Ég heilsa ykkur í Jesú nafni.
Í hans nafni erum við samankomin hér á þessari hátíð. Í nafni hans er bað: „að allir séu þeir eitt … til þess að heimurinn viti að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig“. (Jóh. 17:21,23)
Bæn Jesú til föðurins snýst ekki um það að við séum öll eins heldur að grundvöllurinn sé hinn sami, Jesús Kristur. Hann sem er leiðtogi okkar og Drottinn, fyrirmynd okkar og frelsari. Við erum ekki öll eins hvorki í útliti né í okkur. Við erum ólík og trúariðkun okkar einnig. En við komum saman í Jesú nafni og virðum fjölbreytileikann, mismunandi túlkun Ritningarinnar og boðun Orðsins.
Hér á hátíð vonar beinum við huga okkar að honum er kallaði menn til fylgdar við sig (t.d. Mt. 4:18-22). Kenndi eins og sá er valdið hefur (t.d. Matt. 5:1-7:29). Setti manneskjuna og velferð hennar í öndvegi ( t.d. Mt. 11:25-30). Honum er svaraði gagnrýni með því að vitna í heilaga texta (t.d. Lúk. 10:25nn). Honum sem kenndi í brjósti um fólk (t.d. Mt. 15:32nn), ræddi við þau er litin voru hornauga í samfélaginu og hvatti fólk til að snúa sér til Guðs (t.d. Jóh. 8:1-11). Honum er sendi lærisveina sína út í heiminn til að skíra og kenna og hét því að vera með þeim alla daga, allt til enda veraldar (Matt. 28:16-20).
Hver einstaklingur er dýrmætur í augum Guðs og er elskað barn Guðs. Jesús bað föður sinn að allir væru þeir eitt, „til þess að heimurinn viti að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig“. (Jóh. 17:23) Jesús sýndi kærleikann í verki og það eigum við einnig að gera. Heimurinn þarfnast kærleika Guðs. Við höfum verið send með þann boðskap út í heiminn. Boðskap sem ætlaður er öllum manneskjum.
Sem betur fer búum við í landi þar sem er frelsi til trúariðkunar í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Í landi þar sem við höfum leyfi til að tjá skoðanir okkar. Það er stjórnarskrárvarinn réttur okkar. Í stjórnarskránni segir: „Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar.“ Réttindum fylgja skyldur. Réttindi mín eru líka réttindi þín. Við höfum skyldur við hvert annað.
Við erum eitt í Kristi, en við erum ekki öll eins. Kristur mætir okkur þar sem við erum stödd á lífsins leið og kallar okkur til fylgdar við sig. Að fylgja Jesú er að feta í sporin hans. Elska Guð og mæta náunganum með kærleika Guðs. Bera virðingu fyrir okkur sjálfum, náunganum og Guði. Treysta Drottni fyrir öllu okkar. Treysta því að andi hans leiði okkur og blessi og láti okkur finna leiðir til lausnar þegar við stöndum frammi fyrir vanda.
Hvernig sjáum við kærleika Guðs? Hvernig finnum við kærleika Guðs? Við getum lesið um hann í Biblíunni. Við getum fundið hann í umhverfinu, í kærleiksríkri framgöngu fólks. Okkar hendur eru hendur Guðs hér í heimi. Hendur ástvina okkar bera okkur fyrstu árin, þær eru hendur Guðs. Hendur Guðs birtast líka í höndum þeirra er spenna greipar í bæn fyrir okkur. Við spennum greipar hér í kvöld. Sameiginleg bæn eflir samstöðu og elsku til Guðs og hvers annars.
„Þegar þú sérð hve Guð elskar þig ótrúlega mikið, þá geturðu ekki annað en helgað líf þitt því að útbreiða þá elsku“ sagði móðir Teresa. Hver einstaklingur hefur þann rétt að lifa hamingjuríku lífi. Við getum fundið sanna hamingju með því að elska Guð.
Megi hamingjan búa í hjörtum okkar. Megi blessun Guðs umlykja okkur hvert og eitt. Megi heilagur andi leiða okkur á lífsins vegi. Megi Orð Guðs gefa djörfung og kraft í dag og alla daga.
Vonarríka hátíð, í Jesú nafni.