Kertaljósið og tölvuskjárinn

Kertaljósið og tölvuskjárinn

Í einu stiftanna í Svíþjóð hefur markvisst verið unnið að því að koma til móts við þá sem vinna um helgar með því að hafa messur í miðri viku, gjarnan síðdegis. Þessar messur eru með nokkuð öðru sniði en hefðbundnar helgidagamessur. Meira er lagt upp úr kyrrð og ró en jafnframt að þeir sem koma hreyfi sig um kirkjuna. Fólk stendur upp og tendrar ljós í kirkjunni ef aðstæður leyfa, margir eru virkjaðir í lestri og bænagjörð og söng.
fullname - andlitsmynd Þorvaldur Karl Helgason
04. mars 2002

Í einu stiftanna í Svíþjóð hefur markvisst verið unnið að því að koma til móts við þá sem vinna um helgar með því að hafa messur í miðri viku, gjarnan síðdegis. Þessar messur eru með nokkuð öðru sniði en hefðbundnar helgidagamessur. Meira er lagt upp úr kyrrð og ró en jafnframt að þeir sem koma hreyfi sig um kirkjuna. Fólk stendur upp og tendrar ljós í kirkjunni ef aðstæður leyfa, margir eru virkjaðir í lestri og bænagjörð og söng.

Í sama stifti hafa jafnframt verið teknar upp pílagrímagöngur einkum á sumrin. Þetta eru stuttar eða langar ferðir, innanlands og utan, þar sem heillandi veröld náttúru, sögu og kristinnar íhugunar eru fléttuð saman. Þetta sama stifti leggur líka mikið upp úr virkri þátttöku í umræðu dagsins, einkum í fjölmiðlum.

Segja má að þessi stefna hafi að leiðarljósi að ná til þeirra sem annars láta sig litlu varða kirkjuna og kristna trú. Sumir vilja kalla slíka viðleitni að lækka þröskuldinn, koma með nýja sýn á kirkjuna, ryðja nýjar leiðir til að ná fram með boðskapinn góða.

Margt þessu líka er gerast hér á landi í okkar litlu kirkju. Eitt dæmið er kirkjuvefurinn, www.kirkjan.is, sem opnaði á dögunum í mikið endurbættri mynd. Hlutverk hans sem miðils er fyrst og fremst að vísa okkur veginn inn í samfélag trúar og tilbeiðslu. En um leið gegnir hann mikilvægu hlutverki gagnasafns eða upplýsingabanka og umræðutorgs.

Hér er ný tækni nýtt í þágu kirkju og kristni og veraldarvefurinn gerður að frétta- og umræðutorgi hins kirkjulega starfs. Um leið er hann vettvangur fyrir boðun kristinnar kirkju. Vefurinn er aðgengilegur og opinn nánast öllum þeim sem aðgang hafa að tölvum. Nútímafjölmiðill er nýttur til að opna leið sem kann að vera hentugri fyrir suma. Leið til að kynnast því betur hvað kirkjan starfar og hvað hún stendur fyrir.

Þótt stærsti markhópurinn sé ungt fólk sem hefur tileinkað sér notkun vefsins, þá eru margir aðrir hópar sem má gera ráð fyrir að muni nýta sér vefinn. Eldra fólk sem komið er á eftirlaun vafrar um og flettir síðum. Fólk á miðjum aldri sem þekkir það af eigin raun hversu handhægt og öflugt tæki veraldarvefurinn getur verið í starfi.

Það er eitt megin einkenni tölvutækninnar að hún krefst enn meiri hraða dag hvern, nýrri upplýsinga, meira aðlaðandi hönnunar. Sá sem ekki spilar með í þeim leik missir einfaldlega af lestinni. Og þarna er nútímanum kannski réttilega lýst. Annars vegar viljum við hafa allt sem nýjast og hraðast, vera fremst og fyrst. Hins vegar erum við þjökuð af þessum ofsahraða. Fátt fær okkur til að staldra við til íhugunar og uppbyggingar, andinn fær vart hvílst eða nærast. Fátt virðist mikilvægara en annað.

Og þá er svo mikilvægt að muna eftir hinu einfalda, eftir kyrrðinni og undraveröldinni sem getur falist í notalegri stund við kertaljós eða góðum göngutúr um ósnortna náttúru. Þar fæst eitthvað sem gleður og veitir dýpri sýn á veruleikann.