Komdu og vertu ljós mitt

Komdu og vertu ljós mitt

Um þessar mundir eru þessi orð móður Teresu mér hugleikin. Við þekkjum vel hvernig hún tileinkaði líf sitt þjónustunni við náungann. Nánast alla sína ævi þjónaði hún þeim fátækustu þar sem neyðin er mest og sárust.

1En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. 2Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. 3Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. 4Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, 5að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. 6En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari. 7Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. 8En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. 9Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, 10en engillinn sagði við þá: "Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: 11Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. 12Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu." 13Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu: 14 Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.

Gleðilega hátíð!

Ávöxtur þagnarinnar er bænin Ávöxtur bænarinnar er trúin Ávöxtur trúarinnar er kærleikurinn Ávöxtur kærleikans er þjónustan Ávöxtur þjónustunnar er friður

Um þessar mundir eru þessi orð móður Teresu mér hugleikin. Við þekkjum vel hvernig hún tileinkaði líf sitt þjónustunni við náungann. Nánast alla sína ævi þjónaði hún þeim fátækustu þar sem neyðin er mest og sárust. Hún þekkti vel hvernig sú þjónusta gaf frið. Frið í hjarta og sál. Því þjónusta við Drottinn – ef hún er stunduð í trú, von og kærleika, getur aldrei, aldrei leitt til annars en friðar.

Gangan hennar var þó ekki auðveld. Hún þurfti að glíma við flest það sem við hin þurfum að glíma við. Vonbrigði, vonleysi, ótta og sorgir. Jafnvel bresti sína.

En hún fékk kraft til verka sinna. Styrk, þrek og traust. Það fékk hún fyrir óbifandi trú á frelsara sinn. Fyrir mig gerðir þú þetta. Eru fimm orð sem móðir Teresa kallaði fimm fingra fagnaðarerindið. Eitt orð fyrir hvern fingur. Fyrir mig gerðir þú þetta. Með þessum orðum vildi hún minna á hina þurfandi í þessum heimi.

Minna á þá sem minna mega sín í virðingarskini við Guðs son sem hverjum og einum manni er gefinn og til að minnast nærveru Drottins í öllum mönnum.

Hún minnti einnig á að þjónusta kærleikans hefst heima fyrir. Í eigin ranni. Nánasta umhverfi og sagði að einungis með því að elska fyrst þá sem eru nærri getum við fært þann kærleik áfram svo hann verði að þeim frið sem við þráum í þessum heimi. Í þessu lífi.

* * *

Fyrir mig gerðir þú þetta. Fyrir mig og þig fæddist frelsarinn á jólanótt. Í Betlehem. Þar hófst þjónusta kærleikans. Þjónusta sem kallast á við lífið. Er samofin lífinu.

Jólin hverfast um lífið. Það er lífið sjálft sem kveður dyra í heimi manna. Betlehem og Golgata eru staðir sem tengjast órjúfanlegum böndum.

Barnið sem fæddist á jólanótt, dó á krossi, og sigraði dauðann, gaf okkur hlutdeild í þeim sigri.

Það er hin mikla jólagjöf sem við þiggjum. Og hjörtu okkar fyllast virðingu og þökk, því það birtir upp í heimi manna. Lífið og ljósið er þannig samofið. Lífið þrífst ekki í myrkrinu heldur dafnar í ljósi og birtu. Það birtir okkur hringrás náttúrunnar.

Hún birtir okkur hversu lífsþráðurinn er sterkur, en um leið er lifið svo undur brothætt og viðkvæmt. Svo hverfult. Lífinu má líkja við tré. Viðkvæm laufblöðin feykjast til og frá í baráttu við að halda velli í stormum lífsins. Á meðan ræturnar teygja sig sterkar langt niður í moldina og mynda grundvöll sem ekkert grandar.

Eða hvað?

Eins og tréð þarfnast lífið næringar.

Og það þarfnast birtu annars veslast það upp fúnar og deyr. Á jólum erum við minnt á birtuna og næringuna sem grundvallar líf okkar manna. kærleikann eina og sanna sem nærir allt líf og baðar það ljóma.

Það er sá ástaróður sem manninum er sunginn og hrekur á brott langa og dimma skugga myrkurs.

Í kærleikanum er og fólgið félagslegt afl. Í tengslum manns og manns og Guðs og manns.

Við vöxum, döfnum og þroskumst í tengslum við hvert annað. Því er svo mikilvægt að næra þau tengsl, vernda og styrkja, svo þau megi verða okkur til blessunar og veita birtu í líf okkar.

Svo að dýrð Drottins megi umlykja okkur eins og hirðana á Betlehemsvöllum forðum, er engill Guðs birtist þeim og boðaði þeim fagnaðarboðin um fæðingu Frelsara heimsins.

* * *

Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, sagði engillinn.

Góður vinur minn, sendi mér falleg skilaboð nú fyrir jólin og minnti mig á að englar eru sendiboðar Guðs.

Þeir vaka yfir okkur og vernda. Þeir boða fagnaðarboðskap. Þeir vegsama Guð og tala til okkar sem elskuð börn Hans. Finnst ykkur ekki stundum sem veröldin sé full af englum? Þeir virðast vera út um allt. Hvíslandi og syngjandi!

Auðvitað. Guð er trúfastur og ávallt með okkur, svo það er ekkert að undra að við skulum finna fyrir englasendiboðunum Hans.

Á jólum, sérstaklega á jólum, bresta himnarnir í dýrð. Halleljúja – hljómar um alheim allan og allt inn í hjörtu okkar. Kórar himinsins leggja allt sitt í að boða hið mikla kærleikverk Guðs – að hann varð einn af okkur í Jesú Kristi. Nú um þessar mundir er sumir vilja afhelga jólin og gera þau að vetrarhátíð, vitum við – ég og þú betur.

Og við viljum vera boðberar þess trúarlegs inntaks sem fólgið er í jólahátíðinni.

Jólin fjalla um guðlegan kærleika og við eigum óhrædd að boða það. Láta það heyrast.

Satt að segja held ég að Guð vilji að við verðum boðberar, eins og englarnir. Vilji að við látum fagnaðarerindið um trú, von og kærleika heyrast.

Við vitum að Guð er ávallt að tala til okkar og englar Guðs minna okkur á hversu elskuð við erum. Þess vegna skiptumst við á kærleiks og fagnaðarkveðjum á jólum. Þannig endurspeglum við og umföðmum þessa guðlegu ástarsögu.

Já. Guð vill að við séum Hans mannlegu englar. Hann vill að við boðum fagnaðarboðskapinn og deilum honum með vinum og vandamönnum.

Guðlegur kærleikur sem gerðist hold í Jesú Kristi verður raunverulegur þegar við breiðum út eigin upplifun þess kærleika.

* * *

Að breiða þannig út kærleikann, hefur öðlast nýtt vægi, aukið vægi nú á nýjum tímum. Tímum breytinga og endurmats. Margir hafa stigið trylltan dans kringum gullkálfinn á undaförnum árum. Gleymt sjálfum sér og öðrum. Gleymt Guði. Við vitum þó að danstónlistin hljómaði ekki í eyrum allra. Og tel ég að að þorri manna hafi verið og sé með fullri meðvitund og vakandi dómgreind. Almennt séð.

Og það eru þeir eiginleikar sem við skulum nota okkur – og flétta við kærleikann sem okkur er gefinn á jólum. Það sú meðvitund sem segir okkur að það sé alheimsskömm, okkar skömm – að í þessum heimi deyi eitt barn á fimm sekúndna fresti úr hungri.

Það þýðir að 17 þúsund börn deyja daglega úr hungri. 17 þúsund börn í þessum heimi.

Því fylgir nýstandi sársauki. Og er skömm vesturlandabúa.

Þriðji heimurinn varð nefnilega eftir í lífsstílsbyltingunni á ofanverðri 18. öld. Og sú aðstoð sem þau hafa treyst á sér til lífs fer þverrandi í nýrri kreppu Vesturlanda.

Þegar líður að jólum leitar hugur minn gjarnan til þurfandi og sveltandi og ég spyr mig hvað eru jólin fyrir þeim? Vita þau yfirhöfðuð að það eru jól? Sungu heimsfrægir poppar með fulltingi Bob Geldoff hér á árum áður. Sungu og söfnuðu fyrir sveltandi fólk. Björguðu mörgum, mörgum mannslífum.

Frábært framtak. Og aðdáunarvert innlegg inn í betri heim.

Og söngnum lýkur með orðunum: Látum þau vita að það eru jól. Já - ég bið ykkur. Látum þau vita að það eru jól. Nú og ævinlega.

Því þar liggur ábyrgð kristins manns. Siðaðs manns. Við erum kölluð til ábyrgðar við náungann og hlutverk okkar er að stuða að betri heimi.

Gandhi sagði eitt sinn: Vertu sú breyting sem þú vilt sjá í heiminum. Breytingin hefst hjá þér og mér.

Verkefnið er mikilvægt og dýrmætt. Það felst í því að bera ljós jólanna áfram. Því jólin hverfast um lífið og ljósið. Við getum öll verið sammála um að móðir Teresa var engill, ljósberi kærleika og friðar.

Komdu og vertu ljós mitt. Heitir titillinn á bók sem hefur að geyma bréf og hugleiðingar Móður Teresu.

Ég tek undir þessi orð og bið að ég megi vera einhverjum ljós. Og þú einnig.

Að við megum vera englar, sendiboðar Guðs því þörfin er svo mikil.

Kristur þarf að endurfæðast í lífi okkar og ekki síður í virðingu okkar. Englar þurfa að syngja á ný um elsku Guðs í lífi allra manna og þú ert þessi englasöngur með bænum þínum og örlæti.

Og í þeirri andstæðu sem felst í þjáðum og sveltandi heimi andspænis ljóma jólanna, verður dægurþras og smámunir hversdagsins svo ósköp léttvæg, óþarfi sem við getum svo vel verið án.

Leyfum frekar gleðinni að óma í sálinni. Því eins og fegursti hljómafoss leikur gleðisöngur himnanna um Betlehemsvelli og hljómar þaðan um heimsbyggðina alla. Nær eyrum mínum og eyrum þínum.

Fyrir mig gerðir þú þetta. Fyrir mig og þig fæddist Frelsarinn sjálfur á Jólanótt. Nótt sem er böðuð birtu. Birtu vonar, frelsunar og gleði.

Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól og blessunarríkt komandi ár.