Hjálp til sjálfshjálpar

Hjálp til sjálfshjálpar

Í ár fagnar Hjálparstarf kirkjunnar 50 ára afmæli sínu en þann 9. janúar 1970 ákvað kirkjuráð að formfesta hjálparstarf á vegum þjóðkirkjunnar.

Prédikun flutt í Hallgrímskirkju 1. sd. í aðventu 2020. 

(Tekin upp fyrir hljóðvarp og sjónvarp 27. nóvember).  Jes. 42:1-4; 1. Þess. 3:9-13; Mk. 11:1-11.


Bæn:

Kom þú Drottinn Jesús með ljós þitt inn í líf okkar hvers og eins.  Kom þú og lát huga okkar mótast af samfylgdinni með þér.  Kom þú með kærleika þinn og von og lát okkur bera þau til þeirra sem á vegi okkar verða.  Amen.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen. 

Þegar nýtt tímabil hefur göngu sína bindum við vonir við að það verði okkur hliðhollt sem einstaklingum, samfélagi og lífinu öllu í tíma og rúmi.  Ekki hvað síst á þetta við í dag þegar mannkynið glímir við heimsfaraldur.  Sem betur fer sjáum við fyrir endann á þessu ástandi hafta og hindrana sem faraldurinn hefur haft í för með sér.  

Nýtt tímabil er hafið í kirkjuárinu, því í dag er fyrsti sunnudagur í aðventu, fyrsti dagur nýs kirkjuárs.  Hvert tímabil kirkjuársins hefur sinn lit og einstaka dagar á hverju tímabili hafa sína liti.  Í dag er liturinn hvítur, hátíðarliturinn því í dag er hátíð þegar við göngum inn til nýs árs, nýrra verkefna.

Það fer vel á því að á fyrsta degi nýs kirkjuárs hugsum við til þeirra sem lítið hafa milli handa.  Hugsum til þess að við erum öll á sama lífsins báti og ber að vinna saman að farsæld og hagsæld allra um borð.  Hjálparstarf kirkjunnar hefur það að markmiði að „auka lífsgæði og þrautseigju þeirra sem taka þátt í starfinu“ segir framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins Bjarni Gíslason í leiðara í dag.  Hann segir jafnframt:  „Langtímamarkmiðið er viðunandi lífsgæði fyrir alla. Til að ná þessu markmiði þurfum við að hjálpast að.  Hér gildir það sama og í liðsíþróttum, við verðum að hjálpast að, bakka hvert annað upp. Gott lið, þar sem menn og konur standa saman í gegnum þykkt og þunnt, getur náð ótrúlega langt. Langt um fram það sem reikna hefði mátt með út frá hverjum einstaklingi fyrir sig. Það höfum við sannarlega séð í frábærum árangri íslenskra landsliða. Sama gildir um samfélag okkar í heild, á Íslandi og um allan heim, við verðum að standa saman.“

Samstaðan hefur komið okkur í gegnum hörmungar þessa árs.  Samstaða, ásamt von um að erfiðleikarnir taki enda.  Nú, eins og fyrri ár stendur Hjálparstarf kirkjunnar fyrir söfnun á jólaföstunni.  Sendar eru valgreiðslur í heimabanka landsmanna á aldrinum 30-80 ára og sem fyrr er safnað til verkefna innanlands og utan undir kjörorðunum „Hjálpumst að“.

Í ár fagnar Hjálparstarfið 50 ára afmæli sínu en þann 9. janúar 1970 ákvað kirkjuráð að formfesta hjálparstarf á vegum þjóðkirkjunnar.

Á þessu ári hefur svo sannarlega verið sýnt fram á að það er þörf fyrir Hjálparstarf kirkjunnar. Á fimm mánaða tímabili, frá apríl til ágúst fjölgaði umsóknum um efnislega aðstoð hér innanlands um 40% miðað við sama tímabil í fyrra.

Hjá Hjálparstarfinu vinna þrír félagsráðgjafar sem liðsinna þeim sem þangað leita.  Aðferðafræðin byggist á því að hjálpa fólki til sjálfshjálpar og felst neyðaraðstoðin fyrst og fremst í því að fólk fær inneignarkort fyrir matvöru. Það felst virðing í því að bjóða fólki að velja sjálft í matarkörfuna og það er valdeflandi fyrir þann einstakling sem er í þeirri erfiðu stöðu að þurfa aðstoð við að sjá fjölskyldunni farborða.

Börnin eru framtíð þessa lands.  Eitt meginmarkmið neyðaðstoðar Hjálparstarfsins innanlands er að bágur efnahagur fjölskyldna komi ekki í veg fyrir að börn og unglingar geti tekið þátt í íþrótta- og tómstundastarfi með jafnöldum sínum og að börnin einangrist ekki félagslega sökum fátæktar.  Ungmenni eru styrkt til náms svo þau geti lokið námi sem gefur þeim starfsréttindi eða veitir þeim inngöngu í lánshæft nám.

Félagsráðgjafar Hjálparstarfs kirkjunnar segja að það sé munur á líðan fólks sem leitar til Hjálparstarfsins nú og þeirra sem leituðu aðstoðar í kjölfar bankahrunsins árið 2008. Þá gat fólk fundið erfiðum tilfinningum sínum farveg út á við og nú er margt fólk einmana og kvíðið.  Aðlögunarhæfni fólks er ótrúleg að sögn þeirra sem veita fólki aðstoð á erfiðum tímum og hlýhugur almennings, fyrirtækja og stjórnvalda er þakkarverður.  Það ríkir samhugur um að hjálpast að svo fólk geti lifað faraldurinn af með reisn.

Fátækt er víða um heim.   Alþjóðabankinn segir að stríðsátök, loftslagsbreytingar og COVID-19 geti leitt til þess að 150 milljónir manna bætist í hóp sárafátækra fyrir lok næsta árs. Bankinn segir að til þess að heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um útrýmingu fátæktar fyrir árið 2030 náist þurfi að grípa til umfangsmikilla aðgerða strax.  Hjálparstarfið heldur áfram mannúðaraðstoð á vettvangi náttúruhamfara og vegna átaka í samvinnu við Alþjóðlegt hjálparstarf kirkna. Starfið tekur mið af sóttvarnarreglum á vettvangi en hvarvetna hefur starfsfólk tekið þátt í aðgerðum til að hefta útbreiðslu COVID-19 og sem fyrr er aðferðin að hjálpa þannig að fólkið komist á þann stað að geta hjálpað sér sjálft.

Við komumst í gegnum erfiða tíma með því að hjálpast að.  Vera í sama liði, horfa í sömu átt, treysta, trúa, biðja og vona.

Það gerði fólkið sem fylgdi Jesú til Jerúsalem dag einn eins og sagt er frá í guðspjalli dagsins.  Sagan um innreið Jesú í Jerúsalem segir frá fólki á ferð.  Fólki sem þekkti sögu síns fólks og erfði vonir og væntingar forfeðra sinna og mæðra.  Fólki sem þekkti staðhætti og umhverfi  sitt.  Þá staði sem nefndir eru til sögunnar, Jerúsalem, Betfage og Betaníu við Olíufjallið. Jerúsalem þar sem musterið hið nýja var að rísa, Betfage, sem þýðir fíkjuhús, þar sem fíkjurnar vaxa í kílóavís og Betaníu við Olíufjallið sem dregur nafn sitt af olíuviði sem vex í hlíðum þess.  Þar á fjallinu sagði Jesús lærisveinunum söguna af endalokum musterisins enda hægt að horfa þaðan niður musterissvæðið sem blasti við þaðan. 

Og nú voru þau sem fylgdu Jesú þennan dag að reyna það sem þau höfðu heyrt og lesið um, þegar konungurinn kæmi til Jerúsalem ríðandi á asna, ungum ösnufola eins og Sakaría spámaður orðar það í frásögn sinni.  Og þau kunnu að fagna og gleðjast.  Breiddu klæði sín og veifuðu trjágreinum olíutrjánna enda nóg af þeim á þessum slóðum.  Þannig hafði fólkið þeirra fagnað og þannig fögnuðu þau. Fögnuðu því að þau lifðu það sem sagt hafði verið, að konungurinn kæmi, en kynslóðirnar höfðu vænst þess að það myndi rætast á hérvistardögum þeirra.  Þau höfðu heyrt sögurnar allar eins og við höfum heyrt sögurnar af heimsfaraldrinum í spænsku veikinni eða af kreppu millistríðsáranna.  Nú eru það ekki bara sögur heldur fáum við að reyna á okkar hérvistardögum að kreppa og heimsfaraldur getur gerst hvenær sem er.  Líka á tímum tækni og framfara á öllum sviðum.

Árið 1918 var Íslendingum mótdrægt. Þau sem lifðu af faraldur, eldgos, frostavetur eru foreldrar okkar, afar, ömmur, langafar og langömmur.  Þau komust í gegnum hörmungarnar allar og miðluðu af reynslu sinni til afkomenda sinna.  Þau miðluðu líka af trúararfinum, trúnni sem gefur von og dreifir kærleik til þeirra sem vilja taka við honum.  

Sagan sem Markús guðspjallamaður ritar og lesin var hér í kirkjunni í dag segir okkur margt um Jesú.  Hann var auðmjúkur leiðtogi fólksins, Guð og maður í senn. Konungur fylgjenda sinna.  Í huga þeirra sem fylgdu honum þennan dag var hann sá sem þjóðin hafði beðið eftir, leiðtogi og konungur.  Greinarnar sem fólkið klippti af trjánum voru tákn sigurs og velgengni. Söngurinn bæn þeirra um áheyrn og frelsi.  Þrá nútímamannsins er hin sama og þess sem fylgdi Jesú þennan dag.  Við þráum hamingjusamt líf, kærleiksríks samferðafólks, öryggi og vernd.  Líf í trú birtist meðal annars sem trú í verki. 

Hjálparstarf kirkjunnar er ein birtingarmynd trúar í verki.  Starfið gengur út á að efla samhjálp og stuðning, að þau sem meira hafa deili með þeim sem minna hafa.  Sá stuðningur er ekki eingöngu í formi fjármuna heldur einnig í formi umhyggju, þar sem von er vakin og kærleikurinn sýndur í verki. 

Framkvæmdastjóri Hjálparstarfsins segir í pistli.

“Kórónuveirufaraldurinn geisar, efnahagurinn versnar, félagsleg einangrun eykst og þannig mætti lengi halda áfram. Eina vonin er bóluefni er sagt og það er ekki alveg á næsta leiti. Ég velti því fyrir mér hvort annars konar bóluefni sé ef til vill hluti af lausninni. Reyndar hefur töluvert borið á því en enn fleiri mættu fá sér þessa bólusetningu. Hún er kærleikur, umburðarlyndi og samhugur. Þetta er bólusetning sem búið er að margreyna í aldanna rás og hefur sýnt sig að virkar mjög vel. Það besta við þetta bóluefni er að það þarf ekki að bíða eftir framleiðslu eða athuga birgðastöðu, það er alltaf til í ríkulegu magni fyrir þá sem vilja þiggja.

En hvernig tekur maður inn þetta bóluefni? Það er heldur ekkert vandamál. Það þarf enga sérfræðinga eða sprautu til heldur getur hver og einn notað sína aðferð við að innbyrða bóluefnið. Og það besta er að allir finna áhrifin, þetta virkar strax. Bólefnið hefur í för með sér að sá sem hefur verið bólusettur sýnir ábyrgð og vilja til að tryggja öryggi og hag annarra og dómharka og eigingirni hverfur á braut.

Nú er tækifæri til að sýna samhug og kærleika. Nú er átakið „Ekkert barn útundan“ í gangi hjá Hjálparstarfi kirkjunnar, við erum að safna fjármunum til að geta stutt efnalitla foreldra grunnskólabarna í upphafi skólaárs.”

Bjarni framkvæmdastjóri Hjálparstarfs kirkjunnar hvetur okkur til að innbyrða bóluefnið samhug og kærleika og láta gott af okkur leiða, meðal annars með því að taka þátt í söfnun Hjálparstarfs kirkjunnar.

Við felum þeim Guði sem Jesús birti okkur og boðaði nýtt kirkjuár og biðjum þess að við finnum nærveru hans í lífi og starfi.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.  Amen.

Takið postullegri kveðju:

Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum.  Amen.