Sorgarsæljón

Sorgarsæljón

Drottningin af Montreuil er mynd um falleg samskipti sem einkennast af umhyggju fyrir þeim sem er ókunnugur og framandi. Þetta er ein fyrsta íslenska leikna kvikmyndin sem fjallar um Hrunið og hún ber góðan og mikilvægan umhyggjuboðskap inn í samfélagið okkar.
fullname - andlitsmynd Árni Svanur Daníelsson
28. september 2012

Úr Drottningunni af Montreuil

Queen of Montreuil er opnunarmynd RIFF í ár. Hún var frumsýnd í Hörpu í gær að viðstöddu fjölmenni. Upphaf kvikmyndahátíðinnar er stund hátíðar og eftirvæntingar eftir þeim góðu myndum sem eru í boði á hátíðinni hverju sinni.

„Þá verður þú Drottningin af Montreuil“

Drottningin af Montreuil er látlaus mynd sem fær áhorfandann til að hugsa meðan á sýningu stendur og eftir að henni lýkur. Nafnið er sótt í sögusvið myndarinnar, hverfið Montreuil þar sem aðalpersónan Agata býr. Hún er ekkja og kemur í upphafi myndar með eiginmanninn til Frakklands. Hann er í duftkeri og myndin fjallar öðrum þræði um hina syrgjandi ekkju. Nafnið vísar líka til spakmælis frá Jamíaka: Þegar eiginkona kemst yfir lát eiginmanns síns verður hún drottning. Þegar Agata hefur komist yfir eiginmanninn verður hún semsagt: „Drottningin af Montreuil.“

Á flugvellinum hittir Agata tvo Íslendinga, Önnu og son hennar Úlf. Þau eru eins konar kreppuflóttamenn, strönduð í Frakklandi af því að efnahagshrun á Íslandi hefur leitt til gjaldþrots flugfélags. Þau bjóða sér heim til Agötu og fá að búa hjá henni um stund. Hún reynist þeim þannig bjargvættur og það endurgjalda þau með því að reynast bjargvættar hinnar syrgjandi ekkju.

Sorgin, sæljónið og Hrunið

Myndin er fyndin og á köflum dálítið út úr kú. Inn í söguna fléttast leit Önnu að brúðarkjólnum sínum, löngunin til að ná aftur sambandi við soninn Krumma sem er strandaður á Jamaika og svo sæljónið Fifi sem verður eins konar táknmynd sorgarinnar (eða kannski eiginmannsins látna) í lífi Agötu. Fifi ryðst inn á óþægilegum tíma, tekur heilmikið rými, ógnar, en er um leið blíður. Á lykilstundu hverfur hann úr lífi Agötu og þá eru líka tímamót í sorgarferlinu. Sæljónið Fifi ber burt sorgina og sára reynslu þegar hann syndir út á haf – kannski til Íslands.

Drottningin af Montreuil er mynd um falleg samskipti sem einkennast af umhyggju fyrir þeim sem er ókunnugur og framandi. Þetta er ein fyrsta íslenska leikna kvikmyndin sem fjallar um Hrunið og hún ber góðan og mikilvægan umhyggjuboðskap inn í samfélagið okkar.