Gleðileg jól

Gleðileg jól

Barnið er fætt, frelsarinn er fæddur mér og þér og í trú tökum við á móti barninu og gerum það að okkar barni. Guð valdi að koma til okkar í litlu barni. Var vafinn reifum eins og hvert annað barn. Var mönnum líkur.

Aðfangadagur 2015. Lúk. 2:1-14.

Biðjum með orðum Guðmundur Guðmundssonar:

Ó, send mér, Guð minn, geislabrot í nótt, er glóir stjarna þín í bláu heiði, sem gefur barni veiku viljaþrótt að vinna þér á hverju æviskeiði. Amen

STÓLVERS

Gleðilega hátíð ljóss og friðar. Gleðileg jól. Kvöldið í kvöld er einstakt. Ekkert annað kvöld á árinu hefur jafn mikil áhrif á okkur og þetta kvöld, aðfangadagskvöld jóla. Andblærinn hreyfir við okkur. Það er sem himinn og jörð mætist og hið veraldlega og andlega faðmist. Hugurinn er hjá þeim sem okkur þykir vænt um hvort sem við eigum þess kost að vera í návist þeirra eða ekki. Söknuðurinn eftir þeim sem farin eru er mikill og minningarnar leita á hugann.

Það er þakkarvert að eiga heimili og fjölskyldu. Eiga vináttu og kærleika. Finna hlýju og nærveru. Eiga öruggt skjól og finna hlýjan kærleiksríkan faðm. Barnið finnur hjartslátt og hlýju móður sinnar um leið og það nærist við brjóst hennar. Það veitir því öryggi. Þess sama þörfnumst við alla ævi sama á hvaða aldri sem við erum.

Lífið er fullt af andstæðum. Þess sjáum við merki alls staðar í kringum okkur. Í jólaguðspjallinu sem lesið var úr Lúkasarguðspjalli áðan má einnig greina slíkt. Frelsari mannanna, Guð sjálfur kemur í heiminn. Gerist maður og á eins og önnur nýfædd börn allt sitt undir gæsku annarra. Barnið þarfnast næringar og umhyggju til að lifa eins og öll önnur börn. Það er mikil þverstæða við hugsanir og væntingar okkar um almætti Guðs og allt annar veruleiki en samtíðamenn Jesú væntu.

Valdsmenn heimsins geta ýmsu ráðið og ýmislegt fyrirskipað. Í guðspjallinu fyrirskipaði keisarinn að allir skyldu láta skrásetja sig. Nú keppast valdsmenn heimsins við að koma á friði. Hittast á fundum og ráða ráðum sínum. Heimurinn fylgist með í fjölmiðlum. Vinátta þeirra og samstaða er líka sýnd þegar ráðist er gegn þegnum einhvers þeirra. Þá láta þeir í sér heyra og minna á samstöðuna. Heródesar heimsins halda sínu striki en almenningur þessa heims sýnir samstöðu með þeim sem brotið er á eða ráðist á. “Við erum” segjum við til að minna okkur á að við erum öll hér á jörð og finnum til með hvert öðru.

Mannkynið er líka farið að finna til með jörðinni þar sem lífið kviknar og er. Máttur samstöðunnar er mikill. Hann birtist okkur í París stuttu fyrir jól í bókun um takmörkun gróðurhúsalofttegunda.

Mannkynið glímdi ekki við þau vandamál fyrir 2000 árum. Þjóðin fyrir botni Miðjarðarhafs hafði bundið fyrirheit Guðs við landið og sú afstaða birtist í trúarhefð þeirra. Þjóðinni fannst hún vera yfirgefin af Guði. Hún glímdi við Guðsskilning sinn. Á þeim tíma fór skrásetningin fram. Á þeim tíma voru hirðar úti í haga. Á þeim tíma birtist þeim engill og flutti þeim tíðindi.

Hirðarnir voru ekki hátt skrifaðir í samfélaginu þó þeir hefðu mikið hlutverk. Þeim var treyst fyrir hjörðinni. Hirðarnir eru fulltrúar mannkynsins. Þeim var fyrstum fluttur þessi fagnaðarboðskapur: “Yður er í dag frelsari fæddur.” Og sem fulltrúar mannkynsins þá er boðskapurinn fluttur öllum. Fagnaðarboðskapurinn er tíðindi dagsins og hann er okkur öllum ætlaður.

Já, Guð kom í heiminn í barninu Jesú. Barninu hennar Maríu, sem hafði verið sagt fyrir um að myndi fæðast í þennan heim. “Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel” Segir Jesaja spámaður í riti sínu sem skrifað er löngu fyrir fæðingu frelsarans. Immanúel þýðir “Guð með okkur.“ Við veljum okkur ekki fjölskyldu, við fæðumst inn í fjölskyldu. Þetta á við um öll börn sem fæðast í hér heimi nema barnið hennar Maríu Jesú, Guð sjálfan. Það hefur áhrif á allt okkar líf inn í hvaða fjölskyldu við fæðumst og það hefur mikil áhrif á líf okkar hvar við fæðumst á þessari jörð. Inn í hvernig aðstæður og inni í hvaða aðstæður. En Guð valdi að koma til jarðarinnar í barninu Jesú. Ganga veg mennskunnar frá fæðingu til dauða. Hann einn var þess megnugur að velja sér fjölskyldu.

Barnið er fætt, frelsarinn er fæddur mér og þér og í trú tökum við á móti barninu og gerum það að okkar barni. Guð valdi að koma til okkar í litlu barni. Var vafinn reifum eins og hvert annað barn. Var mönnum líkur.

Það sem á eftir fer í þeirri sviðsmynd sem Lúkas dregur upp sætir einnig tíðindum. Engillinn flytur fyrstu prédikun fagnaðarerindisins hér á jörðu. Að sá sem frelsar sé fæddur. Til að undirstrika þýðingu hennar fyrir mig og þig og mannkyn allt kemur englakór og syngur: „Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.“ Tíðindin eru því ekki flutt fjárhirðunum einum heldur mannkyni öllu. Hirðarnir fóru og kunngjörðu allt sem þeir höfðu heyrt og séð og voru því fyrstu boðberar tíðindanna, sem hafa borist mann fram af manni, kynslóð eftir kynslóð, frá einu landi til annars, um heim allan. Líf barnsins hennar Maríu, hefur haft áhrif á einstaklinga og samfélög, hugsunarhátt og líðan allra þeirra er heyrt hafa og meðtekið. Líf drengsins hefur haft áhrif á listamenn og sköpun þeirra. Hefur verið þeim innblástur og vakið löngun manna til að segja öðrum frá.

Fyrir nærri 200 árum var lagið samið sem heyrist nú um víða veröld og er sungið hér í kvöld við sálm Sveinbjörns Egilssonar, Heims um ból. Í litlu þorpi í dalverpi í austurrísku Ölpunum varð lagið til. Í þorpinu bjuggu presturinn Jósep Mohr og kennarinn og orgelleikarinn í kirkjunni Franz Gruber. Ungir menn og aðfluttir og góðir vinir, er hittust hvern sunnudag og sungu saman. Gruber söng bassa, sr. Mohr tenór og hann lék undir á gítar. Orgel áttu þeir ekki fremur en annan veraldlegan auð. Og börnin í þorpinu stóðu fyrir utan prestsetrið, hlustuðu, kinkuðu kolli hvert til annars og sögðu: Nú syngja þeir saman, presturinn og kennarinn.

Á aðfangadag jóla árið 1818 var sr. Mohr einn í skrifstofu sinni. Þá var barið að dyrum. Bóndakona úr fjöllunum, með grófgert skjal yfir herðum, stóð úti fyrir. Kveðja hennar var: Jesús Kristur sé lofaður. Hún sagði sr. Mohr, að barn hefði fæðst í húsi fátæks kolagerðarmanns og foreldrarnir vildu, að presturinn kæmi og veitti því blessun sína svo að það mætti lifa og dafna. Sr. Mohr fór með konunni. Þau komu að hrörlegum kofa. Þar logaði dauft ljós, ung kona lá þar inni, brosandi og sæl með nýfætt barn í örmum sínum. Sr. Mohr veitti móður og barni blessun, gekk síðan heim á leið niður fjallshlíðina. Þessi atburður á jólanótt hafði mikil áhrif á hann. Honum fannst dásemd jólanna hafa borið fyrir augu sín í litla fjallakofanum, og sál hans fylltist friði. Níðri í dalnum blikuðu blys bændanna, sem voru á leið í kirkju, þar sem sr. Mohr hélt hátíðlega guðsþjónustu um miðnættið. Um nóttina varð hann andvaka - og hann færði í búning það, sem gerst hafði - hann orti sálminn: Stille nacht, heilige nacht. Um morguninn fór hann að hitta Gruber vin sinn og bað hann að semja lag við þetta litla ljóð. „Þetta er jólasálmurinn, sem okkur vantaði. Guð sé lof," sagði Gruber og tók strax til við að semja lagið. Skömmu síðar sungu þeir vinirnir lag og ljóð, tvíraddað og léku undir á gítarinn. Og börnin stóðu fyrir utan og hlustuðu á nýja lagið. Þau voru söngelsk eins og austurríska þjóðin öll. Þarna höfðu þau eignast nýtt lag, þótt þau vissu ekki að þennan jóladag hafði orðið til sálmur, er átti eftir að fara um heimsbyggðina alla. Nokkru síðar kom orgelsmiður til þorpsins og gerði við gamla kirkjuorgeið. Vinirnir spiluðu og sungu sálminn sinn og orgelsmiðurinn hlustaði hugfanginn á, lærði lag og ljóð og flutti með sér heim í dalinn sinn. Þar söng hann fyrir börnin í dalnum, en þar var sönglistin mjög í hávegum höfð. Stasserbörnin sungu best. Þau seldu gemsuskinnhanska, sem foreldrar þeirra bjuggu til. Þau sungu hvar sem þau komu og þau hófu söng sinn alltaf á laginu, sem þeim þótti svo fallegt: Heims um ból. Þau sungu fyrir viðskiptavinina og eitt sinn var sönglistarstjóri konungsins af Saxlandi áheyrandi þeirra. Hann fékk þau til þess að syngja fyrir drottninguna og kónginn af Saxlandi, er hrifust af hinum fagra söng þeirra. Söngurinn var kallaður: Söngurinn himneski.

„Heims um ból" á afmæli hvern jóladag. Sálmurinn barst frá einu landi til annars eins og boðskapur engilsins um fæðingu frelsarans.

Engill stígur fram með boðskapinn og lýsir upp myrkur næturinnar. Dýrð Guðs umlykur allt þegar engillinn birtist. Ljósið fylgir Guði sem hefur stofnað til friðar milli sín og mannanna barna. Ljósið er tákn heilagleika Guðs. Friður Guðs kemur með barninu Jesú. Við meðtökum frið við Guð, sem leiðir til friðar mannsins við sjálfan sig og milli manna. Við þurfum ekki að vinna okkur inn velþóknun Guðs, heldur skulum við gefa Guði dýrðina með því að meðtaka boðskapinn í trú. Dýrð Guðs endurspeglast í mannlegum veruleika. Tíðindi engilsins beina sjónum hirðann til þess nýja veruleika sem brýst fram í Jesú Kristi. Í dag er ykkur frelsari fæddur segir engillinn og þau orð eiga líka við í lífi hvers manns, hvers karls, hverrar konu, sem meðtekur hin himnesku boð. Í dag er þér frelsari fæddur.

Guð gefi þér gleðileg jól. Amen.