Orð hafa áhrif

Orð hafa áhrif

Hér lesum við um fólk sem fær köllun í lífi sínu og hún breytir öllu. En Biblían fjallar ekki aðeins um persónur og leikendur. Hún mótar ekki síður líf lesendanna. Hún mótar heilu samfélögin. Þegar við gefum gaum að þeim sem hafa farið halloka í lífinu þá er það í samræmi við orð Biblíunnar. Þegar við hlúum að hinum veikburða og smáu þá lifum við í anda Jesú. Sum okkar tengjum þá mannúð og mildi ekki við kristna trú. En textarnir birta okkur einmitt mynd af slíku fólki, bjargvættum sem fengu óvænta köllun og leiddu af sér blessun. Sum úr þessum hópi hafi meir að segja lagt sig fram um að halda Biblíunni frá börnum og ungmennum hér á landi.

Skrásetjara Biblíunnar hefur vart rennt í grun um að árþúsundum síðar væri fólk enn að brjóta heilann um merkingu orða þeirra.

 

Brú á milli okkar og þeirra


Engin skrif sögunnar hafa þó verið rýnd af meiri nákvæmni, lesin út frá aðferðum bókmenntafræði, handritarýni, málvísinda, auk samtímasögu og skyldleika við önnur trúarbrögð en þau sem er að finna á spjöldum þessarar bókar. Og samt – eða e.t.v. þess vegna – eru margar skoðanir í gangi um túlkun þeirra. Þá er ég ekki að tala um okkur sem sækjum í þá lífsfyllingu og trúarsannfæringu. Nei fræðimenn setja fram rökstuddar kenningar um merkingu þeirra og tilgang.

 

Við ættum þó að geta verið sammála um að orðin sem þarna standa voru upphaflega ætluð allt öðru fólki en okkur. Og við eigum fátt sameiginlegt. Ég myndi ekki endast lengi í því umhverfi sem fyrstu móttakendurnir, lifðu í og hrærðist. Hópurinn sem upphaflega hlýddi á textann úr Jesaja var til að mynda í ánauð og hafði verið hrakinn langt frá heimkynnum sínum. Áður höfðu þau soltið heilu hungri eftir umsátur óvinahers og komust svo einhvern veginn lifandi í gegnum ógnartíma þegar sigursælir Babýlóníumenn létu greipar sópa. Íbúafjöldi jarðar var þá aðeins brotabrot af því sem nú er og fyrir því eru margar ástæður.

 

Orð hafa áhrif

 

„Orð okkar hafa áhrif“ segir í auglýsingum sem nú prýða strætóskýlin. Óhætt er að taka undir það.

 

Sá er einmitt máttur orðsins að bækur Biblíunnar lifðu alla þessa ferð í gegnum mannkynssöguna. Þær héldu sínu gildi þótt heimsveldi ættu eftir að rísa og hrynja með ósköpum. Og þrátt fyrir allar þessar kynslóðir sem hafa komið og farið á tímanum sem skilur á milli mín og skrásetjara þessara texta, þá er augljóslega sterkur samnefnari sem myndar brú á milli okkar.

 

Já, nú á Biblíudaginn er tilefni til að ræða það hvar þessi tengsl liggja. Hvert er erindi ævafornra orða til mín og ykkar sem dags daglega brjótið  heilann um allt aðra hluti heldur en fátækt fólk gerði í fornöld. Geta þar legið sammannlegir þræðir sem tengja okkur hvert við annað þótt kynslóðir skilji að?

 

Textar Biblíudagsins fjalla um það að eiga sér köllun. Sú hugsun er gegnumgangandi í bókinni sem dagurinn er helgaður. Þar eru sagðar sögur af fólki sem á einhvern hátt var tekið úr úr takti daglegs lífs og falið að sinna stóru verkefni. Þetta var sjaldnast öfundavert hlutskipti, öðru nær. Þau sem fengu þessa köllun, þráuðust flest hver við og þurftu í mörgum tilvikum að gjalda fyrir það dýru verði að vera drifin áfram af hugsjón.


En þar býr þó meir að baki. Manneskjan leitar að tilgangi í lífi sínu og sennilega erum við eina lífveran sem getur hreinlega gefið upp öndina ef við skynjum ekki merkingu í þessu öllu. Í allri mósaíkmynd þessara frásagna kynnumst við fólki sem fær þennan guðlega tilgang. Og það er mjög í anda Biblíunnar að þau koma úr ólíklegum áttum.

 

Kýrus


Sennilega þó enginn jafn fjarri öllum normum eins og Persakóngurinn Kýrus sem Jesaja spámaður er sennilega tað tala um – í það minnst er það álit fræðimanna að svo sé. Kýrus þessi var í einhverri könnun nú um síðustu aldamótin talinn í hópi áhrifamestu einstaklinga sögunnar. Jú, hann lagði Babýlóníumenn í mikilli hernaðarför en það heyrir þó ekki til tíðinda að þjóðir berist á banaspjótum þá frekar en nú. Hitt gerir hann svo merkilegan að hann hleypti þessum hrjáða hópi gyðinga aftur til síns heima. Upp frá þeim veiklulega kvisti uxu svo hin abrahamísku trúarbrögð, gyðingdóur, kristni og íslam.

 

Kýrus er dæmi um mann sem stendur utan samfélags þeirra sem textinn var ætlaður. Og hann minnir á að hjálpræðið kemur víðar en hjá hinum sanntrúuðu. Reyndar má geta þess í framhjáhlaupi að pólitíkusi einum –  sem er í litlum metum hjá þeim sem hér stendur – hefur verið líkt við þennan persakóng. Sá heitir Donald Trump og það eru strangtrúaðir kristnir söfnuðir sem hafa gefið honum þessa nafnbót. Hann hefur jú lýst eindregnum stuðningi við þá – en jafnvel þessir íhaldsömu evangelistar átta sig á því að lífsgildi Trumps eru órafjarri kristnu siðferði. Því fundu þeir honum samsvörun hjá Kýrusi þessum, sem einhvers konar heiðnu verkfæri til að vinna að framgangi trúarinnar.

 

Konan og Samverjarnir

  

En köllunin spyr hvorki um stétt né stöðu og þaðan af síður kyn. Í guðspjallinu er sérstaklega sagt frá samskiptum Jesú við konu – nokkuð sem hneykslaði samferðamenn hans og svo eru það hinir títtnefndu samverjar sem komast í sviðsljósið. Já, er það ekki tímanna tákn hversu ólíkum augum fólk leit kynin í þá tíð?

 

Nú eða Samverjarnir títtnefndu í Biblínni? Samverjar voru hópur sem hafðist við á landsvæði, Samaríu, – sem varð einmitt mannlaust þegar rjómi þjóðarinnar var numinn á brott til Babýlóníu. Við getum ímyndað okkur hversu vinsæl þau voru í augum gyðinga. Þær vinsældir voru litlar. Samverjar voru lifandi vitnisburður um ófarir, þeir þóttu óhreinir, trúvillingar og margar frásagir greina frá því hatri sem ríkti í þeirra garð.

 

Þegar hernámslið Rómverja leitaði að málaliðum til að stýra landinu í sínu nafni, þá nýttu þeir Samverjana. Þeir fengu vopn og verjur og áttu að halda úti lögum og reglu með öllu því ofbeldi sem því fylgdi. Það voru að öllum líkindum Samverjar sem negldu Jesú á krossinn á föstudeginum langa.

  

Og köllunin beinist til þeirra. Hún verður eins og mælistika fyrir hvert það samfélag sem tekur þessi orð til sín. Því trúarbrögðin geta tekið á sig ólíkar myndir. Ein þeirra er að mynda flokka – „við“ erum hérna megin og „þið“ hinum megin. Sú afstaða hefur verið undirrót óréttlætis, kúgunar og ófriðar í gegnum tíðina.

 

Bjargvættir úr óvæntri átt


Biblían talar gegn þessu. Það er alltaf jaðarfólkið sem stendur í hjarta sögunnar. Það eru ,,þið“ en ekki ,,við“ sem sjónarhornið beinist að. Fordómum okkar er ögrað – ekki með strangri innrætingu eða áróðri – heldur með þeirri frásagnarlist sem einkennir bók bókanna: sem er að segja sögur. Við heyrum þessar frásagnir og það er í anda boðaskaparins að við fáum sjálf að draga ályktanirnar.

 

Konur áttu þá og síðar undir högg að sækja, en slíkur var áhrifamáttur þessara sagna að Páll postuli sem lagði út af atburðum þessum í einu af bréfum sínum. Hann benti á að engu breytti hvert kyn manneskjunnar væri eða uppruni – við værum öll jöfn í augum Krists. Já og fólskuleg ummæli sem honum eru eignuð um að konur eigi að þegja í samkundunni munu að mati biblíufróðra vera seinni tíma mengun á textum hans! Þannig verður konan í postulasögunni einn þessara leiðtoga sem áttu eftir að hlúa að fyrstu kristnu söfnuðunum.


Hér lesum við um fólk sem fær köllun í lífi sínu og hún breytir öllu. En Biblían fjallar ekki aðeins um persónur og leikendur. Hún mótar ekki síður líf lesendanna. Hún mótar heilu samfélögin. Þegar við gefum gaum að þeim sem hafa farið halloka í lífinu þá er það í samræmi við orð Biblíunnar. Þegar við hlúum að hinum veikburða og smáu þá lifum við í anda Jesú.


Sum tengja þá mannúð og mildi ekki við kristna trú. Sum hafa meir að segja lagt sig fram um að halda Biblíunni frá börnum og ungmennum hér á landi. En textarnir birta okkur einmitt mynd af fólki úr óvæntri átt, óvæntum bjargvættum sem fengu köllun og leiddu af sér blessun. Þau sem vinna gegn útbreiðslu Biblíunnar, ættu að gefa gaum því sem þar stendur. Því þar er vegið gegn fordómum og klefahyggju. Já, um leið og við lítum systkin okkar hornauga fyrir að vera ólík okkur á einhvern hátt, þá ættum við að opna bókina góðu og kynna okkur boðskapinn sem þar er að finna.