Gleðisöngur á glerhafi

Gleðisöngur á glerhafi

Engar sögur Eitt af því sem merk erlend fræðikona á sviði guðfræði og prédikunarfræða sagði við okkur á námskeiði hér í haust, var að við skyldum ekki segja sögur. En það er eitt af því sem margir prestar einmitt gera oft, að segja sögur úr eigin lífi eða annars staðar frá, sem þeim finnst geti varpað […]

Engar sögur
Eitt af því sem merk erlend fræðikona á sviði guðfræði og prédikunarfræða sagði við okkur á námskeiði hér í haust, var að við skyldum ekki segja sögur. En það er eitt af því sem margir prestar einmitt gera oft, að segja sögur úr eigin lífi eða annars staðar frá, sem þeim finnst geti varpað ljósi á merkingu þess boðskapar sem þeim er ætlað að bera fram. Meining hennar var sú að ritningin sjálf væri meiri en nægur brunnur sagna sem mikilvægt væri að segja og dvelja við.
Ástríða fyrir tónlist
Samt ætla ég að brjóta þessa reglu einmitt nú og byrja á því að segja ykkur sögu:
Þegar ég var prestur norður í landi fyrir nokkuð löngu síðan þá jarðsöng ég einu sinni sem oftar gamlan mann. Þessi gamli maður hafði litla menntun fengið og unnið sem verkamaður á lægstu launum alla sína tíð. En ástríða hans var tónlist. Hann hafði yndi af því að hlusta á tónlist og hann safnaði hljómplötum, mestmegnis var það sígild tónlist af ýmsu tagi, enginn í hans byggðarlagi átti annað eins safn. Sjálfur spilaði hann ekki á neitt hljóðfæri, vissi ekkert um tónfræði og aldrei heyrðist hann syngja, menn vildu jafnvel meina að hann hafi verið alveg laglaus. Þó var þetta ást hans og yndi að hlýða á fallega tónlist.
Jesús talar við fræðimenn
Nú er kannski spurningin sem vonandi einhver ykkar sem hér eru stödd spyrjið ykkur, hvað hefur þessi saga með texta dagsins að gera?
Jesú er í þessu guðspjalli svo sem eins og svo oft áður að skiptast á skoðunum við trúmenn síns samfélags þá sem þekktu fræðin framar öðrum, þeir kunnu að lesa og þekktu ritin sem þá voru til og við köllum gamla testamennti. Þeir voru sannarlega fróðir og lesnir og vissu ótal margt en vera má að þeir hafi líka verið nokkuð fastir í forminu og ekki hrifnir af því að gera miklar breytingar á þeirri aðferð sem þeir höfðu lært og lifað og hrærst í. Ekki nóg með það, þessi aðferð og þekking færði þeim virðingu og status, nokkuð sem þeim þeir voru ekki hrifnir af að sleppa. Jesús gerir sér far um að ögra þeim og jafnvel finnst mér ekki ólíkt því að hann sé aðeins að stríða þeim. Jesús er sjálfur vel lesinn í fræðunum og getur því vel mætt þeim og tekist á við þá á þeirra forsendum um leið og hann kynnir nýja nálgun, nýja hugsun, nýjan útgangspunkt. Ekki ólíkt því sem var með Lúter löngu síðar, hann var lærður og vel lesinn og leiddi sína byltingu með fræðin að vopni. Um leið og hann var að kynna afturhvarf til upprunans en samt á nýjum forsendum í nýjum aðstæðum.
Opinn hugur eða for - dómar
Jesú segir við þá, fræðimennina, það sem þið getið ekki séð það blasir við þeim sem ekkert hafa lært, það er þeim opinberað, þeir hafa ekki fyrirfram forritað huga sinn og lokað á nýja sýn. Þeir hlusta opinmynnti og tengja við líf sitt og reynslu. Skynja að það sem sagt er er satt.
Það eru fleiri orð frá Jesú en þessi sem hér voru lesin sem guðspjall sem kallast á við svipaða hugsun. Jesú segir í hinum frægu orðum sem lesin eru við hverja barnaskírn að nema þið verði eins og börn þá munið þið aldrei komast inn í Guðs ríkið. Hver er munur á barni og fullorðnum? Hann er auðvitað margvíslegur en kannski mestur sá að barnið hefur ekki enn komið sér upp sambærilegum gagnagrunni eða við getum líka kallað það þekkingu og þau sem lifað hafa lengur. Um leið hafa þau ekki heldur sömu fordóma og þeir sem eldri eru, þeim hefur enn ekki verið sagt hvernig eigi að hugsa og hvernig eigi að meðtaka, hvað sé við hæfi og hvað ekki, hvað sé leyfilegt, hvað sé skynsamlegt, hvað sé í samræmi við það sem alltaf hefur verið gert og hvað ekki. En þau hafa skynfæri sín í góðu lagi og hugsun þeirra er skýr og fersk. Þau skynja og bregðast við ást og kærleika foreldranna þau sperra eyrun þegar þau heyra fagra hljóma.
„Móðir vor!
Textinn úr gamla testamentinu dregur upp vonarríka mynd af guðsríki, tilvist þar sem vilji Guðs fær að ráða. Hin nýja Jerúsalem. Hvernig er henn lýst? Henni er líst út frá barninu. Barnið sem hvílir við barm móður sinnar, teygar næringarríka mjólkina úr brjóstum hennar. Barnið sem móðirin ber með sér á mjöðminni og hossar því á hnjám sínum svo það hlær og hjalar. Guðsmyndin er þarna hin kærleiksríka móðir er hugar að öllum þörfum barnsins síns svo það megi vaxa upp í öryggi.
Eru fræði fyrirstaða eða forsenda?
Stundum virðist þess gæta að hin tilvitnuðu orð Jesú í guðspjallinu séu túlkuð á þann veg að hann sé þarna að gera lítið úr fræðimennsku og þekkingarleit með því að segja að smælingjar og börn muni fyrr kynnast guðsríkinu en þeir. Það er fremur sú aðferð og jafnvel hugsunarháttur sem margir tileinka sér að aðeins ein eða fáar vinnuaðferðir séu gildar, þ.e. það sem kallað er fordómar. Að gefa sér fyrirfram hvaða leiðir er hægt að fara. Þetta er skiljanlegt, þú gengur inní stóran heim tiltekina fræða, mátt hafa þig allan við að læra og tileinka þér allt það sem þar þarf að nota til að geta haldið áfram. Þessi leið verður þannig þinn stóri sannleikur og að einhverju leiti forsenda framfara og árangurs en um leið setur það skapandi hugsun skorður. Ég hef heyrt að oft komi nýjar uppgötvanir fram á mörkum fræðigreina. Sömuleiðis hef ég lesið greinar sem skýra hina miklu grósku í heimi tónlistar hér á landi einmitt með því að sökum þess hve sá heimur er smár þá sé hann ekki með sama hætti hólfaður niður, líkt og víða er í hinum stóra heimi. Fólk með ólíka þekkingu og nálgun fer að vinna saman og eitthvað nýtt og frumlegt lítur dagsins ljós.
Sagnfræðingur á sauðskinnsskóm
Jesú er sannarlega ekki að gera lítið úr fræðum og þekkingu, það sem hann er að benda á er það að trúin er á annari bylgjulengd, forsenda hennar er ekki þekking eða söguleg fræði. Engum dytti í hug að sagnfræðingur sem stúderar sögu Íslands á fyrri öldum ætti að fara að ganga í sauðskinnsskóm. Samt halda margir að sá sem tekur trú sína alvarlega hljóti jafnframt að halda því fram að jörðin sé flöt. Með öðrum orðum að sú þekking sem til var á því langa tímabili sem rit biblíunnar voru skrifuð sé hluti af trúnni að með því að meðtaka trúna hljóti maður um leið að afneita nýrri þekkingu á veröldinni. Þessari aðferð hafa andstæðingar trúarinnar beitt blygðunarlaust og með góðum árangri, því hvaða hugsandi maður vill láta tengja sig við úrelta hugsun og þekkingu? Þetta eru fordómar nútímans sem torvelda leið margra til Guðs.
Guð og maður
Það þarf engan fræðimann til þess að elska og njóta fagurra tóna. En verður það ekki einmitt að vera þessi grundvallarástríða sem dregur og skapar löngun til þess að stíga sjálfur inn í þennan heim og öðlast færni og þekkingu með þrotlausri vinnu?
Sömuleiðis þá þarf engann fræðimann til þess að meðtaka hið eilífa ljós trúarinnar, það ljós sem nærir kærleika og öryggiskend. Þetta undur sem aldrei verður endanlega höndlað og er því túlkað með táknum. Líkt og því sem hér var notað og dregið upp af hinni elskandi móður. Það er þetta persónulega, milliliðalausa, einstaka og eiginlega mystíska samband mannsins við Guð sinn sem öllu skiptir sem upphafspunktur hins trúaða. Þetta sem Lúter lagði svo mikla áherslu á og var hans mikla uppgötvun.
Sömuleiðis sjáum við þessa aðferð í texta opinberunarbókarinnar þar sem dregnar eru upp litríkar, óræðar myndir með orðum, myndir sem túlka von og gleði, gleði og kærleika sem enginn talnaleikur nær að spilla. Þar sem söfnuðurinn stendur við hið logandi glerhaf og syngur guði lof og leikur undir á hörpur. Glerið er brothætt eins og lífið sjálft en orð Guðs varir. Hinn eini sanni tónn er þar fundinn og hann hljómar að eilífu.