Er upprisan brauðterta og marengs?

Er upprisan brauðterta og marengs?

En svo er upprisan líka oft ofur hversdagslegur atburður, stundum er hún grátandi barn sem er huggað, hendur í mjúkri mold, blóm sem vex upp um síðir, brauðterta, marengs og uppdekkuð borð
fullname - andlitsmynd Hildur Eir Bolladóttir
31. mars 2013
Flokkar

Ég man alltaf eftir kirkjugarðsdeginum heima í sveitinni í gamla daga. Þá komu menn saman í Laufásgarði að sumri, slógu gras, rökuðu, hreinsuðu í kringum leiðin, settu niður Stjúpur eða Fjólur eða önnur falleg blóm, struku jafnvel með rökum klút yfir grafskriftina svo ekki færi milli mála hver þar lægi, hvenær hann hefði fæðst og dáið. Í minningunni er alltaf sól á þessum degi og allir ganga til verka af fumlausri virðingu og væntumþykju. Ég man ekki hvort ég varð að miklu gagni, þá átti ég heldur engan í þessum garði en nöfn eru enn grópuð í huga minn, nöfn fólks sem hafði jafnvel dáið áður en ég leit heiminn fyrst, þar voru líka nafnlausar grafir en um þær var einnig hirt. Þá var þessi dagur fyrst og fremst spennandi samvera með sveitungum sem lifðu og hrærðust í sama heimi og ég. Þegar ég horfi til baka og rifja upp þessa daga sé ég fólk sem kraup við legstað ástvina sinna en hefur nú haldið upp í sína hinstu ferð og ber beinin í sömu mold, nú geng ég um þennan garð og að baki nöfnum er fólk sem ég þekkti og þótti vænt um og elskaði. Að vitja grafar er staðfesting á því að maður hafi átt og misst en sé borin áfram af órjúfanlegum böndum. Þannig líður mér alltaf þegar ég les upprisfrásögn guðspjallanna, þá les ég oftast útgáfu Markúsar, held að það sé vegna þess að vinkonur hans eru með ilmsmyrsl meðferðis til að smyrja líkama hans og þar sem þær ganga í morgunsólinni og hitanum er þær að velta fyrir sér hvernig þær eigi að komast inn í gröfina sem var höggvinn í klett, velta fyrir sér hvort þær geti velt steininum frá. Þegar ég les þá útgáfu fer ég ósjálfrátt tilbaka til kirkjugarðsdagsins heima í Laufási, það eru þessar praktísku vangaveltur sem koma mér inn í aðstæðurnar. Ég sé bændurna fyrir mér þar sem þeir eru að reyna að bakka traktorskerru inn í garðinn og heyri pælingarnar um hvar best sé að taka vatn til að vökva blómin ég sé karla með orf og ljá og krakka að reyta arfa og það er enginn að tala um hina látnu en allir að hugsa um þá með höndunum, í verkunum, eins og konurnar forðum sem héldu af stað við sólarupprás. Og þannig er lífið, fullt af praktískri tjáningu á tilfinningum og væntumþykju sem er ekki beinlínis ljóðræn nema maður leggi sig fram um að sjá veruleikann sem þar býr að baki. Ég fylgdi gömlum skólabróður til grafar á dögunum og blessuð sé minning hans, útförin fór fram í hinni sveitinni minni Skagafirði þar sem ég gerðist unglingur með meiru. Það var margt sem snart mig þennan dag, tónlistin í athöfninni, ræða prestsins, gömlu skólafélagarnir sem ég hafði ekki séð í langan tíma, erfidrykkjan og loks setning sem þar var sögð. Það var skólasystir okkar sem hafði aðstoðað um morguninn við að raða borðum og dekka salinn og hún sagði þegar ég var búin að lofa ræðu prestsins og tónlistina „ já og svo var svo fallegt að sjá alla sveitungana bera bakkelsið hingað inn í morgun, þegjandi og hljóðalaust.“ Já eins og konurnar forðum hugsa ég nú á þessum morgni. Öll þessi umhyggja í sorginni, þessi alúð við grafreiti ástvina, þessi praktíska tjáning á samúð, væntumþykju og vináttu sem getur birst í brauðtertu eða marengs, stólaburði eða dúkalögnum er fyrsta skrefið í átt að hinni tómu gröf. Sorgarferlið er ekki rómans heldur raunveruleiki þar sem áþreifanlegir hlutir spila stóra rullu, já skipta verulegu máli. Upprisan þarf ekki bara að vera óhlutbundin hugsun, óáþreifanlegur veruleiki, hún er oft hversdagsleg og gerist án þess að skilgreina sjálfa sig. Því þó að við fögnum Páskum í dag í hinum upprisna Drottni þá er hann ekki bara upprisinn á meðan við sitjum hér, hann er upprisinn alla daga í mannlegum aðstæðum og samskiptum. Við þekkjum upprisu af þeirri tilfinningu sem henni fylgir, það er tilfinningin um að eitthvað rétt og satt hafi gerst. Við sækjum í að að túlka hana út frá árstíðarskiptum, því þegar vorið leysir vetur af hólmi og náttúran lifnar við og mennirnir með, já þegar við sjáum fyrsta túnfífillinn, heyrum Lóuna syngja intro að betri tíð, eins konar Grand opening sumarsins, finnum ilm af fyrsta slætti, heyrum árnið í fjarska, eins tenór bak við leiktjöld því sumstaðar hafa klakabönd þiðnað og sumstaðar ekki. Ég heyrði bókmenntafræðing segja um daginn að engin árstíð hefði verið íslenskum skáldum jafn hugleikin og vorið, það hefur s.s. verið rannsakað. Hér áður fyrr í gamla bændasamfélaginu, var það ekki bara tími birtu og yls heldur raunveruleg staðfesting á því að menn og dýr hefður lifað af veturinn við fábrotnar aðstæður. Líf manneskjunnar er háð von, manneskjur lifa fyrir von, líka þær sem ekki trúa á upprisinn Drottinn. Hvað eftir annað heyrum við prestar og sjáum fólk með banvæna sjúkdóma sem þraukar fram yfir mikilvæg tímamót sem eru í augsýn og það þráir svo heitt að lifa. Þvert á líkur læknisfræðinnar gerist það aftur og aftur, vonin ber okkur uppi þegar allt annað bregst, líkami og heilsa. Þess vegna megum við aldrei láta af þeirri einlægni og því hugrekki að vona, megum aldrei vera svo föst í hinu rökrétta samhengi að við fáum ekki staðið utan hrings, kannski eins og í ljóðinu hans Steins Steinars sem heitir einfaldlega Utan hringsins: Ég geng í hring/í kringum allt sem er/ og innan þess hrings er veröld þín. Minn skuggi féll um stund á gluggans gler. Ég geng í hring/ í kringum allt sem er/ og utan þess hrings er veröld mín. Því hver er raunveruleg áhætta þess að fella saman þessa tvo hringi? Er það hættan á að teljast barnslega trúgjarn? Upprisa Krists er í raun það eina sem er „vandræðalegt“ í kristinni trú, að öllu öðru leyti er kristin trú mjög sýnileg og áþreifanleg og kannski ef að Kristur hefði ekki risið upp þætti hún almennt meira töff. Maðurinn sem tók sér stöðu með jaðarhópum samfélagsins, maðurinn sem gerði útskúfaðar konur að lærisveinum, maðurinn sem þorði að sýna réttláta reiði og grét þó hann væri leiðtogi í fullkomlega karllægu samfélagi. Það væri hægt að vinna talsvert með þetta efni í komandi kosningum en nei þá þurfti hann að gera þetta vandræðalega atriði að rísa upp frá dauðum, breyta krossinum úr aftökutæki í sigurtákn. Hvernig er hægt að tala um þetta kinnroðalaust? Það er ekki alltaf auðvelt og ekki alltaf tímabært en þær stundir koma sem upprisan verður að hljóðlausu samkomulagi manna um að segja sem minnst en greiða í staðinn náðinni veg. Það verður hvort eð er aldrei hægt að rökræða upprisuna og kannski verður aldrei hægt að trúa henni fyrr en maður hefur vitnað dýpstu harma, neyð, niðurlægingu og fullkominn vanmátt en samt séð fólk lifa af og meira en það, séð það rísa upp, vaxa og verða sterkara en fyrr eins og jökulá í leysingum. En svo er upprisan líka oft ofur hversdagslegur atburður, stundum er hún grátandi barn sem er huggað, hendur í mjúkri mold, blóm sem vex upp um síðir, brauðterta, marengs og uppdekkuð borð. Amen.