Af kartöflum og mönnum

Af kartöflum og mönnum

Haustverkin ráða því ekki hversu mikil uppskeran er. Nei, þá fyrst kemur í ljós hvernig staðið var að verki um vorið og fram eftir sumri. Já, nú er uppskerutími í náttúrunni. Í lífi okkar er uppskeran allt árið um kring alla ævina.

Nú er uppskerutími. Þau sem hafa sett niður kartöflur í vor ættu að fara að sjá afraksturinn. Menn taka e.t.v. upp eitt og eitt kartöflugras og og gramsa í moldinni spenntir til þess að sjá hvað undan því kemur. Hversu margar eru þær og hve stórar? Sjálfur þykist ég eiga framtíðina fyrir mér í þessum efnum, sló upp með erfiðsmunum vermireit í garðinum á sínum tíma, fyllti af mold og áburði og potaði svo ofan í þetta sáðkorni, afleggjurum og útsæði. Því til viðbótar fengum við vænan skika úthlutaðan hjá bænum niðri í Gróf og þar var sáð fyrir rófum, næpum og radísum – og auðvitað kartöflum.

Yfirborðið og moldin

Eftir slíka einmunatíð sem verið hefur í sumar er auðvitað von á góðu. Það er helst maður hefði átt að vera þjóðlegri í vali á útsæði. Þessar sem við tókum koma vissulega snemma til, og mikill er vöxturinn í grösunum. En þær eru harla fáar undir hverju grasi. Þetta veldur satt að segja vonbrigðum því grösin hafa lofað svo góðu þar sem þau hafa trónað upp úr moldinni þétt og gróskumikil. Það sem undir bjó var hins vegar öllu fátæklegra og ber ekki á öðru en að allur krafturinn hafi farið í hið sýninlega. Það liggur við maður tali um yfirborðsmennsku í þessu sambandi!

Já, nú sjáum við það í görðum okkar hvernig til hefur tekist með sáningu vorsins. „Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá“, segir í ritningunni og þar eru frásagnir gjarnan settar í samband við gróður og uppskeru. Er ekki himnaríki eins og mustarðskorn sem sáð er í jörðu og verður síðar að svo stóru tréi að fuglarnir geta leitað þar skjóls? Líkti Jesús sér ekki við garðyrkjumann sem sáði korni yfir jörðina, sem bar svo misjafnan ávöxt? Sáning, umhirða og uppskera – þessi grundvallaratriði við alla framfærslu koma oft við sögu í ritningunni, og það ekki að ástæðulausu.

Dæmigerð dæmisaga

Af hverju þessar hugleiðingar nú við guðsþjónustu? Jú, í guðspjalli dagsins er er nokkurs konar uppskerutími. Þetta er eins konar prófsteinn. Guðspjallið er dæmisaga, alveg dæmigerð dæmisaga – sögupersónurnar eru okkur vel kunnar: annar er tollheimtumaður en hinn er farísei. Og þessar andstæður vöktu auðvitað athygli þeirra sem á hlýddu. Annar þeirra bar bersýnilega vott um góðan afrakstur uppeldis og þroska – á meðan hinn var hörmungin holdi klædd, ekki satt? Já, dæmigerð er þessi saga þar sem uppskeran er svo ólík sem raun ber vitni. Faríseinn lifði samkvæmt ströngustu reglum siðar og háttprýði – hinn var eins og eyðimörk enda hafði hann framfærslu sína af því að svipta fólk framfærslu sinni.

En það er dæmigert fyrir dæmisögur Krists að við erum vöruð við því að horfa aðeins á yfirborðið – það sem blasir við. Ástæðan fyrir því að hann tekur þessar andstæður fyrir er einmitt sú að hann vill minna okkur á það sem býr í djúpi sálarinnar. Hann vill jafnframt ítreka það við okkur að í hverjum manni býr fjársjóður sem aðeins Guð sér. Þess vegna fá þeir svo ólíkan vitnisburð þegar þeir ganga inn í helgidóminn.

Þeir gengu inn og hvor bað sína bæn. Þarna kemur þungamiðja frásagnarinnar. Já, hvernig báðu þeir, þessir ólíku menn? Í orðum þeirra má segja að við höfum fengið innsýn í hugarþelið og það sem undir yfirborðinu bjó. Þarna eru grösin tekin upp og í ljós kemur að þau sögðu alls ekki alla söguna um það sem leyndist þar ofan í moldinni. Þau sem voru gróskumikil og hnarreist reyndust hafa lítið að geyma: „Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður“

Undir yfirborði hins rangláta tollheimtumanns kom hins vegar margt á óvart og einmitt það sem skapar þessi mikilvægu tengsl manns við Guð. Tollheimtumaðurinn fór heim til sín sáttur við Guð en hinn ekki: „Því hver sá sem upphefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“

Undir grasinu

Þarna skilur Kristur mikið eftir fyrir okkur til umhugsunar. Sannarlega er aldrei of oft fyrir okkur brýnt að gægjast undir yfirborðið áður en við fellum dóma okkar. Það á jafnt við um kartöflur sem menn! Og hvers vegna er það svo? Jú, kristin trú snýst um það hvernig menn geta orðið sáttir við Guð og aðra menn. Páll postuli kallar þetta „réttlæti“ í pistlinum. Réttlæti er orð sem við skiljum öll – nema ef til vill ef við þurfum að útskýra það fyrir einhverjum. En við getum reynt: Réttlæti er það þegar allt er á sínum stað. Jafnvægi ríkir í sálu okkar og upp frá þessu jafnvægi verður mikill ávöxtur.

Þegar Kristur lýsir orðaskiptum þessara tveggja manna við skapara sinn er hann á engan hátt að réttlæta misgjörðir tollheimtumannsins. Þvert á móti. En hann bendir okkur á það að á þessari stundu hafi sá ógæfumaður staðið á tímamótum. Áður en hann hóf upp raust sína í helgidómnum hefur hann sjálfur horft undir yfirborð sálar sinnar og þar hefur hann fundið margt sem þurfti betrunar við. „Vertu með syndugum líknsamur“ sagði hann í angist sinni og Guð heyrði bænarorð hans.

Faríseinn og systkini hans

Þessi orð eru eins frábrugðin og hugsast getur þeim orðum sem faríseinn og systkini hans hafa flutt í gegnum aldirnar. Þetta eru hinir skinhelgu. Þessir sem þekkja allan sannleikann, hvort sem þekking þeirra á rætur í trúarlegri sannfæringu, brotakenndri þekkingu á kröftum náttúru og efnisheims, pólitískri fullvissu eða einfaldlega því að tolla í tísku tíðarandans hverju sinni. „Þakka þér fyrir að ég er ekki eins og aðrir menn“ og svo er bendifingurinn mundaður í allar áttir þar sem fólk er vegið, dæmt og léttvægt fundið. Móti þessu talar Kristur og hann sýndi það í verki með því að umgangast jafnan þá sem máttu þola bendingar og fordóma.

Boðskapurinn er ekki sá að ávextirnir skipti ekki máli. Það er öðru nær. Boðskapurinn er sá að til þess að ávextirnir séu sannir þarf að vanda til allra þátta. Haustverkin ráða því ekki hversu mikil uppskeran er. Nei, þá fyrst kemur í ljós hvernig staðið var að verki um vorið og fram eftir sumri. Já, nú er uppskerutími í náttúrunni. Í lífi okkar er uppskeran allt árið um kring alla ævina. Við kristnir menn erum minnt á það að endurskoða hug okkar, bæta ráð okkar og stunda virkt bænalíf þar sem við mætum skapara okkar í hreinskilni. Umfram allt ættum við ekki að dæma samborgara okkar því margt kann að leynast undir yfirborðinu sem kemur á óvart.