Jólanóttin er að baki. Eftirvæntingin og spenningurinn, gleðin og hátíðleikinn, kannski spennufallið hjá einhverjum eftir stundina sem hafði verið undirbúin svo lengi og af svo mikilli alúð. Í dag er hátíð, en yfir henni er ró. Svo mikil ró hjá sumum að þeira fara helst ekki úr náttfötunum. Það er eins og við séum öll að tipla á tánum kringum vöggu nýfædds barns.
Í gær var jólaguðspjall Lúkasar lesið í messunni. Það er sagan sem við þekkjum svo vel, sagan sem við göngum inn í á hverjum jólum, sem er lesin, sungin og leikin á aðventu og um jól. Sem á sér ótal myndir í listaverkum aldanna. Sagan um barnið sem fæddist í jötu. Um engla sem boðuðu fæðingu frelsara og hirða sem trúðu því.
Í ljóma fjarskans sjáum við þessa sögu næstum sem glansmynd. Þeirri þversögn gerðu þeir baggalútspiltar skil á áleitinn og frumlegan hátt í jólalagi sínu árið 2006:
„Þau létu fyrirberast inni í fjárhúsi, með ösnum og kindum. En það var ósköp kósí. Ekki ósvipað gömlum biblíumyndum. Þar kom í heiminn mannkyns von; Hinn kunni Jesús Kr. Jósepsson. Hann endaði í jötunni, beint undir Betlehemsstjörnunni. Og þannig hljóðar nú sagan af því Þegar hann Jesús kom heiminn í."
En glansmynd er ekki boðskapur jólanna og þess vegna er gott að íhuga einnig annað jólaguðspjall, það sem lesið var í dag. Í stað einfaldrar frásagnar kemur flókinn texti sem talar um orðið, ljósið, lífið, heiminn. Texti sem talar abstrakt og dregur upp sterkar andstæður. Samt er boðskapurinn sá sami og í jólafrásögunni - í heiminn er kominn sá sem öllu breytir og það hefur áhrif á líf okkar.
--- Myndin sem þar er dregin upp er ekki af barni í jötu, en þarna má finna aðrar myndir:
Í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir tilstilli hans, án hans varð ekki neitt sem til er.
Við heyrum í þessum texta enduróm annars þekkts texta úr Biblíunni - upphafsins, fyrstu versa Biblíunnar:
Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð.
Það er ekki tilviljun. Jóhannesarguðspjall er skrifað til safnaðar sem þekkti sköpunarsöguna. En ýmislegt í guðspjallinu bendir einnig til þess að þeir hafi þekkt heimspeki stóumanna og gríska tvíhyggju. Stefnur og straumar í samtíma þeirra sem rita hafa áhrif, rétt eins og hinn frægi póstmódernismi hefur áhrif á okkur hvort sem við vitum af því eða viljum það eður ei.
Guðspjallið er upphaflega skrifað á grísku og það er gríska orðið logos sem við þýðum með "orðið". En logos hafði víðtækari merkingu - í stóískri heimpeki var það notað yfir þá reglu sem gegnsýrir alheiminn - hið guðlega vald að baki heimsins. Við þekkjum þá notkun á orðinu lógós t.d. þegar við tölum um lógík - rök. En með tilvísun til reglunnar sem býr að baki heiminum sjáum við enn betur skírskotununina til sköpunarsögunnar. Í sköpunarsögunni gerir guð reglu úr óreiðunni, skapar veröld úr djúpinu - Djúpið er tákn óreiðunnar í Gamla testamenntinu. Sá máttur sem að baki öllu býr skapar allt - kemur reglu á óreiðu.
Upphaf Jóhannesar vísar því til þess að orðið - sköpunarmátturinn - guð - hafi verið til frá upphafi og fyrir hans tilstilli sé allt til sem til er orðið.
Það er fyrsta myndin sem dregin er upp í guðspjallinu. Regla á óreiðuna.
Næsta mynd dregur upp tvær aðrar andstæður ljós og myrkur.
"Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því."
Myrkur.
Mannstu hvernig það er að standa í myrkri - vera þar sem ekkert ljós skín, um vetur - hvernig það er þegar rafmagnið fer um kvöld og allt í einu verður allt okkar kunnuglega umhverfi framandi? Við erum svo vön ljósinu að við gleymum því auðveldlega hvernig veröld blasti við fólki hér allt fram á síðustu öld þegar kolatýran og kertaljósið voru eina ljósmetið á dimmum nóttum. Myrkrið verður algert og ógnandi. Þannig var líka heimur fyrstu hlustenda þessara orða á fyrstu öld okkar tímatals. Og það eru andstæðurnar sem eru dregnar upp hér - myrkrið er ógnandi, í ljósinu er líf.
Og Jóhannes heldur áfram, skýrir líkingu sína með því að skíra hver var ljós heimsins:
Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið hefur ekki tekið á móti því. Hið sanna ljós kom í heiminn en heimurinn þekkti ekki ljósið, tók ekki á móti því.
Svo birtist okkur þriðja myndin, og það er mynd sem á ritunartímanum var hneyksli öllu hugsandi fólki:
Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.
Orðið varð hold. Í heimi grískrar tvíhyggju, sem er að mörgu leyti hugmyndafræðilegur bakgrunnur þessarar orða, í heimi þar sem hið veraldlega og holdlega var álitið óhreint, ófullkomið, jafnvel vont andspænis því andlega og guðlega hljómuðu þessi orð eins og skandall. Guð sjálfur gerist maður, orð guðs holdgerist í manni sem bjó meðal manna. Í versi átján í sama kafla segir svo:
Enginn hefur nokkurn tíman séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er faðmi föðurins, hann hefur birt hann.
Við skulum muna að hér er rætt um guðfræði, ekki líffræði. Áherslan er þó skýr, Guð varð maður - í manninum birtist Guð. Og þannig er augljóst að ef orðið varð hold, þá má úr því sjá að Guð helgar hið veraldlega. Að tvíhyggjunni er hafnað - að sköpunin er góð og allt hið veraldlega getur verið Guði þóknanlegt - rétt eins og segir í sköpunarsögu fyrstu Mósebókar þegar guð lítur yfir Sköpunarverkið: Og Guð sá að það var gott.
--
Orðið varð hold - hið háleita og algjöra mætir okkur í því smæsta og varnarlausasta - í barni fátækra foreldra. Hinn hæsti gengur inn í mannleg kjör.
Biblíumyndin af barnsfæðingunni er sjálf ekki boðskapur jólanna heldur það að Guð, hinn æðsti máttur, upphaf og frumrök alls, kom í þennan heim sem varnalaust barn, allsvana smælingi. Og að Guð á sama hátt mætir okkur í þeim varnarlausu og smáu.
Í jólasálmi sem hefst á orðunum: "Ó, Jesúbarn, þú kemur nú í nótt" yrkir Jakob Jóhannesson Smári um undur jólanætur, þetta sístæða kraftaverk:
Sem ljós og hlýja' í hreysi dimmt og kalt þitt himneskt orð burt máir skugga' og synd. Þín heilög návist helgar mannlegt allt - í hverju barni sé ég þína mynd.
Í hverju barni sé ég þína mynd.
Af því að Guð mætir okkur í náunganum. Við erum sköpuð í Guðs mynd. Orðið varð hold og hann bjó með oss. Hann var farandpredikari sem læknaði og líknaði, mætti fólki af skilningi og kenndi af visku. En hann var hvergi hafinn upp fyrr en honum var lyft á krossinn til að vera deyddur, dauða svikara og glæpamanna. Guð mætti okkur í því smáða og fyrirlitna og mætir okkur enn. Þegar ljósið skín í myrkrinu sjáum við umhverfið í nýju ljósi. Í gegnum fæðingu Jesús, líf, dauða og upprisu sjáum við lífið í nýju ljósi.
Ég las um helgina um annað barn, barn sem fæddist íslenskum foreldrum erlendis og reyndist vera með Down heilkennið. Lítill, fallegur drengur, mikill gleðigjafi sem við upphaf vegferðar sinnar á jörð þarfnast meiri umhyggju og stuðnings en mörg önnur börn. Margt sem foreldrarnir sögðu snerti mig djúpt. Eitt var hvernig gleðin yfir öllum framförum sé mikil og djúp. Þessi orð slá á streng sem er djúpur samhljómur við alla foreldra sem ala upp börn sem af einhverjum ástæðum fylgja ekki hinu venjulega og viðtekna þroskaferli. Gleði yfir því sem aðrir taka jafnvel ekki eftir og telja sjálfsagt. Önnur sýn á lífið og gjafir þess.
Þegar ljós skín í myrkri verður sýnin önnur. Þessi litli drengur er skapaður í Guðs mynd, í mynd þess Guðs sem er ekki sama um fólkið heldur leitar allra og kallar til fylgdar.
Hvergi heyrum við kall hans til fylgdar sterkar en þegar við mætum honum í því veika og smáa, því fátæka og þurfandi. Það er ef til vill skýringin á því hvers vegna við erum svo gjafmild á aðventu - þegar við erum í senn minnt á þörf þeirra veiku og á styrk þess veika. Styrk sem veitir okkur gleði og gefur lífi okkar nýja sýn og tilgang.
Í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð. Leyndardómur trúarinnar er að orðið birtist okkur og kallar okkur til fylgdar. Á jólum og alla daga lífs okkar.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Textar dagsins:
Lexía: Jes 62.10-12 Gangið út, já, gangið út um hliðin, greiðið götu þjóðarinnar. Leggið, leggið braut, ryðjið grjótinu burt, reisið merki fyrir þjóðirnar. Sjá, Drottinn hefur kunngjört allt til endimarka jarðar: „Segið dótturinni Síon, sjá, hjálpræði þitt kemur. Sjá, sigurlaun hans fylgja honum og fengur hans fer fyrir honum.“ Þeir verða nefndir heilagur lýður, hinir endurleystu Drottins, og þú kölluð Hin eftirsótta, Borgin sem aldrei verður yfirgefin.
Pistill: Tít 3.4-7
En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs.
Guðspjall: Jóh 1.1-14 Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.