Unglingar eru fyrirmyndarfólk

Unglingar eru fyrirmyndarfólk

Mikið sem það gladdi mig og marga aðra um daginn þegar hópur unglinga í seljasókn tóku þátt í biblíumaraþoni í Seljakirkju. Þessu maraþoni var þannig háttað að unga fólkið skiptist á að lesa ritninguna í samtals 16 klukkustundir.
fullname - andlitsmynd Bolli Pétur Bollason
06. mars 2006

Mikið sem það gladdi mig og marga aðra um daginn þegar hópur unglinga í seljasókn tóku þátt í biblíumaraþoni í Seljakirkju. Þessu maraþoni var þannig háttað að unga fólkið skiptist á að lesa ritninguna í samtals 16 klukkustundir og enduðu lesturinn við upphaf sunnudagsguðsþjónustu á biblíudaginn, en þar tók framkvæmdastjóri krabbameinssjúkra barna við góðri fjárupphæð sem unga fólkið hafði safnað með áheitum.

Þetta verkefni vakti athygli og er það vel. Fyrir utan það að þá kynntust unglingarnir Biblíunni töluvert við lesturinn, lásu guðspjöllin og alveg fram í Efesusbréfið.

Áður en þetta maraþon fór fram að þá heimsótti ég leikskóla í hverfinu og sagði ungu börnunum frá þessu verkefni unglingana. Þá vatt sér að mér starfsmaður og nefndi það við mig hvað það væri dýrmætt þegar börnin fengju að heyra það þegar unglingar væru að gera eitthvað þarft og gott, unglingar væru svolítil ógn í þeirra augum. Þetta vakti mig til umhugsunar. Ég hef stundum velt því fyrir mér og heyrt út undan mér að unglingar séu að einhverju leyti ógn börnum og jafnvel eldra fólki. Það er gjarnan dregin upp slík mynd af unglingum í fjölmiðlum og víðar, að þeim fylgi helber vandræði.

Ég hef haft mikil kynni af unglingum og ég lít svo á að upp til hópa að þá séu íslenskir unglingar til fyrirmyndar, þetta er gott fólk og er sannarlega að gera góða hluti sbr. biblíumarþonið góða í Seljakirkju.

Þetta verkefni í kirkjunni sannreyndi að það er mjög svo mögulegt að virkja ungt fólk til jákvæðra verka og það er virkilega ánægt að geta látið gott af sér leiða, þetta er ekki bara neyslukynslóð!