örvæntingafullur flótti til annars lands. Nei, Jóhannes hefur sig hærra í loft upp og lýsir allt annarri hlið á þessum stórkostlegu tíðindum: Hann horfir allt aftur til sköpunarinnar – upphafsins mikla og lýsir því hvernig það hófst allt með þessu magnaða Orði – Logos eins og frumtextinn kallar það. Og í því felst ekki bara orð heldur um leið sú guðlega skipan sem er forsenda þess að til er eitthvað fremur en ekki neitt.


Ljós og nýfætt barn

 

Atburðina tengja þessir sögumenn við ákveðin frumtákn. Annars vegar er það ungabarnið sem allt hverfist, barnið í jötunni og hins vegar er það sjálft ljósið. Hvort tveggja er tákn um líf og forsendur þess. Hvítvoðungurinn birtir vonina í brjóstum okkar og hann vekur kærleika í brjóstum okkar. Ljósið er svo hið mikla lífsins undur, án þess fengjum við ekki þrifist.

 

Hjá Jóhannesi takast á ljós og myrkur rétt eins og hæfir svo vel þeim tíma sem er nú við vetrarsólstöður þegar sól tekur á ný að hækka á lofti. Kristnum mönnum þykir sá tími hæfa vel sem umgjörð og vettvangur fyrir hátíðina stóru. „Ljósið skein í myrkrinu“ segir í frasögninni – „en myrkrið tók ekki við því“.

 

Þetta er upphaf fagnaðarerindisins sem kristin kirkja hefur miðlað til heimsins í allan þennan tíma og gerir enn. Það er þessi boðskapur sem hún vill svo gjarnan halda áfram að flytja og lætur einskis ófreistað til þess arna. Erindi kirkjunnar er af sömu rót spunnið og hátíðin sem við höldum núna. Það flytur okkur sömu skilaboð og við gerum hvert til annars með látbragði okkar og fasi á helgum jólum. Það er lögmál jólanna – fegurðin, kærleikurinn og endurtekningin sem veitir okkur festu og öryggi í ólgusjó daganna.


Umbúðir og innihald

 

Trúin snýst ekki um játningar og helgisiði. Þau eru eins og pappírinn og plastið sem við pökkuðum gjöfunum okkar í. Í dag eru bækurnar, fötin, munirnir sem við fengum á áberandi stað á heimilum okkar. Umbúðirnar eru komnar í poka og bíða þess að fara í endurvinnsluna. Við leggjum það vissulega á okkur að pakka þessum gjöfum inn alveg eins og kirkjan umvefur trúna orðræðu og hefðum. Að endingu er það þó innihaldið sem skiptir máli. Það er þetta sem guðspjallamennirnir túlka með sterkustu táknum sem við mennirnir þekkjum – hvítvoðungnum og ljósinu.

 

Trúin býr innra með okkur öllum, trúarþörfin er ríkur þáttur í lífi okkar. Ég vil ekki móðga neinn en mér finnst hún einnig koma skýrt fram í fasi þeirra sem afneita allri trú. Sjaldan heyri ég eða les víðlíka trúarjátningar eins og úr þeirri áttinni. Það ágæta fólk talar einmitt um tilvist okkar mannanna, tilganginn og gefur þar gaum að okkar mikilvægustu og dýrmætustu þáttum. Þau sem afneita trúnni eru oftar en ekki í uppreisn gegn siðum hennar og játningum. Eftir standa grundvallaratriðin, leit mannsins að merkingu og því sem stendur eftir þegar umbúðirnar hafa verið fjarlægðar. 


Hvað kann hvítvoðungurinn?

 

Þess vegna tala jólin inn í kjarna tilvistar okkar og veru. Hver getur lifað án ljóss? Og hvítvoðungurinn – hann veit ekki nokkurn skapaðan hlut, hann hefur ekki enn tileinkað sér nokkra færni. En hann á sér þennan undrakraft sem er líklega öflugri en nokkur getur framkallað síðar á lífsleiðinni.

 

Já, hver er sá kraftur? Kannske getum við rifjað það augnarblik þegar við vorum síðast í návist nýfædds barns. Hvernig vorum við á svipinn? hvernig var raddblærinn? hversu nærgætin vorum við ekki og passasöm? hvaða kenndir voru það sem fórum um líkama okkar?

 

Hvítvoðungurinn kann nefnilega þetta eitt sem mestu máli skiptir – að kalla fram ást og kærleika í hjörtum þeirra sem að honum standa. Og þannig mætir Guð okkur á jólunum – hann sendir okkur þessi skilaboð með blikkandi neon-jólaljósum: Elskið mig! Og ástin sem við sýnum Guði endurspeglast svo í umhyggjunni til náungans.

 

Þetta er inntak jólanna. Trúin snýst um það sem skiptir okkur mestu máli.


Næðið

 

Við fögnum því í hjarta okkar að fyrirgefningin er merkilegri og heillavænlegri hefndinni. Að auðmýktin er meiri hrokanum. Að samfélagið sé fegurra einsemdinni. Verum sæl mitt á tímum óvissu og vanmáttar yfir því að eiga þá von að broddur dauðans hefur verið afmáður og lífið hefur sigrað.

 

Nú er hátíð í bæ. Við gerum örlítið hlé á erlinum í tilefni dagsins. Það kom líka fram í fréttum dagsins þegar ég renndi yfir þær á skjánum, að einn vinsælasti liðurinn í dagskrá fjölmiðla í gær var þögnin í ríkisútvarpinu áður en kirkjuklukkur hringdu hátíðina inn. Mögulega er það þetta sem jólin snúast um. Mögulega er það þetta sem ungbarnið miðlar til allra sem í kringum það standa. Sjálft ljósið sem gerir okkur kleift að lifa og starfa. Engir fyrirlestrar, íburðarmiklir helgisiðir – heldur bara þetta svigrúm, sem okkur er öllum nauðsynlegt.

 

Jólin eru tíminn þar sem við hlúum að því sem eru okkur dýrmætast. Þetta getum við kallað lögmál jólanna – orðið sem skín til okkar í myrkri daganna, lýsir þá upp og minnir okkur á það sem aldrei fyrr hversu dýrmætt það er að vera hluti af söfnuði Krists hér á jörðu. Það snýst um að vera manneskja og taka á móti því fylgir fylgir mennskunni, þeim hugrenningum, efasemdum, ótta og undri en þó fyrst og fremst kærleikanum sem við berum hvert til annars. Um það snúast hin gleðilegu jól.