Hugvekja flutt í kaþólsku kirkjunni á Landakoti í Reykjavík 22. janúar 2014.
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Á samkirkjulegri bænaviku í fyrra bauð Pétur Bürcher biskup mér að flytja hugvekju í kirkju sinni að ári. Ég þakka fyrir boðið og er hér mætt í Kristskirkju í kvöld til að flytja hugvekjuna á samkirkjulegri bænaviku sem á sér langa sögu í alþjóðlegu samhengi og hér á landi í um 40 ár.
Í haust tók ég þátt í heimsþingi Alkirkjuráðsins í Busan í Suður-Kóreu en í Alkirkjuráðinu eru nú um 350 kirkjur í meira en 140 löndum heims. Um 5000 manns tóku þátt í heimsþinginu og var þroskandi að vera með fólki alls staðar að úr heiminum og úr öllum þessum kirkjudeildum. Auk fulltrúa aðildarkirknanna tóku kaþólskir þátt sem og hvítasunnumenn auk fulltrúa fleiri kirkjudeilda, sem ekki eru aðilar að Alkirkjuráðinu.
Það er mikill áhugi og vilji hjá kristnu fólki að sameinast í trúnni á Jesú Krist, hans sem bað að allir séu þeir eitt. Á heimsþinginu var ekki að finna neinn ágreining um það að við sameinuðumst í bæn til þess Guðs er Jesús Kristur birti okkur og boðaði. Við sáum hins vegar að þær aðferðir sem notaðar voru í bæna- og helgihaldi voru ekki allar eins. Í morgun- og kvöldbænum komu glöggt fram mismunandi hefðir í helgihaldinu og bænaiðkuninni. Þar sem fólkið sem stýrði bænahaldinu átti mismunandi móðurmál varð fjölbreytnin ennþá meiri. Listin var áberandi í helgihaldinu, tónlistin, drottning listanna, er sameiginleg öllu helgihaldi hvar sem er í heiminum og í öllum kirkjudeildum. Einnig var myndlist, leiklist og dans áberandi. Við getum því gert ráð fyrir að þessa vikuna sé beðið fyrir einingu kristinna manna á mörgum tungumálum og samkvæmt margskonar hefðum.
Alkirkjuráðið í samvinnu við kaþólsku kirkjuna stendur að baki bænavikunni og beðið er í öllum heimsálfum. Samkirkjulegt starf er ekki nýtt af nálinni þó aðeins nokkrir áratugir séu frá því samstarfsnefnd kristinna trúfélaga á Íslandi var stofnuð. Í henni eiga sæti fulltrúar frá Aðventkirkjunni, Fríkirkjunni Veginum, Hjálpræðishernum, Hvítasunnukirkjunni, Íslensku Kristskirkjunni, Kaþólsku kirkjunni, Óháða söfnuðinum og Þjóðkirkjunni. Samstarfið í nefndinni hefur leitt til aukins skilnings og þekkingar á þjónustu og boðun kirkjudeildanna og hefur eitt af meginverkefnum nefndarinnar verið að undirbúa og annast samkirkjulega bænaviku hérlendis. Við sem búum hér á Íslandi og tilheyrum hinum vestræna heimi gerum okkur ef til vill ekki grein fyrir því hve auðvelt er að vera kristinnar trúar í þessum heimshluta, sem lítur til kristinna gilda í daglegu lífi og hefur fullt frelsi til trúariðkunar. Á heimsþinginu í Busan var fólk sem býr við aðrar aðstæður og kristnar kirkjur þeirra minnihluta trúarbrögð. Þar er ekki spurning um hvort peningar séu til að endurbæta og reka söfnuðinn heldur hvort fólk fái að iðka trúna og lifa það af að safnast saman til þeirrar iðkunar. „Síðast liðið hálft ár hafa 50 kirkjur verið brenndar“ sögðu egypsku prestarnir frá Koptísku kirkjunni og 2 biskupar hafa verið drepnir. Við búum við allt annan veruleika sem betur fer, þó mannlegt eðli sé hið sama og þráin eftir farsælu og merkingarfullu lífi.
Í Busan voru Biblíulestrar á morgnana. Á hverjum degi var kynntur Biblíutexti sem leiddi til yfirskriftar þingsins, þar sem Guð lífsins var beðinn um að leiða okkur til réttlætis og friðar. Vegna mismunandi bakgrunns og aðstæðna voru mörg sjónarhorn sem fram komu þegar textinn var lesinn. Það þekkjum við líka vel, við sem tilheyrum mismunandi kirkjudeildum að uppeldi okkar og hefðir móta sýn okkar á textann og túlkun hans.
Í ár byggist bænin um einingu kristinna manna á texta Páls postula úr fyrra Korintubréfi þar sem Páll skrifar hinum unga söfnuði í Korintu. Honum hafði borist til eyrna að söfnuðurinn ætti erfitt með að fóta sig í hinni nýju trú. Ætti erfitt með að halda trú sinni vegna þess að umhverfi þeirra hafði annan hugsunarhátt og hefðir. Þau bjuggu í fjölþjóðlegu umhverfi þar sem margar stefnur og margir straumar buðu upp á bestu lífssýnina að sögn. Samstaða hinna kristnu hefur því verið þeim nauðsynleg en þá þegar voru menn farnir að skipa sér í flokka á bak við ýmsa leiðtoga.
En ég hvet ykkur, systkin, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að vera öll samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal ykkar. Verið heldur samlynd og einhuga. Því að heimilismenn Klóe hafa tjáð mér um ykkur, bræður mínir og systur, að þrætur eigi sér stað á meðal ykkar. Ég á við að sum ykkar segja: „Ég fylgi Páli,“ og aðrir: „Ég fylgi Apollós,“ eða: „Ég fylgi Kefasi,“ eða: „Ég fylgi Kristi. Er þá Kristi skipt í sundur?
Páll hvetur söfnuðinn unga og brýnir hann til einingar og samstöðu um trúna. Þá þegar var komin þörf fyrir einingu og samstöðu, en tilgangur með samkirkjulegu starfi er að færa kristið fólk nær hvað öðru og stuðla að hinni andlegu einingu kristninnar. Bænin er grunnur samkirkjustarfsins, því aldrei er nærvera Guðs jafn áþreifanleg eins og þegar kristin systkin koma saman til bæna. Nærvera Guðs er ekki aðeins áþreifanleg þegar við komum saman til bæna heldur er hún áþreifanleg í mannlegu samfélagi þar sem kærleikur og von eru sýnileg í samfélagi okkar. Heimurinn hefur alltaf verið í þörf fyrir kærleika Guðs og á það ekki við síður nú á tímum en áður.
Í ár eru 400 ár liðin frá því lítill drengur leit dagsins ljós í Gröf á Höfðaströnd í Skagafirði. Hann átti eftir að hafa meiri áhrif á trúarlíf Íslendinga en margir aðrir. Enn í dag er píslarsaga Krists túlkuð með hans orðum á föstunni. Hallgrímur Pétursson lofar Krist í einu versi Passíusálmanna með þessum orðum:
Hjartans innstu æðar mínar elski, lofi, prísi þig, en hjartablóð og benjar þínar blessi, hressi, græði mig. Hjartans þýðar þakkir fínar þér sé, gæskan eilíflig.
Æ síðan hafa Passíusálmarnir verið þjóðinni dýrmætir trúartextar sem margar kynslóðir hafa fengið trúarlega næringu frá. Á þessu afmælisári verða margir viðburðir í kirkju minni til að minnast Hallgríms, trúar hans og verka. Að tveimur árum liðnum verður þess svo minnst að 350 ár eru frá fyrstu útgáfu Passíusálmanna.
„Er þá Kristi skipt í sundur, spyr Páll hinn unga söfnuð í Korintu“. Nægir ykkur ekki að treysta honum einum? Eruð þið e.t.v. hrædd við að játa trú á Krist í ykkar fjölþjóðlega samfélagi? Hins sama getum við spurt árið 2014 á Íslandi. Er sú lífsskoðun sem við höfum sammælst um sem þjóð ekki lengur boðleg börnum okkar? Það er ágætt að hafa val, en val hlýtur að standa á milli einhverra kosta. Ef við þekkjum engan kost til hlítar getur valið reynst erfitt. Trú er ekki bara einkamál okkar. Kristin trú er samfélags trú. Við komum saman til að rækja trú okkar og biðja saman til Jesú Krists. Enn fáum við kristið fólk að ganga óáreitt til okkar kirkju sem betur fer og ef við erum viss í okkar trú og göngum óhrædd til þjónustu og iðkunar hennar þá þurfum við ekki að óttast. Ótti við fjölmenningarlegt samfélag þarf ekki að stjórna lífssýn okkar og gjörðum og á ekki að stjórna. Ef við hvílum örugg í trú okkar þá er ekkert að óttast.
Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér sagði Jón Sigurðsson í sjálfstæðisbaráttu okkar Íslendina. Við kristið fólk á Íslandi getum minnst þessara orða þegar við hugsum um nauðsyn þess að standa saman og fylgja þannig orðum Krists er hann talar um einingu kristinna manna. Við sameinumst í bæn fyrir einingu kristninnar og minnumst orða sr. Hallgríms er hann segir:
Bænin má aldrei bresta þig, búin er freisting ýmislig, þá líf og sál er lúð og þjáð lykill er hún að Drottins náð.
Megi lykillinn að Drottins náð vera verkfæri okkar og vinnulag þegar við komum saman í nafni frelsara okkar Jesú Krists. Nafn hans er sameiningartákn okkar, því verður ekki skipt í sundur.
Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.