Engin spurning!

Engin spurning!

Það má segja að spurningakeppni fermingarbarna á Austurlandi, sem hér er fylgt úr hlaði, sé að nokkru ætlað að bregðast við þessu og hvetja til aukinnar þekkingar á kristinni trú, bæði meðal fermingarbarnanna sjálfra, aðstandenda þeirra og annarra.

Predikun í Reyðarfjarðarkirkju 30. jan. 2011, við upphaf úrslita 1. spurningakeppni fermingarbarna á Austurlandi. Náð og friður Drottins sé með okkur öllum í Jesú nafni. Amen.

Í dag verður í fyrsta skipti keppt til úrslita í spurningakeppni fermingarbarna á Austurlandi. Undanriðlar keppninnar fóru fram í haust á fermingarnámskeiðum prófastsdæmanna á Eiðum og nú eru sigurliðin úr undanriðlunum komin hingað til Reyðarfjarðar til að etja kappi. Keppendur hafa eflaust viðað að sér fróðleik og undirbúið sig með ýmsum hætti og þó að aðeins eitt lið muni standa uppi sem sigurvegari og hampa farandbikarnum, þá er ekki að efa að allir þátttakendur muni standa sig með prýði.

Spurningaleikir af ýmsu tagi eru trúlega með vinsælli skemmtunum okkar Íslendinga og nægir þar að nefna mikið áhorf á sjónvarpsþætti á borð við Gettu betur og Útsvar. Margir hafa gaman af að láta reyna á þekkingu sína, annaðhvort með því að keppa sjálfir, nú eða þá bara með því að sitja heima í stofu eða úti í sal og vita auðvitað allt betur en keppendurnir! Öll þekking er líka einhvers virði þó að mishagnýt sé, og vonandi hættir maður aldrei að læra og bæta við sig fróðleik. Samt sem áður verður að viðurkennast að þrátt fyrir fróðleiks- og spurningaþorsta landans, læðist að manni sá grunur að biblíusögur og kenningar kristinna fræða séu ekki endilega í hópi þeirra sviða sem fólk sækist almennt eftir kunnáttu á. Þetta má t.d. ráða af fátæklegum svörum keppenda í spurningaþáttum við einföldustu biblíuspurningum.

Það má segja að spurningakeppni fermingarbarna á Austurlandi, sem hér er fylgt úr hlaði, sé að nokkru ætlað að bregðast við þessu og hvetja til aukinnar þekkingar á kristinni trú, bæði meðal fermingarbarnanna sjálfra, aðstandenda þeirra og annarra. Grundvallarþekking á helstu frásögnum Biblíunnar, boðorðunum 10, trúarjátningum kirkjunnar og öðrum „hápunktum“ kristinfræðanna, hefur nefnilega bæði trúarlegt, siðferðilegt og menningarlegt gildi. Fyrir kristinn einstakling, sem sækir styrk sinn í daglegu lífi í trúna, er tiltekin þekking nauðsynlegt haldreipi á vegi trúarinnar. Hin siðferðilega leiðsögn sem t.d. margar dæmisögur Jesú og boðorðin veita nýtist mönnum svo jafnvel burtséð frá trúarsannfæringu. Og heimur vestrænnar myndlistar, leikritunar, ljóðlistar og margra annarra listgreina í aldir, með öllum þeim trúarlegu tilvísunum sem þar er að finna, lýkst vart upp fyrir þeim sem einskis fróðleiks hefur aflað sér í frásögnum Biblíunnar. En þrátt fyrir allt er það nú svo, að við skiljum trúna aldrei til fulls með því einu að afla okkur þekkingar og beita rökum og skynsemi hugans. Aðferðir vísindanna duga okkur skammt þegar við leitum svara við krefjandi spurningum um trú og tilgang, líf og dauða, Guð og verk hans. Og margt sem við lærum um í Biblíunni er þess eðlis að hugur og skynfæri manneskjunnar fá ekki fangað það, heldur aðeins hjartað í einlægri trú.

Í guðspjallsfrásögninni, sem lesin var hér áðan, sláumst við í för með hópi manna sem trúði ekki einu sinni sínum eigin augum þegar þeir sáu Jesú. Við skulum nota ímyndunaraflið til að setjast um stund niður í litla bátnum á Genesaretvatni við hlið lærisveina Jesú, þessara fátæku alþýðumanna sem Drottinn hafði valið til að gegna mikilvægu hlutverki fyrir sig. Við sjáum óveðursskýin hrannast upp á næturhimninum og finnum bátinn byrja að hreyfast ískyggilega undir fótum okkar, stöðugt meira og meira. Við finnum hvernig óttinn og kvíðinn fyrir framhaldinu byrjar að gagntaka hópinn. Þá gerist það, þetta sem er bæði skelfilegt og undursamlegt á sama tíma.

Við horfum út á vatnið og sjáum bjarta ásjónu vinar okkar, Jesú Krists, birtast á því. Við þurfum að klípa okkur í handarbakið til að vera viss um að okkur sé ekki að dreyma. Nei, þetta er ekki draumur. Jesús gengur á vatninu. Við æpum upp yfir okkur af hræðslu: Þetta er vofa. En hann svarar okkur með þessum stórkostlegu orðum: Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.

Þá er það Pétur sem stígur fram. Þetta er svo góður drengur og vill öllum vel, en hann er svolítið hvatvís, ákafamaður. Hann vill líka ganga á vatninu, vill vera eins og meistarinn okkar, og tekst það í skamma stund. En síðan er eins og hræðslan verði trúnni yfirsterkari hjá Pétri og hann byrjar að sökkva. Jesús kemur honum til bjargar og innan stundar sitja þeir báðir með okkur í bátnum, og vindinn hefur lægt. Við erum ekki lengur hrædd vegna þess að Jesús, þessi ótrúlegi vinur okkar, er hjá okkur og við treystum honum.

Nú er spurt:

Gerðist þessi atburður í raun og veru? Hafði Jesús raunverulega máttinn til að sveigja náttúruöflin með því að ganga á vatninu? Eða var þetta kannski draumur, ofsjónir eða óskhyggja lærisveinanna, færð í letur í þeirri von að hún verði raunveruleg? Eru kannski til „vísindalegar“ skýringar á þessum atburði, t.d. að báturinn hafi í reynd verið nálægt landi, vatnið grunnt og skyggnið slæmt svo að mönnum missýndist auðveldlega? Eða er þessi saga bara hreinn uppspuni, lygasaga sem illa innrættir menn sömdu og prentuðu til að afla málstað sínum fylgis? Eða er eitthvað allt annað á ferðinni? Þessara spurninga verður ekki spurt í keppninni hér á eftir, né í nokkurri spurningakeppni, ef út í það er farið. Og svörin við þeim er hvergi að finna í bókum. Þeim verður hver og einn að svara fyrir sig, ekki með krafti þekkingarinnar heldur með afli hjartans og augum trúarinnar.

Ég vil ljúka þessari hugleiðingu með því að deila með ykkur mínu persónulega svari við þessum spurningum og gera það að vitnisburðinum um trú mína.

Ég er sannfærður um að þessi frásögn sé sönn. Ég tel að skynfæri og hugur mannanna sé ófullkominn, en Guð einn sé fullkominn. Ég trúi því að sá Guð, sem birtist í Jesú Kristi, hafi skapað heiminn og hafi raunverulega kraftinn yfir náttúruöflunum. Ég trúi því líka að þegar ég sé ástvin minn liggja látinn í kistu, þá sé hann í raun og veru, þvert á allt sem skilningarvitin segja mér, lifandi í faðmi Guðs. Ég trúi því að þó að ég sjái Guð aldrei berum augum, þá sé hann alltaf hjá mér, nálægari mér en mín eigin hugsun; lifandi frelsari sem segir við mig dag hvern:

Vertu hughraustur. Það er ég. Vertu óhræddur. Og það – er engin spurning. Í Jesú nafni. Amen.