Kosningarnar til stjórnlagaþingsins tókust ekki sem skyldi. Sjálfum þótti mér þetta reyndar mjög áhugavert. Loksins gafst okkur kostur á að greiða atkvæði einstaklingum sem virðast eingöngu knúnir áfram af sannfæringu sinni - með allri virðingu fyrir hefðbundnum stjórnmálamönnum. Nei, þessi stóri hópur sem bauð sig fram til þingsins sýnist hafa mestan áhuga á því að taka þátt í umræðu um nýja stjórnarskrá með öllum þeim stóru ákvörðunum sem þar þarf að taka: með takmörkum valds, frelsi og jafnrétti, já og ýmis ákvæði sem þarna koma fram, meðal annars um blessaða þjóðkirkjuna.
Glöggt er gests augað
Íslendingar reyndust því miður ekki hafa mikinn áhuga á þessu. Kjörsókn var innan við 40% og í sjálfu sér var umræðan um þessi grunngildi fremur lítil. Hins vegar hafa stærstu fréttastofurnar úti í heimi veitt þessu athygli. Það er eiginlega synd að því skyldi ekki haldið meira að okkur því þá hefðu sjálfsagt fleiri lagt leið sína á kjörstaðinn! Af hverju þótti þetta tíðindum sæta? Jú, vegna þess að það er einsdæmi að venjulegt fólk skuli geta boðið sig fram til slíkra ákvarðana eins og í þessu tilviki. Og ákvarðanirnar fjalla aldrei þessu vant ekki um sparðatíning og kjördæmapot eins og svo oft er í kosningum á Íslandi, heldur aðalatriðin, þessi stóru mál – grunngildin og ekkert minna.
Litlu atriðin
Nú er fyrsti sunnudagur í aðventu og við komum hingað saman í Keflavíkurkirkju þar sem við njótum krafta góðra listamanna (og annarra listamanna). Framundan er magnaður tími, fullur af skrauti, litum, gjöfum og krásum. Já, þetta er tími eftirvæntingar og tími frásagna þegar við horfum í ólíkar áttir – fram á við til jólanna en svo aftur í gráa forneskju og rifjum um liðna tíma við önnur kjör en nú eru.
Ég hef nú oft barmað mér á opinberum vettvangi yfir því hlutskipti að þurfa að hengja upp glóandi seríur við háskalegustu aðstæður. Því skal þó ekki neitað að liturinn á þeim er fallegur og þegar þær eru komnar upp er sannarlega fallegra að horfa á húsið okkar. Stundum á ég það líka til að þusa yfir þeim sið að belgja sig út af krásum áður en jólin eru gengin í garð. Svo að í stað þess a vera reglulega svangur í salt, sykur og fitu þegar hringt er inn hátíðinni, erum við sum hver þegar komin að hættumörkunum í þeim efnum loksins þegar steikurnar eru bornar á borð. En auðvitað slæ ég ekki hendinni á móti reyktum sauð eða brakandi svínapuru, jafnvel þótt jólin séu ekki gengin í garð. Svo innantómt er það nú stundum í mér tuðið.
Grunngildin
En það er einmitt þetta með grunngildin sem situr enn í huganum eftir heimsóknina á kjörstað í gær. Á svona mögnuðum tímum eins og þeim sem nú eru gengnir í garð í kirkjunni vakna spurningin hvort við ættum ekki að efna oftar til slíkra kosninga. Og þá á ég ekki aðeins við sem þjóð. Við ættum e.t.v. sem einstaklingar eða fjölskylda að velta slíkum málum fyrir okkur. „Hver eru þau gildi sem ég met mest í lífi mínu?“ spyrjum við okkur einhvern tímann að þessu? Hvernig er okkar stjórnarskrá? Hvað stendur þar í fyrstu grein? Hvaða ákvæði eru þar sem ekki má breyta nema með ærinni fyrirhöfn?
Svona geta fjölskyldur líka spurt sig. Hvernig væri nú í einhverju jólaboðinu að vekti máls á því að þessi fjölskylda þurfi að setja sér stjórnarskrá? Þar gæti staðið í upphafsorðum: „markmið þessarar fjölskyldu er að ...“ Af hverju ekki?
Hvernig myndu slíkar reglur annars líta út? Þetta gætu verið almennt orðuð markmið um það hvert stefna eigi, hvað eigi að gera og fyrir hverju þurfi að berjast. Svo má auðvitað horfa á það úr hinni áttinni einnig: hvað eigum við að hætta að gera? Hverju þurfum við að venja okkur af? Þessi spurning á líka fullt erindi inn á stjórnlagaþing sálarinnar: Fyrir hvað megum við þakka?
Lifum við eins og við lofum?
Gætum við sagt þegar yfirlýsingarnar væru komnar á blað, að hegðun okkar frá degi til dags væri alveg í samræmi við þær? Það væri lítið mál að skoða það. Heimilisbókhaldið gæti leitt í ljósi hversu mikið við gefum til góðgerðarmála. Dagbókin gæti sýnt hversu mörgum stundum við verjum til sjálfboðinnar þjónustu. Ef til vill kæmumst við að því að misræmi væri þarna á milli – og þá væri sannarlega gott að gera slíka uppgötvun því þá er tækifæri til þess að leiðrétta stefnuna í þá átt sem við raunverulega viljum.
Nú er aðventan gengin í garð. Aðventan er auðvitað magnaður tími sem við mætum með miklum væntingum. Hún er líka fyrsti dagurinn í kirkjuárinu, sem er ca. mánuði á undan almanaksárinu. Áramót eru tímar heitstrenginga. Við erum svo lánsöm að hafa marga valkosti í lífinu og getum bæði gefið góðar gjafir og þegið gjafir, einkum um þetta leyti. Við gleðjumst vonandi með góðum vinum og söfnum dýrmætum minningum til framtíðar. En hugsum um stjórnarskrána okkar, sérstaklega á þessum tíma. Hugsum um þann sem við eigum að undirbúa hug okkar og hjarta fyrir. Rifjum upp boðskap Jesú. Þar finnum við stefnu sem verðugt er að fylgja.
Og nú geri ég nokkuð sem ég hef ekki gert áður, held ég. Í tilefni þess að hugvekja þessi er hluti af jólasveiflu í kirkunni ætla ég að syngja niðurlagið..!