Nýtt kirkjuár - nýtt upphaf

Nýtt kirkjuár - nýtt upphaf

Á aðventu væntum við því ekki aðeins jólahátíðarinnar með öllu sínu laufabrauði og hangikjöti og pökkum. Við væntum frelsarans. Það er hann sem við ætlum að taka á móti þegar hann kemur. Og við væntum einnig þess dags þegar Guð mun eyða öllu myrkri og óréttlæti og skapa nýjan himinn og nýja jörð réttlætis og friðar.
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
27. nóvember 2011

Fyrsti sunnudagur í aðventu markar nokkurskonar straumhvörf í kirkjunni. Þá á ég ekki aðeins við hérna í kirkjunni okkar eða í íslensku þjóðkirkjunni, heldur í heimskirkjunni sjálfri. Og við erum öll, kristnir menn,  hluti af þeirri heimskirkju, hvaða kirkjudeild sem við annars tilheyrum. Dagurinn markar straumhvörf vegna þess að hann er fyrsti sunnudagurinn í nýju kirkjuári, einskonar kirkjulegur nýársdagur. Hann er þrunginn hinu nýja sem býður, boðar nýja tíma, nýtt upphaf og nýja von.             Það býr líka meira að baki. Nafn dagsins og tímabilsins er nú fer í hönd, aðventa og fyrsti sunnudagur í aðventu, er sótt í latneska orðið “adventus” sem þýðir í raun koma. Adventus, eða aðventa þýðir að eitthvað sé að koma og er orðið þess vegna fullt eftirvæntingar. Eitthvað stórkostlegt er að fara að gerast. Við sjáum eftirvæntinguna lýsa út úr augum barna og fullorðinna, þó orsakir eftirvæntingarinnar séu efalaust margbreytilegar. Og hvað er það sem er að koma? Jú, auðvitað, jólin, það vita allir.  Jólin eru að koma! Og jólin eru gleðihátíð, hátíð sem fólk við hið ysta haf hefur hlakkað til öld eftir öld, löngu áður en kristinn siður breiddist út. Jólin eru tími ljósanna í myrkrinu, fæðingarhátíð nýrrar sólar. Umfram allt eru jólin þó fæðingarhátíð frelsarans.             En jólin eru ekki enn komin þegar aðventan rennur upp. Orðið aðventa þýðir reyndar meira heldur en aðeins það að eitthvað sé að koma. Það þýðir í raun að eitthvað sé að koma og að þetta sem er að koma sé svo nærri að það sé þegar farið að hafa áhrif á okkur. Eða með öðrum orðum. Á meðan við bíðum er það sem við bíðum eftir þegar farið að hafa áhrif á okkur og móta okkur. Við kveikjum á aðventukertum og börnin opna brátt jóladagatölin. 

Á einhvern leyndan hátt hafa jólin nú þegar snortið okkur þegar aðventan gengur í garð.             Guðspjall fyrsta sunnudags í aðventu fjallar um  innreið Jesú í Jerúsalem forðum og hvernig fólkið tók á móti honum syngjandi “:Hósanna syni Davíðs, blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins”.

Þetta fólk sem fagnaði Jesú fyrir hartnær 2000 árum hafði lengi beðið eftir frelsara. Þetta var hernumið fólk, undir járnhæl rómverska heimsveldisins og fyrir löngu búið að gefast upp á leiðtogum sínum. Rétt eins og við mörg hver erum búin að gefast upp á okkar leiðtogum í dag. En spámenn Gamla testamentisins höfðu sagt fyrir um frelsarann sem Guð myndi senda þjóðinni. Og fólki vænti herfursta er frelsa myndi landið með uppreisn og blóðbaði.

Jesús var ekki sá. Hann kom til þess að heyja sitt stríð, það er satt. En það var ekki stríð með manndrápum. Hann kom til að berjast fyrir réttlæti Guðs. Vopn hans var ljós sannleikans. Hann kom hógvær, ríðandi á asna, afkvæmi áburðardýrs. Hann kom til að frelsa þá er sæta kúgun, en ekki til þess að kúga aðra. Hann kom til að frelsa Ísraelsmenn jafnt sem útlendinga, konur jafnt sem karla, börn, fullorðna, þig og mig. Hann kom til þess að leiða okkur öll til ljóss síns. Þess vegna sneri lýðurinn við honum bakinu og sveik hann hann, lýðurinn er áður hafði fagnað honum með Hósíanna hrópum. Því lýðurinn vildi blóð og hefnd, en ekki ljós Guðs og réttlæti og frið. Þau sem fögnuðu frelsara sínum negldu hann nokkrum dögum síðar upp á krossinn.             Réttlæti Guðs sem Jesús bauð okkur er það réttlæti sem öllum er ætlað og boðið, sem skapar nýja tilveru jafnréttis og bræðralags. Guð kom til heimsins í Jesú með þetta réttlæti en heimurinn hafnaði honum.

Upprisinn er Jesús í dag með heiminum, með þér og mér og boðar okkur réttlæti sitt.

Og sá dagur mun koma þegar hann birtist í mætti sínum og þurkar burt hatrið, og myrkrið í heiminum og lætur réttlæti sitt ríkja eitt. Hvenær sá dagur rennur vitum við ekki.

En við væntum hans. Við bíðum eftir honum. Og hann er í nánd. Hann kemur.   Á aðventu væntum við því ekki aðeins jólahátíðarinnar með öllu sínu laufabrauði og hangikjöti og pökkum. Við væntum frelsarans.

Það er hann sem við ætlum að taka á móti þegar hann kemur. Og við væntum einnig þess dags þegar Guð mun eyða öllu myrkri og óréttlæti og skapa nýjan himinn og nýja jörð réttlætis og friðar. Um leið væntum við nýs upphafs fyrir kirkjuna og alla kristna menn. Við látum alla erfiðleika að baki og treystum Guði fyrir nýrri framtíð.

Og við göngum til nýs kirkjuárs full vonar og gleði og bjartsýni.

Hósíanna syni Davíðs Blessi Herrann þennan mann. Hósíanna syni Davíðs. Í nafni Drottins kemur hann. Hósíanna í hæðum hósianna, hósía - Blessi Herrann þennan mann, í nafni Drottins kemur hann.   Matt 21.9 – þýtt af höfundi úr sænskum sálmi við lag G.J.Vogler