Sævar Ciesielski og grjótkastið

Sævar Ciesielski og grjótkastið

Erum við grjókastarar í hjarta eða verðir lífs? Í stað þess að henda steinum getum við skrifað í sandinn ný kerfi og lausn hinna þolandi. Jesús bjó til nýja sögu.

Á miðju sumri, í birtu, yl og vellíðan erum við minnt á átakanleg mál. Guðspjallstextinn í 8. kafla Jóhannesar varðar hórdóm, harðýðgi, lævíslega tilraun til að flækja Jesú í snörum lagatúlkunar en líka stórkoslegt björgunarafrek. Jesús hafði tamið sér reglu í hvenig hann túlkaði lög. Mannareglur – áleit hann – ættu að vera í þágu lífins en ekki valda og dauða.

Guðspjallið segir frá dramatískum atburðum. Á miðju sviði er sakfelld kona, sem ætti samkvæmt fornum bókstaf Móselögmálsins að grýta til dauða. Á leið til aftökustaðar er komið við hjá meistara nýtúlkunar, sem var kunnur að því að vilja alltaf teygja lögin í þágu lífsins. Kannski myndi hann segja eitthvað eða gera eitthvað, sem opinberaði að hann væri dauðaverður rétt eins og seka konan. Guðspjallssaga dagsins er því spennuþrungin. Leikendur eru margir og eiginlega erum við í þeim öllum.

Sævar Ég las guðspjallið í byrjun viku og íhugaði víddir sögunnar. Svo barst mér og raunar þjóðinni allri andlátsfregn, sem ófst inn í guðspjallsvinnuna. Sævar Ciesielski lést af slysförum í Kaupmannahöfn, 56 ára gamall. Hann var á sínum tíma dæmdur fyrir morð og sat í fangelsi í mörg ár. Hann hélt fram, að á honum hefði verið brotið í málsmeðferð. Eftir fangelsisvist reyndi hann í tvígang að fá mál sitt tekið upp að nýju en tókst ekki. Hann sagði sögu sína í bókinni Stattu þig drengur. Þar kemur fram, að hann var í æsku sendur í Breiðavíkurheimilið, sem nú er flekkað eftir útgáfu skýrslu nefndar um heimilið. Bók Sævars var meðal mikilvægra heimilda, sem skýrslunefndin notaði.

Lát Sævars Ciesielski kallaði fram í huga minningar. Á þeim árum, sem ég var við nám í guðfræðideild háskólans var okkur, nemendum, skylt að vinna í nokkura mánuði á einhverri stofnun, sem gæti dýpkað sýn nemenda á margbreytileika mannlífs og eflt okkur til starfa í prestsþjónustunni. Ég vann m.a. í fangelsinu í Síðumúla þar sem vistaðir voru frægustu fangar Íslands, sakborningar í svonefndum Geirfinns- og Guðmundar-málum. Fangarnir voru í einangrun og þráðu að fá að tala. Á löngum vöktum voru færin ýmis og ég taldi raunar skyldu mína, að verða þeim næmt eyra og þar með góður samtalsaðili. Sr. Jón Bjarman var þá fangelsisprestur og var hollur ráðgjafi hvernig sinna mætti sálgæslu og án þess að fara inn á svið lögreglu og dómsmála. Hlutverkin áttu ekki skarast.

Á björtum sumarkvöldum áttum við Sævar Ciesielski löng og djúp samtöl. Einangrunin var honum sálarkremjandi, sem og flestum í slíkum aðstæðum. Í hreinsandi en krepptu aðstæðum sá ég inn í skarpan huga hæfileikaríks manns, en við blöstu líka klungur og brotalínur sálar hans. Ekki fór milli mála að Sævar Ciesielski var fórnarlamb. Hann galt fyrir erfiða bernsku, hann hafði farið á mis við ástúð og uppeldi, sem hvert barn og unglingur þarfnast til að ná fullum þroska. Hann lenti á galeiðu, sem skilaði honum í grjótið. Hann fékk ekki notið hæfni sinnar til náms, starfa eða lífs.

Ég dæmi ekki um opinber mál Sævars Cisielski eða hvort framið var á honum og félögum hans dómsmorð eins og fyrrum forsætisráðherra, Davíð Oddson, komst að orði og hélt fram.

Sævarssaga er um margt hörmungarsaga. Vegna uppeldisaðstæðna fékk Sævar ekki að blómstra og hæfileikar hans fengu ekki notið sín sem skyldi. Honum var fleygt í steininn, dreginn til dóms og dæmdur. Margir köstuðu til hans og meiddu.

Þolendur Og þá erum við komin að guðspjallssögu dagsins. Við menn erum stundum duglegri að dæma en leysa, spilla fremur en efla. Hópur af fólki dró fram hórseka konu. Við vitum ekki nákvæmlega í hverju glæpur hennar var fólginn. Var hún mella eða hótelþerna, sem kom upp um valdamann í fjármálaheiminum, eða eiginkona á glapstigum? Hvar var og er karlinn? Óneitanlega er einkennilegt að konan er ein. Ekki hefur hórdómur konunnar verið eins manns mál. Slapp gaurinn við grjótið?

Ein og dauðaskelfd kona, ekkert eftir nema hryllilegt grjótkast, blóðbað, beinbrot og dauði. Kona dauðans dreginn fyrir þennan málsvara og vörð lífsins. “Hvað segir þú um svona konu?” - spyrja grjótharðir böðlarnir. “Hefur þú einhvern lagakrók til að verja hana með?” Kastararnir eru tilbúnir en svo segir frá því, að Jesús hafi beygt sig niður – ekki til að seilast eftir einhverju til að kasta, heldur til að skrifa á jörðina. Þetta er eina frásögnin, sem varðveist hefur um, að Jesús hafi kunnað að skrifa. Ekki vitum við hvort hann skrifaði stafi eða tákn. Við vitum ekkert um hvort hann skrifaði syndalista hinna grjótsæknu, konunnar, heimsins eða aðra speki. Við vitum ekki hvort þetta var einhvers konar róandi kúnstpása eða hvort Jesús Kristur var að leysa einhverja heimsþraut. En skrifatíminn leiddi til nýrrar nálgunar. Skilaboð Jesú voru að sá eða sú, sem hefði hreinan skjöld og væri fullkomlega saklaus, mætti byrja grjótkastið. Þessi afvopnandi úrskurður var ágengur og beraði stöðu manna. Allir fóru og aðeins grjótið var eftir. Enginn varð eftir til að deyða konuna. Var nema von, að Jesús spyrði hana hvort allir hefðu bara farið.

Jesús breytti aftökustað í fæðingarreit. Og maður lífsins sendi konu dauðans burt frá blóðvelli og gröf. Hann gerði ekki lítið úr vandanum eða hennar hlut, en gaf henni tækifæri til að lifa og eflast. Afstaða Jesú byggði á, að lífið er heilagt og allir menn eigi að lifa til góðs. Í þessari Jesú afstöðu er fyrirmynd heimsbyggðar að afnámi dauðarefsingar og að slík refsing sé verra réttlætisúrræði en lífgjöf.

Saga okkar Við erum öll í sögu dagsins og erum eiginlega í öllum persónum og leikendum sögunnar. Öll lendum við í aðstæðum einhvern tíma í lífinu að missa tök og verða fórnarlömb – ef ekki fólks þá aðstæðna, veikinda eða kerfa, sem hefta. Við föllum flest í þá freistni að fella dóma á hæpnum forsendum. Í öllum mönnum bærist líka réttlætissókn - við viljum að farið sé að lögum og réttlæti sé fullnægt. Verum þó ekki of örugg um eigið ágæti. Allir menn geta truflast af æsingum og flotið með ef nægilega margir eru ruglaðir. Heilu þjóðirnar geta lent í slíku ofurbrjálæði. Dæmi um slíkt eru hinir nazísku Þjóðverjar, morðæði Serba fyrir rúmlega áratug, þjóðarmorð Húta á Tútsum í Rúwanda. Af sama tagi er misnotkun og misbeiting í stríðum þessa árs, 2011, í Norður-Afríku og fyrir botni Miðjarðarhafs. Grjóti var kastað til dauða í fornöld og enn er kastað í nútíma. Og stundum er trú jafnvel notuð sem réttlæting fólskuverka.

Ég sakfelli þig ekki Konur og börn eru jafnan fórnarlömb ofbeldis en allir verða fórnarlömb þegar aðstæður eru rangt greinar og allt verður bjagað. Löngum hafa vændiskonur verið dæmdar en æ betur hefur komið í ljós, að þær eru fremur þolendur en gerendur, fórnarlömb kerfis mismununar og karlstýringar. Dólgarnir og af ýmsu tagi og gerðum eru að baki.

Vond kerfi og ranglæti hafa svift börn réttlæti og ekki skeytt um góðan aðbúnað fyrir uppeldi og elsku barna. Börn eiga rétt til lífs, elsku og góðra uppeldisaðstæðna. Saga Sævars Cisielski er andsaga, sem við verðum að læra af. Við erum í hlutverki Jesú gagnvart vondum sögum, vondum aðstæðum og hrópandi fólki. Okkar hlutverk er að berjast gegn óréttlæti, barna og líðenda.

Þessa síðustu daga hefur fjöldi fólks tjáð á bloggsíðum og í fjölmiðlum, að margt hafi farið úrskeiðis í málsmeðferð Guðmundar- og Gerfinnsmála og vilja að málið verði tekið upp að nýju. Ef grunur leikur á um ranga málsmeðferð ætti að endurskoða, ekki aðeins til að skoða hvort dæmt hafi verið á óljósum forsendum heldur einnig til að skoða meðferð og vinnuferla opinberra kerfa. Stjórnsýsla á að vera góð. Dómari lífsins vill að við skoðum vítt, að við notum tilefnin til að skoða eigið líf, eigið réttlæti og eigin lífsafstöðu. Stöndum við með lífinu eða múgnum? Erum við grjótkastarar í hjarta eða verðir lífs.

Jesús Kristur sakfelldi ekki konuna, heldur sendi hana til lífs með þau skilaboð að láta af vondum verkum fortíðar og vinna að lífsbótum. Það er mikilvægur lífsvísdómur fyrir okkur sem einstaklinga en einnig fyrir samfélag okkar. Þjóðlíf Íslendinga má gjarnan njóta visku Jesú Krists. Hórsekt fólk, dæmt fólk, þolendur, þau sem farið hefur verið illa með eiga að fá að tjá okkur sögu sína. Hendum ekki steinum, skrifum frekar í sandinn ný kerfi, nýja sögu, lausn hinna þolandi. “Far og syndga ekki framar.” Sá boðskapur er ekki bara fyrir grjóthrædda konu og vanræktan mann heldur fyrir okkur öll. Frá bjartri sumartíð höldum við inn í haust og vetur með Jesústefnu og í þágu lífs.

Prédikun í Neskirkju 17. júlí 2011, 4. sunnudag eftir þrenningarhátíð. B-textaröð.

Guðspjall: Jóh 8.2-11 Snemma morguns kom hann aftur í helgidóminn og allt fólkið kom til hans en hann settist og tók að kenna því. Farísear og fræðimenn koma með konu, staðna að hórdómi, létu hana standa mitt á meðal þeirra og sögðu við Jesú: „Meistari, kona þessi var staðin að verki þar sem hún var að drýgja hór. Móse bauð okkur í lögmálinu að grýta slíkar konur. Hvað segir þú nú?“ Þetta sögðu þeir til að reyna hann svo þeir hefðu eitthvað að ákæra hann fyrir. En Jesús laut niður og skrifaði með fingrinum á jörðina. Og þegar þeir héldu áfram að spyrja hann rétti hann sig upp og sagði við þá: „Sá ykkar sem syndlaus er kasti fyrstur steini á hana.“ Og aftur laut hann niður og skrifaði á jörðina. Þegar þeir heyrðu þetta fóru þeir burt, einn af öðrum, öldungarnir fyrstir. Jesús var einn eftir og konan stóð í sömu sporum. Hann rétti sig upp og sagði við hana: „Kona, hvað varð af þeim? Sakfelldi enginn þig?“ En hún sagði: „Enginn, Drottinn.“ Jesús mælti: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar.“