Lútherska heimssambandið (LH) er samband 144 Lútherskra kirkna í 98 löndum með 72 milljónir meðlima. Sambandið var stofnað árið 1947 í Evrópu þar sem kirkjur vildu taka höndum saman og nota kirkjurnar sem farveg fyrir hjálparstarf á þeim svæðum sem höfðu orðið illa úti eftir stríðið. Íslenska Þjóðkirkjan er einn af stofnaðilum sambandsins. Tæplega 90 % af fjármunum sambandsins í dag renna til hjálparstarfs víða um heim en LH er fimmti stærsti samstarfsaðili Flóttamannahjálpar sameinuðuþjóðanna. Sambandið stendur einnig fyrir fjölda annara verkefna um heim m.a. í tengslum við fæðuöryggi, mikilvægi menntunnar og réttindabaráttu kvenna. Lútherska kirkjan á norður Indlandi stendur fyrir stóru verkefni sem hefur það að markmiði að styrkja dalíta konur (stétt hinn réttlausu á Indlandi). Hér kemur ein saga sem átti sér stað í fyrra og lýsir hversu mikilvægt þetta starf kirkjunnar er.
Í fátæku þorpi var haldið sjálfstyrkingarnámskeið og 10 konur mættu, en þær eru allar dalítar. Á námskeiðinu var þeim kennt að þær ættu rétt á því að fá bankalán, en raunveuleikinn á þessu svæði er sá að jafnvel þótt búið sé að setja það í lög að dalítar eigi fullan rétt í samfélaginu eins og aðrir er staðan ekki þannig. Þær fóru því 10 saman í banka í næsta bæ. Þegar þær mættu í bankann sagði bankastjórinn að auðvitað fengi þær ekki bankalán af því að þær væru augljóslega dalítar. Konurnar gáfust ekki upp náðu í lögreglukonu og fóru með hana í bankann og sögðu við hana fyrir framan bankastjórann að hann hefði neitað þeim um bankalán. Bankastjórinn fór allur í flækju og sagði að það hefði nú verið einhver misskilningur, auðvitað fengu þær bankalán, hann hafði ekki möguleika á öðru því þá væri hann að brjóta lög. Konurnar þökkuðu lögreglukonunni fyrir aðstoðina og hún fór. Þá breyttist nú tónninn í bankastjóranum og hann sagði að þetta kæmi auðvitað ekki til greina. Þá tók ein konan upp síma og sagðist hafa sönnun að hann hefði ætlað að gefa þeim lán, hún hafði tekið samtal lögreglunnar og bankastjórans upp. Bankastjórinn fussaði og sveiaði og konurnar fengu lánið. Þetta var í fyrra og núna eru konurnar búnar að fá fyrstu uppskeru af landinu sem þær leigðu. Þær biðu með að selja ekki strax, því verðið er svo lágt á uppskerutímanum. Peninginn sem þær græddu á því að bíða keyptuð þær útsæði fyrir næstu uppskeru. Núna hafa þessar 10 konur meiri trú á sjálfum sér, hafa fengið að upplifa samstöðumátt og smá auka tekjur til þess að draga fram lífið í samfélagi þar sem að þær þurfa að berjast fyrir því að gefa börnunum sínum að borða og fyrir mannréttindum sínum. Mennt er máttur! Stjórnandi námskeiðsins fór síðan í bankann og pantaði tíma hjá bankastjóranum til þess að þakka fyrir að þessar 10 dalítakonur hefðu fengið lán. Bankastjóranum var ekki skemmt með þessari heimsókn, en hún sagði að það væri mikilvægt að kirkjan sinnti hlutverki sínu í mannréttindabaráttu dalíta á Indlandi og fylgdi málum eftir. Talið er að um að rúmlega 200 milljónir (ekki eru nú allir sammála um þessa tölu) dalítar búi í Indlandi og staða þeirra á mörgum svæðum er mjög slæm. Sjálfstyrkingarnámskeið og fræðsla fyrir konur eru ein áhrifaríkasta leiðin til þess að styrkja fjölskyldur til betra lífs.
Sjá heimasíðu https://www.lutheranworld.org/