Sólfáður sær, - Prédikun á Siglingahátíðinni á Húsavík

Sólfáður sær, - Prédikun á Siglingahátíðinni á Húsavík

Ég bið góðan Guð að blessa þessa Siglingahátíð á Húsavík sem hafin er og býð sæfarendur og aðra góða gesti velkomna til hafnar á Húsavík. Ég sé fyrir mér fallegar skonnortur kljúfa ölduna eina af annarri þar sem siglutré af öllum stærðum og gerðum bera við himinn, hvert með sínu lagi, með sínu krosslagi sem benda óbeint á þann sem fer fyrir hverjum sérhverjum knerri, frelsarann Jesú Krist

 

 

Skonnortan Hildur, Húsavík  siglir fyrir þöndum seglum

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.  

Ég er á langferð um lífsins haf 

og löngum breytinga kenni.

Mér stefnu frelsarinn góður gaf,

ég glaður fer eftir henni.

Mig ber að dýrlegum ljósum löndum,

þar lífsins tré gróa á fögrum ströndum, 

við sumaryl og sólardýrð.

Þetta sálmavers er eftir Klaus Östby, foringja í norska hjálpræðishernum. Sálminn hans er að finna í íslensku sálmabókinni, nr. 720. Mér komu þessi orð í huga í tilefni af ferðalagi margra báta frá norrænum þjóðum yfir úfinn sæ til Húsavíkur á  Íslandi til að taka þátt í fyrstu norrænu Siglingahátíðinni sem haldin verður árlega héðan í frá til skiptis á norðurlöndum Ég bið góðan Guð að blessa þessa Siglingahátíð á Húsavík sem hafin er og býð sæfarendur og aðra góða gesti velkomna til hafnar á Húsavík.  

Ég sé fyrir mér fallegar skonnortur kljúfa ölduna eina af annarri þar sem siglutré af öllum stærðum og gerðum bera við himinn, hvert með sínu lagi, með sínu krosslagi sem benda óbeint á þann sem fer fyrir hverjum sérhverjum knerri, frelsarann Jesú Krist.  Og það blæs byrlega í seglin yfir úfið hafið því að Drottinn er með í för. Þegar kemur að ströndinni þá þekkir skipstjórinn hættuboðana og leiðir áhöfn sína og bát heila heim í friðarhöfn. Húsavíkurhöfn er friðarhöfn í í dag.  

Þetta er falleg mynd sem ég dreg hér upp,mynd sem vafalaust hefur komið upp í huga okkar í tilefni af þessari hátíð, nokkuð sem við sáum kannski með berum augum í gær þegar skonnorturnar og bátana bar að landi. Skipstjórarnir bera mikla ábyrgð, þeir verða að þekkja hættuboðana, torleiðin. Það gera þeir með því að notast við siglingakortin um borð. Hér áður fyrr notuðust skipstjórar við stjörnur himinsins og áttavitana þegar þeir komu til sögunnar. En það gat ekki gerst nema einhverjir hefðu farið á undan og kannað það sem framundan var eins og sálmaskáldið segir í næsta versi:  

Og stundum sigli ég blíðan byr

og bræðrasamfylgd þá hlýt ég.

Og kjölfar hinna er fóru fyrr 

án fyrirhafnar þá nýt ég.

Í sólarljósi er særinn fríður

og sérhver dagurinn óðar líður

er siglt er fyrir fullum byr.

 

Ég var staddur suður af Húsavík, upp á golfvelli, fyrir nokkrum dögum þegar þokan læddist inn yfir landið þegar hallaði af degi og byrgði mér sýn svo ég sló golfkúluna í kargann. En þegar sólarljósið braust í gegn þá sá ég dýrðarfulla liti úti á sænum þar sem knörrinn sigldi þöndum seglum til hafnar. Það var líkt og Drottinn hefði strokið með pensli yfir sólfáðan sæinn og skapað sitt fegursta listaverk.  Yfir og allt um kring var niðdimm þokan en hvít rönd var á sjónum, líka dökkblá og græn, knörrinn var grámóskulegur í fjarska þar sem hann stefndi til hafnar með áhöfn sína. En særinn var fallegur og ég hugsaði með mér að þessa mynd skyldi ég reyna að draga upp með pensli.  Ég tók síðan að sigla fyrir fullum byr upp á golfvelli svo ég taki þannig til orða, og paraði næstu braut. Þar var ég ekki einn á ferð.En stundum ber svo við að okkur finnst við vera ein á ferð og liggjum undir margvíslegum ágjöfum. Hvernig bregðumst við þá við?  Sálmaskáldið Klaus Östby segir okkur frá því í þriðja versinu:  

En stundum aftur ég aleinn má, 

í ofsarokinu berjast.

Þá skellur niðadimm nóttin á

svo naumast hægt er að verjast 

Ég greini ei vita né landið lengur,

en ljúfur Jesús á öldum gengur

um borð til mín í tæka tíð.

 

Ég er á langferð um lífsins haf ásamt ykkur sem mál mitt heyrið hér um borð á Húna II frá Akureyri.  Það hefur komið fyrir að ég hef ekki getað greint vita né landið lengur. Ágjöfin hefur verið slík. Þá hef ég stundum skynjað hvernig ljúfur Jesús á öldum gengur um borð til mín í tæka tíð og styður og leiðir mig áfram þar til ég hef náð áttum á nýjan leik. Það er ekkert sjálfsagt í þessu lífi. Váleg tíðindi geta gerst fyrr en varir. Þess vegna verðum við að fara varlega líkt og allir skipstjórar og áhafnir báta ber að gera. Í lífinu ber okkur að gæta varúðar og minnast þess jafnan að Drottinn  og hann getur einnig tekið. Við lifum undir valdi Drottins eins og norska sálmaskáldið  segir í fjórða versi sálmsins:  

Mitt skip er lítið, en lögur stór

og leynir þúsundum skerja

En granda skal hvorki sker né sjór,

því skipi er Jesús má verja.

Hans vald er sama sem var það áður, 

því valdi er særinn og stormur háður.

Hann býður: ,,Verði blíðalogn!  

Í guðspjallinu sem ég las segir frá því að Jesús hafi risið upp í bátnum, hastað á vindinn og vatnið og það varð stillilogn.  Það er hér talað um blíðalogn og stillilogn. Húsvíkingar eru stundum sér á báti eins og sagt er og ég hef heyrt að hér sé talað um hvítalogn. Í hvítalogni var ég eitt sinn staddur upp á efstu golfbrautinni á Katlavelli að morgunlagi í júlí fyrir nokkrum árum. Varð mér þá litið til fjallsins Bakranga handan við Skjálfanda og sá þá í fyrsta skipti gríðarlega stóran brúnan og fallegan steinkross í rismiklu berginu sem stendur fram í sjó. Margir skipstjórar höfðu spurt mig fyrr hvort ég hefði séð þennan steinkross í Galta eins og fjallið nefnist frá sjó. Ég gladdist við þessa sýn, nuddaði augun. Það bar ekki á öðru. Hann var þarna. Svo hélt ég áfram að elta kúluna og náði að para þessa braut sem var bara æðislegt eins og unglingarnir segja, kannski fyrir það að það ríkti friður og gleði í mínu hjarta líkt og lærisveinarnir upplifðu forðum í bátnum á Genesarretvatni eftir að Jesús hafði náð að kyrra vind og sjó.  

Í Kinninni ber umrætt fjall nafnið Ófærufjall. Það verða ýmsar ófærur á langferð okkar og löngum breytinga kennir eins og sálmaskáldið norska segir.  Verkefni okkar er að sigrast á þessum ófærum. Það getum við ekki nema njóta stuðnings samborgara okkar og frelsarans Jesú Krists sem þekkir Ófærufjallið eins og lófann á sér. Sigrarnir færa okkar þroska á vegferð okkar og við metum mannleg tengsl dýrar en áður. Það á fyrir okkur öllum að liggja að deyja. Það er óhjákvæmilegt. Hvað þá tekur við er spurning sem allir hafa reynt að svara: Norska sálmaskáldið reynir að svara því í fimmta versi sálmsins:  

Þá hinsti garðurinn úti er

ég eygi land fyrir stöfnum 

 og eftir sólfáðum sæ mig ber 

 að sælum, blælygnum höfnum.

Og ótal klukkur ég heyri hringja

 og hersing ljósengla Drottins syngja:

,,Velkominn hingað heim til vor!”  

Við skulum leggja traust okkar á Drottinn sem leiðir okkur heil heim í friðarhöfn líkt og sálmaskáldið segir að lokum í síðasta versi sálmsins:  

Lát akker falla! Ég er í höfn.

Ég er með frelsara mínum.

Far vel, þú æðandi, dimma dröfn,

 vor Drottinn bregst eigi sínum.

Á meðan akker í ægi falla

ég alla vinina heyri kalla,

sem fyrri urðu hingað heim.

En þangað til kæru Krists vinir, að lífsglasið okkar rennur út, þá skulum við leitast við að lifa þessu lífi lifandi líkt og þessi Siglingahátíð sem hafin er ber vott um. Við skulum um leið minnast með virðingu og þökk allra látinna sjómanna sem lögðu líf sitt í sölurnar til að gera þessa þjóð og aðrar norrænar þjóðir sjálfbjarga.  

Megi góður Guð bera okkur eftir sólfáðum sæ að sælum, blælygnum höfnum. Gleðilega hátíð í Jesú nafni.  

Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda, svo sem var frá upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.  

Við þökkum þér, algóði Guð fyrir að hafa leitt sérhverja áhöfn heila heim til hafnar á Húsavík í tilefni að þessari Siglingahátíð sem hafin er. Við biðjum þig að halda almáttugri verndarhendi þinni yfir sérhverju dagskráratriði á þessari hátíð. Gef okkur hvítalogn og sólfáðan sæ þessa daga, frið og gleði í hjarta. Og við biðjum þig að gefa sæfarendum sem hafa sótt þessa hátíð frá fjarlægum löndum góðan byr þegar þeir halda heim á leið að lokinni hátíðinni. Amen 

 Á Siglingahátíðinni á Húsavík var verkefninu Garðarshólmur ýtt úr vör. Um það má lesa á vef Háskóla Íslands.