Sjálfsmynd - í Guðs mynd

Sjálfsmynd - í Guðs mynd

Auðvitað viljum við nýta hæfileika okkar sem best. Þeir eru gjöf frá Guði, talentur sem ekki ber að grafa í jörð. Hver manneskja hefur sína hæfileika, hver á sinn hátt. Það er mikilvægt að þú byggir sjálfsmynd þína á þeim gjöfum sem Guð hefur gefið einmitt þér. Við eigum ekki gjafir hinna. Þau bera ábyrgð á þeim.

Ég sótti um daginn frábæran fyrirlestur á vegum Lágafellsskóla þar sem umræðuefnið var sjálfsmynd barna okkar. Í framhaldi af því vöknuðu þessar hugsanir:

Sjálfsmynd. Mynd okkar af eigin veru, tilfinningum, hæfileikum, útliti, afköstum. Hugsanir okkar um eigið manngildi – eða skort á því.

Hvert sækjum við sjálfsmynd okkar? Sækjum við hana í vinnuna, starfsheitið, starfsvettvanginn? Sækjum við sjálfsmyndina til launanna okkar, vegum við okkur sjálf og metum eftir tekjunum sem við öflum? Leitum við ef til vill sjálfsmyndar í því fólki sem við umgöngumst í vinnu eða frítíma? Erum við mikilvægari í eigin augum ef við þekkjum hana eða hann sem “allir” þekkja eða berast á fjölmiðlaflóðinu?

Hvar finnum við sjálfsmyndinni efnivið? Hvert er okkar draumasjálf? Er viðmiðið hið ytra, fólk sem við erum í samkeppni við á einhvern hátt, efnisleg gæði, vinnustundafjöldi? Erum við aldrei nógu góð í eigin augum, afköstin ófullnægjandi, útlitið stuðandi, talandinn truflandi? Verðum við aldrei ánægð með okkur sjálf?

Sjálfsánægja þykir ekki jákvætt hugtak. Minnisstæð er flökkusagan af húsmóðurinni sem afsakaði lítinn og vondan matinn – sem í raun var hlaðið borð hnossgæti - með orðunum: “Ég mallaði þetta nú bara sjálf – ef mig skyldi kalla”.

Ef mig skyldi kalla. Hvaða viðmið höfum við í lífinu? Kanske var fyrirmynd þessarar hæfu konu hin fullkomna móðir og húsfreyja, konan sem var aldrei til og verður aldrei. Væri flökkusagan sú arna færð til nútímans gætum við séð fyrir okkur konu á framabraut sem finnst hún aldrei nógu skilvirk, aldrei afkasta nægjanlega miklu, aldrei geta það allt sem af henni er ætlast. Ef mig skyldi kalla.

Og bróðir minn, karlmaðurinn. Hann er undir sömu áþján. Meira, meira, gera betur, geta betur. Hann ber sig líka í sífellu saman við hinar manneskjurnar, “pabbi var sívinnandi”, “samstarfskona mín fær fleiri verkefni en ég”, “launin mín hafa dregist aftur úr”, “ég verð að afla mér meiri menntunar”. Ef mig skyldi kalla.

Við skuldum okkur sjálfum að staldra við og íhuga sjálfsmynd okkar. Og ekki bara okkur sjálfum, heldur líka fólkinu sem umgengst okkur daglega, makanum, börnunum. Til að byggja upp sjálfsmynd barnsins þíns þarft þú fyrst að athuga þína eigin, var sagt á fyrrnefndum fyrirlestri. Við skuldum líka Guði að uppfæra sjálfsmyndina af og til.

Ef það er satt – og því trúi ég – að algóður, kærleiksríkur Guð standi að baki lífi okkar mannfólksins hér á jörðunni þá hljótum við að velja að sjá okkur sjálf í því ljósi. Gildi mitt sem manneskju sæki ég ekki til sjálfrar mín. Ég er ekki fær um að standa undir eigin kröfum og væntingum umhverfisins. Ég megna ekki að sanna neitt fyrir hvorki sjálfri mér né öðru fólki. Ég get það ekki – en Guð hefur sannað allt sem sanna þarf með því að gefa mér hina sönnu mennsku í Jesú Kristi.

Hin sanna mennska – mitt sanna sjálf – er ekki háð dugnaði mínum. Hún grundar ekki í samanburði við aðra. Hún er ekki háð tekjunum sem ég afla. Hin sanna mennska, gildi mitt sem manneskju, er gjöf. Ég er eins og ég er – fyrir Guðs náð. Það sem ég kann að afreka, öðrum til heilla, er ekki mitt verk. Sú vitneskja færir mér hugarró. Og þegar ég afreka alls ekki neitt, er mér líka óhætt.

Auðvitað viljum við nýta hæfileika okkar sem best. Þeir eru gjöf frá Guði, talentur sem ekki ber að grafa í jörð. Hver manneskja hefur sína hæfileika, hver á sinn hátt. Það er mikilvægt að þú byggir sjálfsmynd þína á þeim gjöfum sem Guð hefur gefið einmitt þér. Við eigum ekki gjafir hinna. Þau bera ábyrgð á þeim.

En til þess að geta nýtt gjafir Guðs, ávaxtað talentur okkar á heilbrigðan hátt, þurfum við að láta af samkeppnishugsuninni. Draumasjálfið ætti ekki að vera miðað við hitt fólkið heldur lífgjafann Jesú Krist. Við verðum víst aldrei eins og hann. En það er allt í lagi. Frelsi sjálfsmyndarinnar er fólgið í því að þurfa ekki í sífellu að bera sig saman við fólk. Við miðum okkur sjálf einvörðungu við frelsarann. “Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur” (Fl 2.6).

Við erum sköpuð í Guðs mynd. Markmið okkar að að fá hlutdeild í heilagleika Guðs (Heb 12.10), að ná vaxtartakmarki Krists fyllingar (Ef 4.13). Sú fylling, sá heilagleiki, á ekkert skylt við dyggð dugnaðarins, sem sífellt hrópar á hrós umhverfisins. Sú sjálfsmynd sem er guðsmynd fær alla þá næringu sem hana skortir í samfélaginu við himneskan föður. Hann kann að leiða okkur til vegsauka meðal fólksins. Eða ekki. Hans vegur kann að færa okkur veraldleg auðæfi. Eða ekki. Það skiptir ekki máli. Eina sem máli skiptir er að eiga frið sinn í Guði. Ef afköstin okkar koma í veg fyrir það erum við á rangri braut. Ef athafnasemin brýtur niður kyrrð hjartans frammi fyrir Guði sínum er hún einskis virði.

Verk okkar ættu að vera ávöxtur samfélagsins við Guð. Það getur aldrei orðið öfugt – að verkin liggi til grundvallar guðstrúnni. Trúin fyrst og verkin svo. Nægtaborð heimilis eða vinnu berum við fram sem ávöxt þess lífs sem við eigum með Guði. Alveg sjálf. Og svar Guðs við því andvarpi hjartans sem í orðum konunnar góðu felst er: Ég kalla þig. Þú ert kölluð af mér. Þess vegna ertu þú sjálf, dýrmæt perla í augum Drottins.