Þessi er vitnisburður Jóhannesar, þegar Gyðingar sendu til hans presta og levíta frá Jerúsalem að spyrja hann: Hver ert þú? Hann svaraði ótvírætt og játaði: Ekki er ég Kristur. Þeir spurðu hann: Hvað þá? Ertu Elía? Hann svarar: Ekki er ég hann. Ertu spámaðurinn? Hann kvað nei við. Þá sögðu þeir við hann: Hver ertu? Vér verðum að svara þeim, er sendu oss. Hvað segir þú um sjálfan þig? Hann sagði: Ég er rödd hrópanda í eyðimörk: Gjörið beinan veg Drottins, eins og Jesaja spámaður segir. Jóh 1.19-23
I Jóhannes skírari
Jóhannes skírari er að mörgu leyti sérkennileg persóna og við eigum í erfiðleikum með að staðsetja hann. Hann er furðulegur í háttum. Föt og mataræði hans virka framandi, þrátt fyrir allar tískusveiflur, en Jóhannes „var í klæðum úr úlfaldahárum með leðurbelti um lendar sér og át engispretttur og villihunang“ (Mk 1.6). Það var þó ekki þetta sem vakti athygli samtímamanna hans, heldur boðunin.
Jóhannes segir: „Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði? Berið [...] ávöxt samboðinn iðruninni! [...] Öxin er þegar lögð að rótum trjánna, og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað. Ég skíri yður með vatni til iðrunar, en sá sem kemur eftir mig, er mér máttugri, og er ég ekki verður að bera skó hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi.“ (Mt 3.8–11)
Þessi ræða vakti athygli og menn áttu erfitt með skilja hana og flytjandann. Þess vegna koma gyðingar til Jóhannsar og spyrja hann hreint út: „Hver ert þú?“ Það er merkilegt við svar Jóhannesar að hann skilgreinir sjálfan sig í ljósi þess hverjum hann þjónar. Þetta gerum við kristnir menn alltof sjaldan. Við erum stöðugt að spyrja hvað kirkjan segi um þetta og hitt? og oft er sagt: „Ef kirkjan væri nú öðruvísi, þá ...“ Við prestarnir tökum þetta jafnvel til okkar og höldum að við séum það sem kirkjan stendur fyrir. Það er rangt eins og Jóhannsar skírari sýnir okkur.
Hann svaraði ótvírætt og játaði: „Ekki er ég Kristur, ekki Elía eða spámaðurinn“. Starf mitt felst í því að vísa á Krist sem er hjálpræði okkar manna. Jóhannes segir: „Hann á að vaxa, en ég að minnka.“ (Jh 3.30).
Jóhannes er ekki að gera lítið úr sér, heldur bendir einfaldlega á þá staðreynd að í Kristi er að finna svarið við tilvistarvanda manna. Þetta var sannfæring hans og trú, en trú er ekki til án baráttu og efa. Það reyndi Jóhannes líka.
II Lífsuppgjör
Í fangelsi Heródesar verður Jóhannes skírari að gera upp líf sitt og hann byrjar að efast um sjálfan sig og Guð, um líf sitt og boðun. Hann bíður aftöku sinnar og í biðinni kvelur hann spurningin um það hvort líf hans hafi verið byggt á misskilningi. Er Jesús sá sem hann hafði boðað? Mannsonurinn sem koma myndi að dæma alla menn. Sá sem Jóhannes hafði sagt um: „Öxin er þegar lögð að rótum trjánna, og hvert tré sem ber ekki góðan ávöxt, verður höggvið og á eld kastað“.
Jóhannes hafði boðað komu harðs dómara, sem með varpskófluna í hendi sér myndi gjörhreinsa láfa sinn og safna hveiti sínu í hlöðu, en brenna hismið í óslökkvandi eldi. Og Jóhannes hafði predikað að með komu Mannsonarins myndi réttlætið loks ná fram að ganga. Hismi og hyski eins og Heródes konungur og allir kúgarar þessa heims myndu þá taka út dóm sinn.
Og svo kom Jesús frá Nasaret. Hann sveiflaði ekki beittri öxi og hjó hið fúna tré niður og hann notaði heldur ekki harða varpskóflu til að hreynsa hismið frá hveitinu. Nei, Jesús kom sem læknir veikra og hann boðaði fátækum fagnaðarerindið um fyrirgefningu syndanna.
Og lítið fannst Jóhannesi að heimurinn hefði breyst við komu Jesú. Sá sem boðaði og ruddi brautina fyrir komu Guðsríkis sat nú í fangelsi spillts harðstjóra.
Jóhannes var hugrakkur og hafði nefnt hlutina með nafni. Hann hafði sagt beint út það sem fáir þorðu vart að hugsa: Að Heródes væri latur, áhrifagjarn sveimhugi sem sveiflaðist sem reyr í vindi hentistefna og duttlunga. Og ekki hafði hann þagað þegar Heródes þverbraut lög Guðs, þegar hann tók konu Filippusar bróður síns og gerði að konu sinni. Fyrir vikið sat hann nú í fangelsi og efinn kvaldi hann. Átti hann að trúa á Jesús eða átti hann vænta annars?
Í efa sínum leitar hann til Krists að svari og það eigum við líka að gera.
III Efinn
Því efinn getur gripið okkur alveg eins og Jóhannes, enda þekkjum við af eigin reynslu hve bilið á milli vonar og veruleika getur verið stórt. Það reyna margir fyrir jólin, við jólaundirbúninginn. Þeim mun skærar sem jólaljósins lýsa upp göturnar, því dekkri verða skuggarnir í sálarlífinu. Jólunum er fagnað sem hátíð fjölskyldunnar og þá finna þeir sem eiga fáa að til einmannaleika.
Og kröfurnar sem við teljum okkur um trú að við verðum að uppfylla fyrir jólin eru miklar. Og væntingar annarra mæta okkur stöðugt, því allstaðar er okkur sagt hvernig „raunveruleg“ jól eigi vera, okkur er sagt: Hverju við eigum að klæðast, hvað við eigum að borða og hvað beri að gefa. Og allt þetta verður að kosta eitthvað. Slíkt veldur hugarangri. Við viljum gjarna gefa dýrar gjafir, en eigum sjálf oft lítið í buddum okkar. Þetta og margt annað veldur okkur áhyggjum.
Andstæða væntingana og veruleikans gerir okkur óróleg og getur gert okkur efins í trúnni eins og Jóhannes forðum. Við væntum líka mikils af Kristi og eigum að gera það.
En Kristur kemur ekki í mætti og dýrð þessa heims. Nei, hann kemur sem barn vafið reifum og lagt í jötu. Hann kemur í veikleika og hógværð. Hann kemur til þeirra sem eru blindir, haltir, veikir og fátækir. Hann kemur til þeirra sem eru hjálpar þurfi. Enda sagði hann: „Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“ Við þekkjum sögu Jesú, hann boðaði fagnaðarerindið fátækum og dó loks á krossi í veikleika. Getur hann verið sonur Guð? Sá sem kemur í slíkum vanmætti? Hver er þessi sonur Guðs og Guð sem við minnumst nú á aðventunni. Guð sem horfir á eftir fylgismenn sínum í fangelsi eins og Jóhannes forðum. Hvers megnugur er þessi Guð ef hann leyfir veikindi og slys, stríð og hugur? Andspænis slíkum spurningum grípur efinn mann. Einnig þann sem er staðfastur í trúnni. IV Guð í Kristi
Í þessu samhengi segir Leo Tolstoy:
„Þegar þú missir trúna á þann Guð sem þú áður treystir, stafar það oft af því að trú þín var röng [....] Því eins og frumstæður maður brennir skurðgoð sín þegar hann hættir að trúa á þau, þýðir það ekki að enginn Guð sé til, heldur einungis að hinn sanni Guð er ekki úr tré.“
Guð hefur kosið að vera okkar Guð eins og hann birtist í Kristi Jesú. Þar sjáum við inn í hjarta Guðs og greinum að hann er okkar elskandi faðir. Þetta sjáum við og greinum bara í Jesú. Guð vill ekki að við leitum hans í heiminum, í sögunni eða stjörunum, heldur aðeins í Kristi. Því ber okkur að hlusta vel á orð Jesú. Sá sem berst við trúarefann andspænis þverstæðum heimsins getur heyrt í svari Jesú og séð í lífi hans að tákn Guðríkisins eru þegar að verki hér heimi, en ekki mætti heldur veikleika.
Því Jesús segir við Jóhannes: „Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp“ og svo kemur hápunktur upptalningarinnar: að „fátækum er flutt fagnaðarerindið.“ Því einungis orð Guðs til okkar, „þú ert minn og þú ert mín“ yfirvinnur alla efa og ótta. Því jafnvel þegar Jesús birtist lærisveinum sínum upprisinn var efinn enn til staðar og fyrst orð hans yfirvann hann. Og hann sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu [...] sjá ég er með yður allt til enda veraldar.“
Ríki þessa heims byggja á styrkleika þegna sinna, því safna konungar og ríkistjórnir um sig öllu því besta og sterkasta sem til er í hverju landi til að standast. Það er engin tilviljun að opinberar byggingar þurfa alltaf að bera af öðrum byggingum.
Slíkt á ekki við um ríki Krists. Kristur þarfnast ekki stuðnings okkar til að standast, nei, hann kallar okkur til sín, blind í leit að tilgangi með líf okkar, hölt eftir hin mörgu föll í lífinu, veik og jafnvel dáin í vonleysi og sárfátæk í eigin réttlæti frammi fyrir Guði. Hann kallar okkur til sín eins og við erum. Og það eina sem hann vill af okkur, er að við trúum á hann og fylgjum honum. Hann kallar okkur hvert og eitt og ef við höldum í hann, í Krist í orði sínu, reynum við að það heldur gegn öllum efa og erfileikum. Þannig starfar Guð í þessum heimi. Hann vill að við trúum á hann og þjónum náunganum. Guð er vissulega allstaðar nálægur og hefur allt í hendi sér, en einungis í Kristi og orði hans vill hann birtast okkur eins og hann er. Þangað eigum við að leita.
Nú nálgast jólin og þá ber okkur að halda fyrir hugskotsjónum okkar að Guð tekur okkur að sér eins og við erum blind, hölt og fátæk. Hann hneykslast ekki á okkur, því skulum við ekki heldur gera það. Og reyna hver á sinn máta að miðla þeirrri fyrirgefningu og náð sem við eigum í Kristi til annarra. Og þá verðum við vitni að því hvernig djúpt í hversdagsleika heimsins Guð gefur okkur tilgang. Játumst eiganda okkar og húsbónda á jólum. Þeim húsbónda sem tekur að sér syndarann og leiðir okkur áfram í mætti síns ríkis, en ekki í mætti valdsríkja þessa heims. Og bendum þannig á Krist eins og Jóhannes gerði. Við skulum því á aðvenntuni klæða Jesú úr jólasveinabúningnum og virða hann sem Krist, son Guðs.