Þessi útvarpspredikun gerir að umtalsefni málverk sem blasir við kirkjugestum þar sem messan fer fram. Hlustendur verða að gera sér að góðu að ímynda sér verkið nema að þeir slái upp heimasíðu Keflavíkurkirkju og virði það fyrir sér á skjánum.
Sunnlendingar við fótskör Krists!
Altaristaflan birtir okkur mynd af Jesú á fjallinu, klæddum hvítum kyrtli og í heiðbláum möttli. Hann er með með hóp fólks í kringum sig, í fjarska eru fjöllin blá og yfir þeim fremur þungbúinn himinn. Þetta er olíumálverk Ásgríms Jónssonar og er það til marks um virðulegan aldur þessa helgidóms að listmálarinn var enn ungur og efnilegur þegar hann málaði verkið.
Kristur er ekki sá eini sem er áberandi á myndinni, áhorfendur hans vekja athygli, þar sem þeir eru nánast í forgrunninum. Þetta eru víst svipsterkir Sunnlendingar, en fyrirsæturnar sótti listamaðurinn til íbúa Stóru-Núpssóknar í Hrunamannahreppi í byrjun síðustu aldar. Hann málaði sambærilegt verk í kirkjuna þar. Við í Keflavíkurkirkju höfum verið upptekin af þessu málverki undanfarið, eins og öðru sem tengist aldarlangri sögu kirkjunnar sem var vígð 14. febrúar 1915. Kirkjusagan hér á Suðurnesjum birtir okkur innsýn í hugarheim fólks í samfélagi sem eitt sinn var. Sögurnar eru margar og þær segja til um hvernig hjörtun slógu á þeim tíma þegar byggð tók að myndast hér við sjávarsíðuna.
Það er ekki bara svo að verkið sjálft sé allt hið merkilegasta. Tilurð þess og forsaga sýnir okkur hvernig fólk hugsaði og hvert það leit. Okkur þykir það merkilegt að konur í þessu fátæka þorpi skyldu hafa safnað fé til að hægt væri að prýða kirkjuna þessu fallega listaverki og fyrir velflesta sem bjuggu í lágreistum húsakynnum hafa þetta verið þeirra fyrstu og einu kynnin af slíkri list.
Kirkja fólksins
Já, maðurinn er ekki skapaður til þess eins að strita í sveita síns andlits og listaverkið ber vott um það. Þótt orðið, „maður“ sé náskylt orðinu mold, leitar hugur mannsins upp á við. Hvað er okkur æðra og hærra? hvert skalt stefna og hver eru þau leiðarljós sem okkur ber að fylgja á vegferðinni frá vöggu til grafar? Verk Ásgríms má skoða sem dæmi um þá leit okkar að því sem hefur okkur upp úr hinni daglegu lífsbaráttu.
Það er jú svo merkilegt að fólkið sem fyrst fékk að heyra boðskapinn skuli fá slíka athygli á myndinni sem raun ber vitni. Þarna er listamaðurinn að beina sjónum okkar að því sem kirkjan raunverulega er. Hún er fólkið sem myndar hana og hinn næmi málari dregur athygli okkar að því. Hann bendir á hið sístæða hlutverk þess sem nemur boðskapinn og gildir þar einu hvort sá er uppi á hinum biblíulegu tímum eða hvort það eru samtímamenn. Hann málar verkið inn í kirkju sem með réttu er kirkja fólksins og dregur það fram með þessum afdráttarlausa hætti. Hversu viðeigandi er það í ljósi þess að frumkvæðið kom fram þessum öflugu konum sem vildu auka veg og vanda samfélagsins og þeirra sálna sem það samanstendur af.
Lýsing á listaverki
En listaverkin eru af ýmsum toga. Sum þeirra getum við ekki séð – en þurfum, rétt eins og útvarpshlustendur, að láta okkur nægja lýsingar á því sem aðrir skynjuðu. Ritningin birtir okkur slíkar myndir. Frásagnarmátinn er oftar en ekki byggður á því innsæi sem ekki er hlutbundið og línulegt – heldur túlkar og skapar og miðlar sannindum á annan hátt. Texti Biblíunnar á oft meira sameiginlegt með túlkun listamanna sem kafa dýpra og skyggnast lengra en unnt er að gera í nákvæmri atburðalýsingu.
Guðspjall dagsins er ekki ósvipað málverki sem við fáum að virða fyrir okkur í gegnum reynslu þeirra sem miðluðu og lýstu. Já, aftur beinast augun að viðtakendunum, þeim sem urðu vitni að því sem gerðist. Við sjáum atburð uppi á fjalli, rétt eins á og altarisverki Ágríms, og þar er sannarlega stórbrotin mynd dregin upp. Penslar listamannsins draga upp mynd af frelsaranum þar sem klæði hans verða hvítari en nokkur bleikir á jörðu fær áorkað – eins og því er lýst í textanum.
Já, eins og verk Ásgríms, birtir mynd Markúsar okkur hina hreinu og tæru ásýnd Krists. Myndin og ummyndunin eru af sama meiði sprottnar þar finnum við sterk skilaboð sem eiga erindi til okkar á öllum tímum. Þær tala einnig inn í þær aðstæður sem kristnum mönnum eru búnar á okkar dögum, við okkur sem heyjum okkar trúarglímu, ekki aðeins í hjartanu heldur líka á torginu þar sem sífellt fjölgar hugmyndum og fjölbreytileikinn vex. Þarna mætir Kristur okkur, einmitt með þeim hætti sem hefur náð til hjarta þeirra sem háðu sína lífsbaráttu í Keflavík í byrjun síðustu aldar og svo oft fyrr og síðar.
Hin hreina ásýnd
Þessi mynd kemur fyrir, hvað eftir annað í sögu kirkjunnar, oftar en ekki í kjölfar þess þegar trúarlegar stofnanir hafa ratað á refilstigu flókinna trúarkenninga sem höfða ekki til hjarta mannsins, bregðast ekki við þeim tilvistarspurningum sem hann glímir við, afmarka og útiloka hópa sem aðhyllast aðrar skoðanir. Hún á erindi til okkar á þessum tímum þegar ljóst má vera að trúarlegt líf á Íslandi og víðar, stendur á tímamótum. Gagnrýnin er óvægin og hversu sanngjörn sem hún kann að vera þá kallar hún á það að kristnir leiðtogar, leikmenn og vígðir, endurskoði margt í boðun og starfi kirkjunnar. Í því sambandi er áhugavert að rýna í þann boðskap sem birtist okkur í altarisverkinu, sem sannarlega er málað á tímum sem einnig einkenndust af miklum breytingum.
Kirkja fólksins birtist okkur – þar sem sjálfur efniviður kirkjunnar, hinir skírðu og trúuðu leiða hana áfram, taka frumkvæðið og miðla með vitnisburði sínum því sem máli skiptir. Hvernig maðurinn leitar svara við stórum spurningum lífsins og leitar að því sem hefur tilveruna upp fyrir allt það sem verður möli og ryð að bráð.
Séra Friðrik
Skömmu áður en Ásgrímur dró útlínur Krists á rammann og málaði klæði hans í himintónum, kom séra Friðrik Friðiksson inn í íslenskt samfélag og flutti þar hinn sama boðskap og hér hefur verið fjallað um. Það birtist ummyndunin sem kristin trú miðlar í sinni tærustu mynd. Hann mótaði kirkju fólksins með slagorðinu sem blasir við okkur í Vatnaskógi: Meistarinn er hér og vill finna þig. Í hinu nýja þéttbýli þar sem ættartengsl sveitar rofnuðu myndaði Friðrik öflug bönd samfélags og vináttu sem byggð voru á hinum opna og víðsýna grunni kristinnar trúar. Hann stofnaði ekki aðeins hreyfingar sem kenndu sig við Krist, heldur líka íþróttafélög, kóra og sjálfa skátahreyfinguna. Hér sjáum við með sama hætti hvernig kristin trú ummyndar og umfaðmar samfélag og breytir því til hins góða.
Fleiri myndir
Já, og myndirnar eru svo margar – við erum enn í losti eftir árásina á teiknarana í Parísarborg svo að það er eins og skorðuð fjöllin skjálfi. Óðara beinist sjónarhornið að okkur – okkur sem tölum máli trúarinnar og spurt er hvort trúin sé ekki í grunninn fjandsamleg frelsi og sköpun og ógn gegn lýðræði og framþróun.
Við sem ólumst upp í skugga kjarnorkuógnar þar sem tvö stórveldi tókust á ættum þó að vita að vart er til sá þáttur í fari mannsins og hugsun sem ekki getur kallað fram slíka ógn. Um hvað deildu menn, annars, á dögum kalda stríðsins annars og hótuðu gereyðingu alls lífs á jörðu? Jú, voru það ekki andstæðar hugmyndir um hvernig verja ætti arðinum af framleiðslunni? Með öðrum orðum, ólíkar hagfræðikenningar.
Trúin getur með sama hætti verið þröng og afmarkandi, fjandsamleg lífi og frelsi og hún getur miðlað okkur þeim hreina og skæra tón sem listamennirnir tjá – þar sem manneskjan hefur upp augu sín til himins og finnur það sem lyftir henni upp frá moldinni. Konurnar í Keflavík sem söfnuðu fyrir þessu fallega listaverki myndu örugglega taka undir þá afstöðu ef þær væru spurðar.
Frá hjarta til hjarta
Og nú birtist hún okkur þessi mynd af Kristi sem miðlar birtu og ljósi til þeirra sem vilja njóta. Hún krefur okkur um að takast á við fordóma í garð þeirra sem eru af öðrum uppruna en við. Gleymum því ekki að í Gamla testamentinu er miklu oftar talað um útlendinginn en nágranna okkar – enda er miklu auðveldara að láta sér líka vel við þá sem líkjast okkur en alla hina. Jesús sem birtist okkur í texta dagsins og dreginn er á strigann hér í þessari kirkju er hinn sanni frelsari sem talar inn í þann helgidóm sem að sönnu er kirkja fólksins.
Ekkert veitir betri mælikvarða á kirkjuna okkar en einmitt það hvort hún slær þann tón sem höfðar til þeirra sem hún samanstendur af. Frá hjartanu eiga boðin að berast og til hjartans eiga þau að rata.
Kirkjan okkar hér á Íslandi byggir á þessum grunni, allt frá siðaskiptunum, að þar fari fram regluleg siðbót. Slíkt endurmat er hluti af störfum okkar og það byggist á sömu forsendunum – að leitað sé aftur til hins hreina og tæra kristindóms, upprunans. Það er sú mynd sem hér hefur verið fjallað um og stendur í svo skarpri andstöðu við guðfræði óttans sem sundurgreinir og flokkar. Þetta er sá Kristur sem birtist okkur á öllum tímum. Það er Kristur sem varð hinum fyrstu Keflvíkingum innblástur og hóf huga þeirra upp á æðra svið. Hvernig sem vindar munu blása á komandi tímum er kristin kirkja sterk að eiga slíkt leiðarljós sem aldrei slokknar.