Kristniboð - kúgun kvenna víkur

Kristniboð - kúgun kvenna víkur

Fólki er mætt þar sem það er statt, því rétt hjálparhönd án þess að traðka á því. Fólkið fær tækifæri til sjálfskoðunar þar sem hinn grimmilegi ótti andatrúarinnar víkur fyrir ljósi lífsins í Kristi Jesú. Þetta eru raunverulegir hlutir sem gerast í lífi meðbræðra okkar í fjarlægu landi.
fullname - andlitsmynd Sigurður Grétar Sigurðsson
20. nóvember 2006

Sunnudaginn 12. nóv. sl. var Kristniboðsdagurinn haldinn hátíðlegur í mörgum kirkjum landsins.  Samband Íslenskra kristniboðsfélaga, sem er leikmannhreyfing innan íslensku þjóðkirkjunnar, hefur rekið kristniboð á erlendri grundu síðan 1929.  Er nú starfsemi á þess vegum einkum í Kenyja og Eþíópíu.  Það hefur verið gefandi að fylgjast með starfi kristniboða í gegnum árin og ótrúlegt að sjá hversu vel kristniboðssambandinu tekst að reka starfssemi sína fyrir frjáls fjárframlög á hverju ári.

Hafandi notið heimsóknar Bjarna Gíslasonar kristniboða, sem starfaði um árabil í Eþíópíu, er staða konunnar mér ofarlega í huga.  Í mörgum þjóðflokkum Eþíópíu og Kenýa er staða konunnar afar bágborin.  Hún er eign eiginmanns síns sem hann kaupir af föður hennar.  Er hún þá gjarna á unglingsaldri.  Gerð er rík krafa til dugnaðar og vinnusemi konunnar og ef hún hefur ekki fætt manni sínum börn innan titekins tíma er henni jafnvel skilað sem svikinni vöru.  Andlegt og líkamlegt ofbeldi er daglegt brauð hjá mörgum konum sem eiga sér fáa eða enga málsvara.  Þær vinna öll erfiðustu störfin meðan karlarnir sitja undir tré og spjalla saman auk þess að hafa auga með skepnunum.  Ranglætið er hrópandi.

Lágur giftingaraldur stúlkna sem gjarna eru seldar sér mun eldri mönnum myndi kallast barnamisnotkun í okkar menningarheimi enda deyja margar af barnsförum m.a. vegna ungs aldurs.  Umskurn kvenna með allar sínar hörmungar viðgengst víða þó bönnuð sé með landslögum.  Íslenskir kristniboðar í Afríku og víðar hafa unnið gríðarlegt starf til að bæta kjör kvenna og barna í þessum heimshluta.  Sterkar hefðir og siðir heimamanna víkja ekki svo auðveldlega og sjaldnast vel til þess fallið að halda vísifingri hátt á lofti.  Breytingin þarf að koma innanfrá.  Þar kemur boðun fagnaðarerindisins um frelsarann Jesú Krist til skjalanna.

Þegar fólkið fær tækifæri til að heyra Guðs orð og íhuga það, velta því fyrir sér og taka yfirvegaða afstöðu spretta fram hinir ótrúlegustu ávextir kæleika og miskunnsemi.  Karlmaðurinn áttar sig á því að konan á ekki lengur að hafa stöðu húsdýranna heldur er hún félagi og jafningi sem er jafndýrmæt í augum Guðs og hann sjálfur.  Það leiðir svo af sér að ábygðarkennd vaknar og virðing vex.  Jafnræði hvað snertir verkaskiptingu og löngun til að bæta kjör sín s.s. með menntun og heilsugæslu helst í hendur við boðun trúar enda er kristniboð boðun í orði og verki.

Fólki er mætt þar sem það er statt, því rétt hjálparhönd án þess að traðka á því.  Fólkið fær tækifæri til sjálfskoðunar þar sem hinn grimmilegi ótti andatrúarinnar víkur fyrir ljósi lífsins í Kristi Jesú.  Þetta eru raunverulegir hlutir sem gerast í lífi meðbræðra okkar  í fjarlægu landi.  Skjálfsskaði og margvíslegar athafnir sem stjórnast af ótta víkja fyrir upplýstum ákvörðnum og félagslegum vexti.

Ég heimsótti kristniboðssvæði í Kenyja fyrir nokkrum árum og sá ávextina með eigin augum.  Sannarlega væri hægt að skrifa enn meira um þau merkilegu störf sem unnin eru á vegum kristniboðssambandsins en þessir þankar eru settir á blað til að hvetja alla til að gefa þessu starfi gaum og kynna sér ríkulega ávexti þess.

Guð blessi starf Sambands Íslenskra kristniboðsfélaga.